Fréttir

Hlutverk landbúnaðarins í lífhagkerfi Norðurslóða – 6.-8. október

Níunda alþjóðaráðstefna Samtaka um landbúnað á Norðurslóðum (Circumpolar Agricultural Conference) verður haldin hér á landi á Hótel Söga 6.-8. október 2016.

Á ráðstefnunni verður fjallað um svæðisbundna framleiðslu sem styrkir dreifðar byggðir, matvælaframleiðslu á Norðurslóðum, ferðamennsku og nýsköpun sem bregst við breyttum aðstæðum. Sérstök áhersla verður lögð á að að kynna góðan árangur sem hefur náðst á einu svæði og aðrir geta notið góðs af. Matvælasýning á vegum lokaráðstefnu NordBio áætlunarinnar verður felld inn í.

Hægt er að skrá sig á heimasíðu ráðstefnunnar, www.caa2016.com. Ráðstefnugjaldið er kr. 35.200.

Þann 8. október verður farin skoðunarferð um landbúnaðarhérað með menningarlegu ívafi þar sem gestir kynnast íslenskum landbúnaði.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal hjá Matís.

Fréttir

Heimsókn frá Research Executive Agency

Þær Dr. Agne Dobranskyte-Niskota, fulltrúi rannsóknarverkefna (Research Programme Officer) og Sophie Doremus, lögfræðingur, báðar frá Research Executive Agency (REA) Evrópusambandins heimsóttu Matís þann 7. september.

Tilgangur heimsóknarinnar var að fylgjast með framvindu tveggja einstaklingsstyrkjaverkefna (Individual Fellowship) sem falla undir Marie Skłodowska-Curie áætlunina (MSCA), en þessi verkefni eru núna í gangi hjá Matís. Verkefnin tvö eru annars vegar verkefni Dr. Ástu H. E. Pétursdóttur sem nefnist Þversnið af þangi (SilhouetteOfSeaweed, project no. 656596) og hins vegar verkefni Dr. Gregory K. Farrant sem ber nafnið AstroLakes (project no. 704956).

Dagurinn hófst á fyrirlestri þeirra Dr. Agne Dobranskyte-Niskota og Sophie Doremus, en þær kynntu bæði REA og MSCA áætlunina. Dr. Helga Gunnlaugsdóttir hélt þvínæst fyrirlestur og kynnti starfsemi Matís. Ásta og Gregory kynntu síðan sig sjálf og verkefnin sín, og spjölluðu svo við gestina frá REA í einstaklingsviðtölum. Deginum lauk með því að gestirnir skoðuðu alla aðstöðu Matís.

EU

Fréttir

Enn öruggari upplýsingar um hollustu sjávarfangs

Nýlega ákváðu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi – SFS – að styrkja Matís til að vinna verkefnið – Næringargildi sjávarafurða: merkingar og svörun –  sem er sjálfstætt framhald verkefnis um Næringargildi sjávarafurða, sem AVS styrkti á árunum 2008-2010. Verkefnið miðar að því að styrkja íslenskan sjávarútveg í alþjóðlegri samkeppni á kröfuhörðum mörkuðum einkum innan hins Evrópska Efnahagssvæðis, ekki hvað síst varðandi auknar kröfur um merkingar á næringargildi.

Gengið var frá samkomulagi 8. september s.l. um tilhögun verkefnisins, með undirritun Jens Garðars Helgasonar formanns SFS og Sveins Margeirssonar forstjóra Matís.

Með verkefninu er þegar í stað hafist handa við að búa í haginn fyrir sjávarútveg morgundagsins svo hann geti mætt þörfum viðskiptavina sinna og er það er eitt af fjölmörgum hagnýtum verkefnum sem Matís vinnur að og þjóna breiðum hagsmunum íslensks sjávarútvegs og búa í haginn fyrir hagkvæma sókn íslensks sjávarútvegs á mið og markaði framtíðarinnar. Viðtakandi niðurstaðna verkefnisins eru Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Umsjónarmaður verkefnisins hjá SFS er Steinar Ingi Matthíasson. Verkefnisstjóri verkefnisins hjá Matís er Ólafur Reykdal

Fréttir

Lífgasframleiðsla hliðarbúgrein fiskeldis á Vestfjörðum?

Með aukinni uppbyggingu í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum koma fram áhugaverð hliðarverkefni við fiskeldið sem geta stuðlað að minni umhverfisáhrifum. Eitt af þeim verkefnum er að finna viðeigandi úrvinnslu á fiski sem drepst í eldiskvíum á eldistímanum.

Alltaf er eitthvað um að fiskur drepist í eldiskvíunum vegna sára, sjúkdóma eða verður undir í lífsbaráttunni í kvíunum einhverra hluta vegna. Algengt er að reikna með að um 4% af sláturþyngd fisksins drepist á eldistímanum. Flestir fiskar drepast meðan fiskurinn er smár eftir útsetningu í kvíarnar en alltaf er hætta á afföllum þó reynt sé að stemma stigu við þeim. Þessi fiskur er óhæfur til manneldis og sem fóður fyrir dýr og fiska til manneldis en hægt að nota hann í fóður fyrir loðdýr ef tekst að ná fiskinum sem fyrst eftir dauða. Megnið af dauðfiski er þó ekki nýtanlegt í loðdýrafóður og því hefur verið farin sú leið hér á landi að urða hann þar sem önnur leið er ekki í boði enn sem komið er.

Með auknu eldi er fyrirsjáanlegt að magn dauðfisks mun aukast á næstu árum og því brýnt að reyna að finna leiðir til að nýta þetta hráefni betur en að urða það með tilheyrandi kostnaði við geymslu og akstur. Í Noregi hefur þetta hráefni verið sett í sýru til að koma í veg fyrir lyktarvandamál og síðan hefur meltan ásamt öðru hráefni verið notuð sem fóður fyrir niðurbrotslífverur sem brjóta niður hráefnið. Við niðurbrotið myndast lífgas sem samanstendur að stórum hluta af metani og koltvísýringi auk annarra lofttegunda og lífgasið er síðan er notað til orkuframleiðslu. Því kviknaði sú hugmynd að kanna hvort framleiðsla á lífgasi úr dauðfiski væri framkvæmanleg við þær aðstæður sem eru að skapast á sunnanverðum Vestfjörðum.

Verkefnið var samstarfsverkefni Fjarðalax, Orkubús Vestfjarða og Matís og fékk styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða síðastliðinn vetur. Í verkefninu voru kortlagðir allir mögulegir hráefnisstraumar á sunnanverðum Vestfjörðum sem til greina kæmu við lífgasframleiðslu auk mögulegrar nýtingar á orku frá verinu og mögulegt staðarval. Miðað við þær áætlanir sem eru um aukningu laxeldis á sunnanverðum Vestfjörðum gætu fallið til á bilinu 1.200 – 1.600 tonn af dauðfiski innan fárra ára auk annars hráefnis. Kostnaður við förgun þessa fisks gæti hlaupið á 40 – 60 milljónum króna á ári miðað við akstur og urðun í Fíflholti á Mýrum sem er sá urðunarstaður sem næstur er. Kostnaður við uppsetningu lífgasvers sem vinnur úr sambærilegu magni af hráefni gæti verið á bilinu 80 – 120 milljónir en stærðarhagkvæmni ræður miklu um kostnað við lífgasver og rekstur þeirra.

Í verkefninu kom fram að skortur er á kolefnisríku hráefni til að blanda saman við fiskinn til að jafna hlutfall kolefnis og köfnunarefnis en fyrir niðurbrotslífverurnar er æskilegt hlutfall kolefnis á móti köfnunarefni að vera um 30. Kolefni fæst úr hálmi, kornvörum svo sem byggi og grænmetisafskurði svo dæmi séu tekin. Lítið framboð er af slíku hráefni á sunnanverðum Vestfjörðum og því þyrfti að flytja það annars staðar frá svo sem frá brugghúsum eða öðrum stórnotendum. Því gæti önnur hliðarbúgrein við fiskeldið hugsanlega orðið bjórverksmiðja á sunnanverðum Vestfjörðum til að fá kolefni í lífgasframleiðsluna.

Í verkefninu var ekki lagt mat á kostnaðarliði eða hagkvæmni lífgasversins þar sem mjög margir óvissuþættir eru fyrir hendi og því ekki hægt að greina slíkt með neinni nákvæmni. Ljóst er þó að vert er að skoða hugmyndina um lífgasver betur með tilliti til sparnaðar fyrirtækja og umtalsverðs ávinnings í umhverfismálum fyrir fyrirtæki og íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum. Uppbyggingarsjóður Vestfjarða fær þakkir fyrir fjárhagslegan stuðning við verkefnið og einnig fá þeir fjölmörgu aðilar sem veittu upplýsingar um ýmsa þætti þakkir fyrir sitt framlag.

Skýrsluna má nálgast á heimasíðu Matís.

Nánari upplýsingar veitir Lilja Magnúsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Viltu keppa í matarhandverki?

Kunstens mat, Mathantverk / Rannikon ruoka, Artesaaniruoka – Opna Finnska meistarakeppnin í Matarhandverki fer fram í Ekenäs 10.-13. október 2016

Finnland fer með formennsku í Norræna ráðherraráðinu í ár. Í ljósi þess er tilvalið að vekja athygli á Finnsku meistarakeppninni í Matarhandverki. Þátttökurétt hafa finnskir sem og norrænir aðilar og eru Íslendingar hvattir til að taka þátt.

Skráning þátttöku fer fram á vefslóðinni www.novia.fi/mathantverkfm.

Keppnin er öllum opin og er þetta kjörin vettvangur til að hitta aðra matarhandverksmenn. Auk keppninnar stendur áhugasömum til boða að sitja sérhæfð námskeið, heimsækja áhugaverða aðila í nærumhverfi keppnisvettvangsins og taka þátt í fleiri viðburðum. Allir þátttakendur í keppninni fá skriflegar umsagnir dómnefndar. Þátttökugjald í matarhandverkskeppninni er 30€ (u.þ.b. 3900 ISK) fyrir hverja vöru sem skráð er. Einnig er mögulegt að hafa samband við Jonas Harald í síma +358 (0) 50 548 3400 eða Ann-Louise Erlund í síma +358 (0) 44 799 8406 til að gefa til kynna áhuga á þátttöku í keppninni eða með því að senda tölvupóst á netfangið mathantverk2016@novia.fi fyrir lok dags 5. september.

Keppnisflokkar taka til mjólkurvöru, kjöts, fisks, brauðmetis, berja og ávaxta, grænmetis og sveppa afurðakrydda, nýsköpunar í matarhandverki, drykkja, krydda og matarsósa, nánari upplýsingar um Keppnisreglur má finna hér.  

Öllum er heimil þátttaka í námskeiðum og námsferðum, óháð þátttöku matarhandverkskeppninni, skráningar frestur þátttöku í þeim viðburðum varir til 30. September n.k. og er mælst til þess að áhugasamir skrái sig til slíkrar þátttöku á vefslóðinni www.novia.fi/mathantverkfm/anmalan-till-seminarieprogram.

Finnska meistarakeppnin í matarhandverki er skipulögð í breiðu samstarfsverkefni Landbúnaðar og skógræktarráðuneyti Finnlands, Novia skólans auk verkefnisins Kunstens Mat.

Kunstens_mat_2016

Fréttir

Matvæladagur MNÍ – tilnefningar til Fjöreggsins

Matvæladagur MNÍ 2016 verður haldinn á Hótel Natura fimmtudaginn 20. október. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Áhrif matvælarannsókna í breyttum heimi og verður fjallað um væntanlegar neyslubreytingar á heimsvísu og mikilvægi menntunar og rannsókna í því samhengi.

Að venju verður „FJÖREGG MNÍ,“ veitt á Matvæladegi fyrir lofsvert framtak á matvæla- og/eða næringarsviði. Fjöreggið, íslenskt glerlistaverk, hannað og framleitt hjá Gleri í Bergvík, verður eins og áður veitt með stuðningi frá Samtökum iðnaðarins.

Öllum er frjálst að tilnefna vörur eða gott framtak fyrirtækja, stofnana eða félagasamtaka sem sýnt hafa frumkvæði og skarað fram úr á matvæla- og/eða næringarsviði og eru þess verðug að keppa um verðlaunin. Mikilvægt er að setja fram rökstuðning með tilnefningunni.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að láta vita af því sem þeir telja að vel sé gert á þessu sviði.

Tilnefningar, merktar „Fjöregg MNÍ“, á að senda á netfangið mni@mni.is ekki seinna en 20. september.

Fréttir

Þrír doktorsnemendur – Matís, Hafrannsóknastofnun og Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Matís og Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna í samvinnu við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands auglýsa eftir þremur doktorsnemendum til að vinna í öndvegisrannsóknaverkefninu Microbes in the Icelandic Marine Environment (MIME) sem styrk er af Rannsóknasjóði Rannsóknamiðstöðvar Íslands (Rannís).

Eftirfarandi þrjú doktorsverkefni er um að ræða:

  1. Rannsóknir á örverufjölbreytileika í hafinu umhverfis Ísland með áherslu á frumbjarga örverur. Nemandi verður staðsettur hjá Matís.
  2. Rannsóknir á genamengjum og gena tjáningu genamengja örvera á Íslands miðum til að skilja betur lífeðlisfræðilega svörun vegna breytinga á umhverfisþáttum. Nemandi verður staðsettur hjá Matís.
  3. Rannsóknir á hlutverki plöntusvifs og pico-heilkjörnungum í samhengi við örverufjölbreytileika og dreifingu, og hlutverki þeirra í þeirra í efnahringrásum sjávar. Nemandi verður staðsettur hjá Hafrannsóknastofnun – rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna.

Fyrir nánari og mikilvægar upplýsingar um stöðurnar og hvernig sækja skal um er mikilvægt að lesa auglýsinguna um stöðurnar í heild sinni.

Fréttir

Alþjóðleg ráðstefna um lífhagkerfið og niðurstöður NordBio

Ísland og Norræna ráðherranefndin boða til alþjóðlegrar ráðstefnu um lífhagkerfið og niðurstöður NordBio verkefna í Hörpu 5.-6. október 2016.

Yfirskrift ráðstefnunar er: MINDING THE FUTURE. Bioeconomy in a changing Nordic reality.

Meðal fyrirlesara eru Christine Lang, formaður þýska lífhagkerfisráðsins, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Lene Lange, prófessor í lífefnafræði við Tækniháskólann í Kaupmannahöfn, Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands og Bryan Alexander, framtíðarfræðingur og rithöfundur. Þá munu Gunnar Bragi Sveinsson, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar flytja opnunarerindi. Ráðstefnustjórn verður í höndum Þóru Arnórsdóttur og Stefáns Gíslasonar.   

Ráðstefnan fer fram á ensku og skiptist í gagnvirka fyrirlestra og málstofur.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hér.

Þátttökugjald er 15.000. Innifalið eru kaffiveitingar og hádegisverður. Skráningargjaldið hækkar í 20.000 þann 10. september.

Mikilvægt er að skrá þátttöku hér.

Ráðstefnan er lokahnykkur NordBio áætlunarinnar, sem er þriggja ára verkefni (2014-2016 ) um lífhagkerfið undir formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Undir merkjum NordBio hefur breiður hópur sérfræðinga á Norðurlöndum sameinað krafta sína og unnið að verkefnum sem stuðla að sjálfbærri nýtingu lifandi náttúruauðlinda. Markmið NordBio er að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda í því skyni að draga úr sóun og efla nýsköpun, grænt atvinnulíf og byggðaþróun.

Vinsamlegast áframsendið póstinn til þeirra sem áhuga kunna að hafa.                 

Vonumst til að sjá sem flesta í Hörpu 5. og 6. október.

MindingTheFuture

Fréttir

Endurskoðun ársreiknings Matís er athugasemdalaus enn eitt árið

Nú fyrir stuttu skilaði Ríkisendurskoðun skýrslu vegna endurskoðunar á ársreikningi Matís fyrir árið 2015. Skemmst er frá því að skýrslan er athugasemdalaus og er þetta í annað sinnið á þessu ári sem Matís fær góða einkunn hvað þessi mál varðar.

Í viðbót við hefðbundna endurskoðun eins og lög gera ráð fyrir var framkvæmd áhættugreining fyrir reikningsskilin og gerð greining á rekstri og efnahag ársins 2015 og í ljós kom að innra eftirlit Matis hvað varðar ársreikninginn er gott.

Unnið er að bókhaldsferlum og verklagsreglum í samvinnu við Ríkisendurskoðun og er það félaginu mikið keppikefli að reksturinn sé með þeim hætti að ekki séu gerðar athugasemdir hvorki hjá úttektaraðilum hér innanlands né erlendum aðilum sem taka félagið út vegna samstarfsverkefna. Heilindi skipta stjórnendur og starfsmenn miklu máli, hvort sem um er að ræða heilindi í vísindastarfi og rannsóknum eða heilindi þegar kemur að rekstri og fjárhagslegri stjórnun Matís.

Stjórn félagsins fylgist auk þess reglulega með afkomunni og eru milliuppgjör unnin reglulega allt árið.

Eins og áður sagði var endurskoðunin athugasemdalaus og er þetta í annað sinnið á þessu ári sem Matís fær góða einkunn hvað þessi mál varðar. Í vor fór fram umfangsmikil endurskoðun frá Evrópusambandinu er lýtur að öllu fjárhagslegu utanumhaldi Matís þegar kemur að verkefnum sem félagið hefur stýrt innan ramma rannsóknaáætlana Evrópu (FP7). Sú endurskoðun var einngi athugasemdalaus.

Nánari upplýsingar veitir Kristinn Kolbeinsson, fjármálastjóri Matís.

Fréttir

Nature birtir grein um lífhagkerfisstefnu

Hið virta vísindatímarit Nature, birti nýverið grein um fimm lykilatriði varðandi þróun lífhagkerfisins. Greinin byggir á afrakstri stórrar ráðstefnu, Global Bioeconomy Summit, sem fram fór í Berlín haustið 2015, en Sigrún Elsa Smáradóttir, forstöðumaður lausna og ráðgjafar hjá Matís, sat í stýrihópi ráðstefnunnar.

Nýlega voru birt drög að lífhagkerfisstefnu Íslands og hefur vinna við mótun þeirrar stefnu m.a. tekið mið af afrakstri Global Bioeconomy Summit.

Höfundar greinarinnar í Nature leggja m.a. áherslu á alþjóðlegt samstarf og fjárfestingar í lífmassaverum (biorefineries). Áhugasamir geta fræðst nánar á vef Nature.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa Smáradóttir.

IS