Fréttir

Skúli ST-75 bátur maí mánaðar í fegurðarsamkeppni

Fyrsta viðurkenningin fyrir góða aflameðferð er komin í réttar hendur. Áhöfnin á Skúla ST-75 sendi okkur fínar myndir af því hvernig þeir meðhöndla fisk.

Fallegur fiskur – vel gert feðgar!

Er feðgarnir Haraldur Vignir Ingólfsson og Ingólfur Árni Haraldsson á Skúla ST-75 frá Drangsnesi komu til hafnar í gær beið þeirra vösk sveit með Má Ólafsson stjórnarmann í Landssambandi smábátaeigenda (LS) og Smábátafélaginu Ströndum í broddi fylkingar.  Tilefnið var að afhenda þeim fegðum verðlaun fyrir besta myndefni maí mánaðar í „Fallegur fiskur“ átaki LS og Matís. Hlutu þeir að launum forláta GoPro myndavél, ásamt viðurkenningarskjali.

Ingólfur Árni og Haraldur Vignir taka við verðlaunum úr hendi Más Ólafssonar.Skuli_ST-75_7_web

Átakið „Fallegur fiskur“ er ætlað að stuðla að aukinni vitund um mikilvægi góðrar aflameðferðar og hversu miklu máli það skipti að stunda vönduð vinnubrögð. Með því að virkja sjómenn í að deila myndum og sögum þar sem vel er að verki staðið vonast LS og Matís til að geta gert þeim sem best standa sig hátt undir höfði og um leið hvetja aðra til að gera slíkt hið sama.

Með þessari viðurkenningu vilja LS og Matís auka vitund um mikilvægi góðrar aflameðferðar og hversu miklu máli það skiptir að stunda vönduð vinnubrögð.

Sjómenn eru hvattir til að senda inn myndir og sögur á Facebook, Instagram eða Twitter síðum átaksins og komast þannig í „pottinn“ fyrir næstu verðlaunaafhendingu.

Ágætu sjómenn: endilega sendið inn myndir sem sýna fyrirmyndar vinnubrögð því verðlaunin fyrir bestu myndirnar af eru ekki af verri endanum.

Frekari leiðbeiningar um þátttöku má nálgast á http://www.matis.is/fallegurfiskur

Skuli_ST-75_4_web

Fréttir

Nýjar áherslur í starfsemi Matís

Síðastliðið ár hefur átt sér stað kröftug stefnumótunarvinna hjá Matís. Mjög stór hluti starfsmanna fyrirtækisins hefur komið að þessari vinnu en auk þess hefur verið unnið í minni hópum og utanaðkomandi aðstoð þegin.

Nýjar áherslur hafa litið dagsins ljós án þess þó að fallið hafi verið frá fyrri verkefnum. Ákveðnar skipulagsbreytingar hafa átt sér stað í kjölfarið og er Matís nú enn betur í stakk búið til að takast á við framtíðar áskoranir í matvæla- og líftækniiðnaði þar sem áhersla er lögð á aukna verðmætasköpun, aukið matvælaöryggi og lýðheilsu með öflugum stuðningi við okkar viðskiptavini.

Með nýjum áhersum viljum við ítreka að Matís er öflugt þekkingar- og vísindasamfélag sem byggir á sterkum rannsóknainnviðum og samstarfi, með það að markmiði að hámarka áhrif fjárfestinga í rannsóknum og nýsköpun

Nýtt skipurit Matís.

Fréttir

Mjög góðar niðurstöður úr þjónustukönnun Matís

Með reglulegu millibili er lögð þjónustukönnun fyrir viðskiptavini örveru og efnamælinga, þjónustu sem boðið er upp á innan mæliþjónustusviðs Matís. Síðasta könnun var lögð fyrir viðskiptavini fyrir stuttu síðan og óhætt er að segja að viðskiptavinir Matís kunni að meta þá þjónustu sem fyrirtækið býður upp á. 

Niðurstöðurnar gefa góða heildarmynd af viðhorfi viðskiptavina Matís til þessarar þjónustu fyrirtækisins. Ef nokkur dæmi eru tekin úr niðurstöðunum þá voru viðskiptavinir mjög sammála um að Matís hefði staðist væntingar hvað varðar gæði og öryggi niðurstaðna, sömuleiðis mjög sammála um að afgreiðsluhraði hafi verið góður og mjög sammála um að starfsmenn hafi þá þekkingu og reynslu sem leitað var eftir. Auk þess voru viðskiptavinir mjög sammála um að viðmót starfsmanna Matís sé ánægjulegt, svo nokkur dæmi séu tekin. 

Þetta eru sannarlega góðar niðurstöður og eru Matís mikil hvatning. Jafnframt er þetta hvatning um að gera betur og þjónusta viðskiptavini okkar enn betur en nú er gert.

Heildar niðurstöður.

Ýmsar góðar og athyglisverðar athugasemdir bárust frá viðskiptavinum og verður reynt að bregðast við þeim eins og hægt er. Helstu athugasemdirnar sneru að eftirfarandi atriðum:

  • Athugasemdir bárust um útfærslu á könnuninni. Fram komu ábendingar um að meiri sundurliðun á viðskiptavinum hefði verið æskileg og verður það haft í huga við skipulagningu á næstu þjónustukönnun.
  • Óskir um fleiri tegundir af efnamælingum komu fram. Þó mikill og fullkominn tækjabúnaður sé til hjá Matís, er ekki hægt að koma algjörlega til móts við allar óskir, en hins vegar geta starfsmenn Matís fundið út og haft milligöngu um að senda sýni á systurstofnanir erlendis í þeim tilvikum sem ekki er hægt að bjóða upp á viðkomandi rannsókn hér heima.
  • Athugasemdir um viðmiðunarreglur og túlkun á niðurstöðum. Ekki er unnt að senda viðmiðunargildi út með niðurstöðum en viðskiptavinir eru hvattir til að hafa samband annað hvort með tölvupósti eða símleiðis, og er starfsmönnum bæði ljúft og skylt að aðstoða á allan þann hátt sem þeir eru færir um. Bæði hvað varðar túlkun og mat á niðurstöðum.
  • Athugasemd um að Matís kæmi sér upp notendasvæði, þar sem viðskiptavinur hefði aðgang að öllu varðandi sínar rannsóknir.  Þetta væri vissulega hægt og er bæði metnaðarfullt og spennandi en jafnframt kostnaðarsamt  verkefni sem vonandi verður að veruleika í framtíðinni.
  • Óskað var eftir uppfærslu á beiðnablöðum, en það er atriði sem verið er að vinna í.
  • Auk þess fékk Matís ánægjulegar athugasemdir þar sem þakkað var fyrir góða þjónustu, og kom greinilega fram að mikil ánægja er með þjónustu starfsstöðvar Matís í Neskaupstað.

Fréttir

Ekki ruglast! Matís er ekki Matvís sem er ekki MAST…..

Ekki nóg með að nöfn þessara eininga séu keimlík heldur er umfjöllunarefni þeirra að mörgu leyti það sama; matur! Það er því alls ekki skrýtið að fólk ruglist. Og til að bæta gráu ofan á svart þá eru þau með aðsetur eða útibú á nánast sama svæðinu í Reykjavík.

MAST (Matvælastofnun): Matvælastofnun sinnir stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla. Staðsetning: Selfoss, umdæmi dýrlækna á landsvísu og að Stórhöfða 23. Heimasíða: www.mast.is

Matvís: MATVÍS er félag iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum, þ.e.a.s. bakara, kökugerðarmanna, framreiðslumanna, kjötiðnaðarmanna, matreiðslumanna, nema og annarra sem starfa við framreiðslu, matreiðslu og sölu á matvælum og félagið ákveður að veita viðtöku. Staðsetning: Stórhöfða 31. Heimasíða: www.matvis.is

Matís (Matvælarannsóknir Íslands): Matís er þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla. Matís gegnir engu eftirlitshlutverki. Staðsetning: Vínlandsleið 12 og á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. Heimasíða: www.matis.is

Fréttir

Kynningar- og vinnufundur: Lífhagkerfisstefna fyrir Ísland

Fimmtudaginn 26. maí kl. 14-16 fer fram kynning á drögum að lífhagkerfisstefnu fyrir Ísland. Kynningin fer fram í höfuðstöðvum Matís að Vínlandsleið 12 í Reykjavík.

Vinna við mótun stefnunnar hefur farið fram undanfarna mánuði í umboði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Á fundinum verða drög stefnunnar kynnt hagaðilum og kallað eftir umræðum og athugasemdum.

Nauðsynlegt er að skrá sig á netfangið matis(at)matis.is til þess að taka þátt. Í skráningunni þarf að koma fram fullt nafn og upplýsingar í hvaða vinnuhópi óskað er eftir að taka þátt (sjá hópaskiptingu neðar).

Dagskrá

  • 14:00-14:15     Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra – ávarp
  • 14:15-14:40     Sigrún Elsa Smáradóttir – kynning á lífhagkerfisstefnunni
  • 14:40-15:20     Hópavinna
  • 15:20-16:00     Yfirferð yfir niðurstöður vinnuhópa og umræður

Vinnuhópar

Alþjóðlegt samstarf og nýir markaðir

•    Samlegðaráhrif rannsóknaáætlana
•    Þróunarsamvinna
•    Samstarf á norðurslóðum

Vannýttar auðlindir og tækifæri þvert á geira

•    Nýting vannýttra auðlinda
•    Nýting hliðarafurða
•    Tækniyfirfærsla milli geira

Tækniþróun og uppbygging mannauðs

•    Opið lífmassaver
•    Menntun morgundagsins
•    Samhæfing RNI (rannsóknir, nýsköpun, iðnaður)

Byggðaþróun og öflugir innviðir

•    Svæðisbundin stefna
•    Áhersla stefnumiðaðra sjóða
•    Styrking innviða

Opinber fjárfesting og fjárfesting einkaaðila

•    Stuðningur við sprota
•    Stefnumiðaðar rannsóknaáherslur
•    Nýting gagna og kynning

Bláa lífhagkerfið

•    Framtíðar vörur og markaðir
•    Sjálfbær nýting og lausnir gegn mengun
•    Forysta í málefnum hafsins

Fréttir

Gengur þú um með matarhugmynd í maganum? – við skulum taka slaginn með þér

Vertu velkomin(n) á vinnufund hjá Matís þar sem farið verður í gegnum praktíska þætti matarvöruþróunar og hvernig vel skipulögð matarhönnun getur gert vöru einstaka og eftirsóknarverða.

Allar hugmyndir þar sem matur er megin viðfangsefnið eru velkomnar. Þetta getur snúist um framleiðslu, framreiðslu eða matarupplifun. Að þessu sinni höfum við sérstaklega mikinn áhuga á sjávartengdu hráefni en að sjálfsögðu eru allir með góðar matarhugmyndir velkomnir.

Stjórnendur vinnufundarins eru: Guðjón Þorkelsson matvælafræðingur, Óli Þór Hilmarsson
kjötiðnaðarmeistari og matarhönnuðirnir Brynhildur Pálsdóttir og Kristín María Sigþórsdóttir.
Í lok vinnufundarins stendur þátttakendum til boða að sækja um stuðning til að vinna áfram með hugmynd sína og munu 4-6 hugmyndir verða valdar áfram.

Stuðningurinn er að andvirði 1 m.kr. á hvert verkefni og felst sá stuðningur í aðstoð frá sérfræðingum Matís og matarhönnuðunum Brynhildi og Kristínu Maríu.

Stefnt skal að því að verkefnin verði komin af teikniborðinu og í framleiðslu- eða lokaundirbúning fyrir
1. nóvember 2016.

Tilkynning um þátttöku sendist á netfangið matarhugmynd@matis.is

Nauðsynlegt er að heiti hugmyndar og örstutt lýsing verkefnis komi fram ásamt fullu nafni þátttakanda/-enda.

Vinnufundurinn verður 26. maí kl. 10 til 14 í húsakynnum Matís að Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík.

Léttur hádegisverður í boði Matís.

Matis_vid_erum_til_i_slaginn_mai2016_verknr4141_AB_FINAL

Fréttir

Matur er mikils virði – nýir straumar og markaðssetning matvæla

Matur er mikils virði er yfirskrift ráðstefnu sem haldin verður í Silfurbergi í Hörpu í dag, fimmtudaginn 19. maí. Samstarfsvettvangur um Matvælalandið Ísland efnir til ráðstefnunnar og verður sjónum beint að framtíðinni og leiðum til að auka verðmæti þeirra matarauðlinda sem Íslendingar búa yfir.

Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni er Birthe Linddal, danskur sérfræðingur í framtíðarfræðum, en hún heldur erindi um nýjustu strauma og stefnur í matargeiranum. Fjöldi annarra erinda verða flutt um nýjar leiðir til að auka virði afurða, stefnu íslenskra fyrirtækja og sagðar verða reynslusögur af nýstárlegum aðferðum til að ná til neytenda. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpar gesti en ráðstefnustjóri verður Hörður Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri hjá Matís.

Ráðstefnan hefst með hádegishressingu kl. 12.00 í umsjá matreiðslumeistaranna Bjarna Gunnars Kristinssonar, yfirkokks í Hörpu, og Gísla Matthíasar Auðunssonar, eiganda Slippsins í Vestmannaeyjum og Matar og drykkjar í Reykjavík.  

Matvælalandið Ísland er samstarfsvettvangur Bændasamtaka Íslands, Háskóla Íslands, Íslandsstofu, Matís, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þetta er í fjórða sinn sem þessir aðilar standa að ráðstefnu undir merkjum Matvælalandið Ísland en sú fyrsta var í nóvember 2012.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Samtaka iðnaðarins, www.si.is.

Fréttir

Málþing um nýsköpun, fjárfestingu og fjármögnunarleiðir fyrir matvæla- og líftæknifyrirtæki

Rannís, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök iðnaðarins bjóða til málþings í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 17. maí nk. frá kl. 13:00-16:00.

Dagskrá:

  • 13:00 Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra setur málþingið
  • 13:10 Horizon 2020 áætlunin Oddur M. Gunnarsson, sviðsstjóri Matís og stjórnarnefndarfulltrúi
  • 13:30 Bio Based Industries Joint Undertaking Marta Campos Iturralde, sérfræðingur hjá Evrópusambandinu
  • 14:10 Bláa hagkerfið Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi 
  • 14:30 Fyrirmyndarverkefnið Iceprotein Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Iceprotein
  • Kaffi
  • 15:15 Tækniþróunarsjóður Lýður Skúli Erlendsson, sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís
  • 15:40 Fjárfestingar í matvæla- og líftækniiðnaði Jenný Ruth Hrafnsdóttir, fjárfestingastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins
     
    Fundarstjóri er Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri Matís

Nánari upplýsingar um skráningu má finna á vef Rannís.

Fréttir

Laus staða lektors – rannsóknir og kennsla í fiskeldisfræðum

Lektor óskast til starfa í sameiginlega stöðu Háskólans á Hólum og Matís með starfsstöð í Verinu á Sauðárkróki.

Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum leggur áherslu á rannsóknir í fiskeldi með sérstöku tilliti til umhverfisvænna og arðbærra lausna í greininni, t.d. hvað varðar fóðurfræði, eldisumhverfi, endurnýtingu og kynbætur. Við deildina starfa 11 starfsmenn og auk þeirra á annan tug nemenda í meistara- og doktorsnámi. Matís er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna-, þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Í Verinu er öflugt samfélag vísindamanna og atvinnulífs, og vettvangur nýsköpunar í nýtingu auðlinda.

Hlutverk starfsmannsins verður að efla þverfaglegar rannsóknir á sviði fiskeldis með áherslu á fræðasvið Háskólans á Hólum og Matís.

Horft er til þess að starfsmaðurinn geti mótað þverfaglegar rannsóknir í fiskeldisfræðum og skyldum greinum, sinnt kennslu og rannsóknum, leiðbeint meistara- og doktorsnemum og tekið þátt í þróun nýrra afurða tengdum fiskeldi.

Menntunar- og hæfnikröfur:

  • doktorspróf í fiskeldisfræðum, kynbótum, fóðurfræði eða skyldum greinum
  • reynsla af rannsóknum í fiskeldi eða skyldum greinum, kennslu, stjórnun, mótun verkefna eða þróunarstarfi
  • ábyrgð, frumkvæði og hæfni í mannlegum samskiptum
  • góð enskukunnátta

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna um nýráðningar og framgang akademískra starfsmanna við Háskólann á Hólum.

Um 100% stöðu er að ræða. Launakjör eru skv. kjarasamningum opinberra starfsmanna. Um starfskjör, réttindi og skyldur gilda að öðru leyti lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Umsækjandi þarf að geta hafið störf 1. ágúst 2016. Nánari upplýsingar veita Bjarni Kristófer Kristjánsson í síma 455 6386 og Anna Kristín Daníelsdóttir í síma 858 5014.

Umsóknarfrestur er til 30. maí 2016. Umsóknir skulu berast á netfangið umsoknir@holar.is merktar „lektor-fiskeldi“. Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni afrit af prófskírteinum, ferilskrá og samantekt fræðastarfs, auk greinargerðar um áform ef til ráðningar kemur. Með umsókn skal einnig fylgja yfirlit ritverka og annars vísindalegs afraksturs sem umsækjandi vill að tekið sé tillit til við mat á hæfi, sem og nöfn tveggja umsagnaraðila.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. 

Fréttir

Nýr ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðar í heimsókn hjá Matís

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kom nú fyrir stuttu ásamt nokkrum starfsmönnum ráðuneytisins í heimsókn til Matís. Kynnti hann sér starfsemi Matís, hitti Svein Margeirsson, forstjóra Matís og nokkra starfsmenn fyrirtækisins.

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs-
og landbúnaðarráðherra og
Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.
Gunnar Bragi Sveinsson og Sveinn Margeirsson

Heimsóknin var ánægjuleg og mikilvægt fyrir Matís að varpa ljósi á þau góðu verk sem starfsmenn fyrirtækisins inna af hendi.

Við þökkum ráðherra og starfsfólki ráðuneytisins fyrir heimsóknina.

IS