Fréttir

Matur er mikils virði – nýir straumar og markaðssetning matvæla

Matur er mikils virði er yfirskrift ráðstefnu sem haldin verður í Silfurbergi í Hörpu í dag, fimmtudaginn 19. maí. Samstarfsvettvangur um Matvælalandið Ísland efnir til ráðstefnunnar og verður sjónum beint að framtíðinni og leiðum til að auka verðmæti þeirra matarauðlinda sem Íslendingar búa yfir.

Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni er Birthe Linddal, danskur sérfræðingur í framtíðarfræðum, en hún heldur erindi um nýjustu strauma og stefnur í matargeiranum. Fjöldi annarra erinda verða flutt um nýjar leiðir til að auka virði afurða, stefnu íslenskra fyrirtækja og sagðar verða reynslusögur af nýstárlegum aðferðum til að ná til neytenda. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpar gesti en ráðstefnustjóri verður Hörður Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri hjá Matís.

Ráðstefnan hefst með hádegishressingu kl. 12.00 í umsjá matreiðslumeistaranna Bjarna Gunnars Kristinssonar, yfirkokks í Hörpu, og Gísla Matthíasar Auðunssonar, eiganda Slippsins í Vestmannaeyjum og Matar og drykkjar í Reykjavík.  

Matvælalandið Ísland er samstarfsvettvangur Bændasamtaka Íslands, Háskóla Íslands, Íslandsstofu, Matís, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þetta er í fjórða sinn sem þessir aðilar standa að ráðstefnu undir merkjum Matvælalandið Ísland en sú fyrsta var í nóvember 2012.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Samtaka iðnaðarins, www.si.is.

Fréttir

Málþing um nýsköpun, fjárfestingu og fjármögnunarleiðir fyrir matvæla- og líftæknifyrirtæki

Rannís, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök iðnaðarins bjóða til málþings í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 17. maí nk. frá kl. 13:00-16:00.

Dagskrá:

  • 13:00 Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra setur málþingið
  • 13:10 Horizon 2020 áætlunin Oddur M. Gunnarsson, sviðsstjóri Matís og stjórnarnefndarfulltrúi
  • 13:30 Bio Based Industries Joint Undertaking Marta Campos Iturralde, sérfræðingur hjá Evrópusambandinu
  • 14:10 Bláa hagkerfið Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi 
  • 14:30 Fyrirmyndarverkefnið Iceprotein Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Iceprotein
  • Kaffi
  • 15:15 Tækniþróunarsjóður Lýður Skúli Erlendsson, sérfræðingur á rannsókna- og nýsköpunarsviði Rannís
  • 15:40 Fjárfestingar í matvæla- og líftækniiðnaði Jenný Ruth Hrafnsdóttir, fjárfestingastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins
     
    Fundarstjóri er Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri Matís

Nánari upplýsingar um skráningu má finna á vef Rannís.

Fréttir

Laus staða lektors – rannsóknir og kennsla í fiskeldisfræðum

Lektor óskast til starfa í sameiginlega stöðu Háskólans á Hólum og Matís með starfsstöð í Verinu á Sauðárkróki.

Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum leggur áherslu á rannsóknir í fiskeldi með sérstöku tilliti til umhverfisvænna og arðbærra lausna í greininni, t.d. hvað varðar fóðurfræði, eldisumhverfi, endurnýtingu og kynbætur. Við deildina starfa 11 starfsmenn og auk þeirra á annan tug nemenda í meistara- og doktorsnámi. Matís er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna-, þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Í Verinu er öflugt samfélag vísindamanna og atvinnulífs, og vettvangur nýsköpunar í nýtingu auðlinda.

Hlutverk starfsmannsins verður að efla þverfaglegar rannsóknir á sviði fiskeldis með áherslu á fræðasvið Háskólans á Hólum og Matís.

Horft er til þess að starfsmaðurinn geti mótað þverfaglegar rannsóknir í fiskeldisfræðum og skyldum greinum, sinnt kennslu og rannsóknum, leiðbeint meistara- og doktorsnemum og tekið þátt í þróun nýrra afurða tengdum fiskeldi.

Menntunar- og hæfnikröfur:

  • doktorspróf í fiskeldisfræðum, kynbótum, fóðurfræði eða skyldum greinum
  • reynsla af rannsóknum í fiskeldi eða skyldum greinum, kennslu, stjórnun, mótun verkefna eða þróunarstarfi
  • ábyrgð, frumkvæði og hæfni í mannlegum samskiptum
  • góð enskukunnátta

Um meðferð umsókna, mat á hæfi umsækjenda og ráðningu í starfið er farið eftir ákvæðum laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglna um nýráðningar og framgang akademískra starfsmanna við Háskólann á Hólum.

Um 100% stöðu er að ræða. Launakjör eru skv. kjarasamningum opinberra starfsmanna. Um starfskjör, réttindi og skyldur gilda að öðru leyti lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Umsækjandi þarf að geta hafið störf 1. ágúst 2016. Nánari upplýsingar veita Bjarni Kristófer Kristjánsson í síma 455 6386 og Anna Kristín Daníelsdóttir í síma 858 5014.

Umsóknarfrestur er til 30. maí 2016. Umsóknir skulu berast á netfangið umsoknir@holar.is merktar „lektor-fiskeldi“. Umsækjendur skulu láta fylgja umsókn sinni afrit af prófskírteinum, ferilskrá og samantekt fræðastarfs, auk greinargerðar um áform ef til ráðningar kemur. Með umsókn skal einnig fylgja yfirlit ritverka og annars vísindalegs afraksturs sem umsækjandi vill að tekið sé tillit til við mat á hæfi, sem og nöfn tveggja umsagnaraðila.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. 

Fréttir

Nýr ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðar í heimsókn hjá Matís

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kom nú fyrir stuttu ásamt nokkrum starfsmönnum ráðuneytisins í heimsókn til Matís. Kynnti hann sér starfsemi Matís, hitti Svein Margeirsson, forstjóra Matís og nokkra starfsmenn fyrirtækisins.

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs-
og landbúnaðarráðherra og
Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.
Gunnar Bragi Sveinsson og Sveinn Margeirsson

Heimsóknin var ánægjuleg og mikilvægt fyrir Matís að varpa ljósi á þau góðu verk sem starfsmenn fyrirtækisins inna af hendi.

Við þökkum ráðherra og starfsfólki ráðuneytisins fyrir heimsóknina.

Fréttir

Lengi býr að fyrstu gerð – sýnum það besta

Hvað er betra en að fá þá sem kunna til verka að sýna hvernig gott verk er unnið. Matís og Landssamband smábátaeigenda (LS) blása til samkeppni meðal sjómanna um að sýna í máli og myndum hvað þarf til svo fyrsta flokks afli berist að landi.

Samfélagsmiðlar verða nýttir til að sýna frá störfum sjómanna og munu sjómennirnir sjálfir sjá um myndir og texta.

Í lok hvers mánaðar, maí, júní, júlí og ágúst verður einn sjómaður valinn sem þykir hafa skilað besta og jákvæðasta efninu. Eingöngu verður lagt mat á myndirnar og textann og mun það vera í höndum Matís og LS að velja úr aðsendum og birtum myndum.

Markmið verkefnisins er að auka vitund um mikilvægi góðrar aflameðferðar og hversu miklu máli það skiptir að stunda vönduð vinnubrögð. Nauðsynlegt er að sýna neytendum með jákvæðum hætti að vel sé að verki staðið og að unnið sé með ábyrgum hætti að sjálfbærri nýtingu okkar sameiginlegu auðlindar.

Myndir eða stutt myndbönd mega vera af nánast hverju sem er varðandi sjómennsku, veiðar og aflameðferð. Við viljum þó fyrst og fremst sjá myndir sem fanga jákvæða mynd aflameðferðar og ekki er vitlaust að velta því fyrir sér hvað það er sem gerir fiskinn þinn þann besta á markaðnum og með hvaða hætti þú getur sýnt það í máli og myndum.

Svo er alls ekki bannað að vera frumleg(ur) og skemmtileg(ur) í myndavali og gefa ímyndunaraflinu svolítið lausan taum því það verður til mikils að vinna.

Leiðbeiningar vegna ljósmyndakeppninnar

Hægt er að taka þátt í keppninni í gegnum samfélagsmiðlana Facebook, Instagram eða Twitter. Einnig er hægt að senda tölvupóst með mynd og texta á netfangið fallegurfiskur@matis.is

Facebook

1.    Farðu á síðuna www.facebook.com/fallegurfiskur eða finndu síðuna í Facebook símaappi undir Fallegur fiskur og smelltu á „Like“ hnappinn.
2.    Taktu mynd sem varpar ljósi góða meðhöndlun afla/hráefnis sem gerir það að verkum að fyrsta flokks afli berist að landi.
3.    Settu myndina á vegginn hjá www.facebook.com/fallegurfiskur og skrifaðu lýsandi texta um myndina.
4.    Smelltu á „Share“ hnappinn eða þann hnapp eða þann hnapp sem deilir myndinni og textanum á Facebook.

Instagram

1.    Farðu á síðuna www.instagram.com/fallegurfiskur/ eða finndu síðuna í Instagram símaappi undir Fallegur fiskur og smelltu á „Follow“ hnappinn.
2.    Taktu mynd sem varpar ljósi góða meðhöndlun afla/hráefnis sem gerir það að verkum að fyrsta flokks afli berist að landi.
3.    Settu myndina með lýsandi texta á Instagram vegginn þinn en gerðu auk þess tvennt:
a.    „Hash-taggaðu“ / notaðu myllumerkið (#) á myndina/færsluna með #fallegurfiskur og
b.    Settu @fallegurfiskur í textann eða „Taggaðu“ fallegurfiskur í „Tag people“ valmöguleikanum
4.    Smelltu á „Share“ hnappinn eða þann hnapp eða þann hnapp sem deilir myndinni og textanum á Instagram.

Twitter

1.    Farðu á síðuna www.twitter.com/fallegurfiskur eða finndu síðuna í Twitter símaappi undir Fallegur fiskur og smelltu á „Follow“ hnappinn.
2.    Taktu mynd sem varpar ljósi góða meðhöndlun afla/hráefnis sem gerir það að verkum að fyrsta flokks afli berist að landi.
3.    Settu myndina með lýsandi texta á Twitter vegginn þinn en gerðu auk þess tvennt:
a.    „Hash-taggaðu“ / notaðu myllumerkið (#) á myndina/færsluna með #fallegurfiskur og
b.    Settu @fallegurfiskur í textann eða „Taggaðu“ fallegurfiskur í „Who‘s in this photo“ valmöguleikanum
4.    Smelltu á „Tweet“ hnappinn eða þann hnapp sem deilir myndinni og textanum á Twitter.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Ítarefni:

Fréttir

Greining fiskveiðistjórnunarkerfa: notkun líkana og hermun

Mánudaginn 2. maí ver Sigríður Sigurðardóttir starfsmaður Matís doktorsritgerð sína í iðnaðarverkfræði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Andmælendur eru dr. Villy Christensen, prófessor og forstöðumaður Sjávar- og fiskirannsóknarstofnunar Háskólans í Bresku Kólumbíu, Kanada, og dr. Ronald Pelot, prófessor við Dalhousie-háskóla í Halifax, Kanada.

Leiðbeinandi var dr. Gunnar Stefánsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Einnig sátu í doktorsnefnd Sigurjón Arason, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís, dr. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, dr. Páll Jensson, prófessor í iðnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík, og dr. Birgir Hrafnkelsson, dósent í tölfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.
 
Dr. Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og deildarforseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar, stjórnar athöfninni.

Hvenær hefst þessi viðburður: 2. maí 2016 – 14:00Staðsetning viðburðar: Askja Nánari staðsetning: Stofa 132

Ágrip af rannsókn

Fiskveiðistjórnun er vandasamt verkefni sem tekst á við fjölda áskorana, þ.m.t. of stóran fiskveiðiflota, brottkast afla og óarðbærar veiðar. Líta má á fiskveiðar sem kerfi sem einkennast af samspili manna við náttúruauðlindir. Tölvuvædd hermilíkön eru gagnleg til þess að auka skilning á fiskveiðistjórnun sem og styðja við ákvarðanir tengdar stjórnun veiða. Líkön gagnast til þess að meta áhrif breytinga á stjórnun veiða á ólíka þætti, svo sem fiskistofna, atvinnu og afkomu. Breytingarnar eru til dæmis sóknartakmarkanir, breyting á úthlutun kvóta eða krafa um að allur afli komi að landi.

Markmið rannsóknarinnar var að stuðla að bættri fiskveiðistjórnun. Tilgangurinn var að þróa líkön og herma fiskveiðistjórnunarkerfi með það að markmiði að bera saman ólíkar nálganir í stjórnun veiða. Það er gert með því að líta á áhrif þeirra á valdar breytur sem eru ýmist hagrænar, líffræðilegar eða félagslegar. Meginframlag rannsóknarinnar felst í að kynna aðferðir sem hingað til hafa lítið eða ekki verið nýttar á þessum vettvangi. Rannsóknin er þverfagleg og sameinar líkangerð og hermun sem á rætur að rekja til verkfræði og sjávarútvegsfræði sem byggir á vistfræði, hagfræði og félagsfræði. Þrjú líkön voru þróuð, blendings (e. hybrid) hermilíkan sem samanstendur af kviku kerfislíkani (e. system dynamics model) og strjálu-atburða hermilíkani (e. discrete-event simulation model) og nýrri tegund líkana sem er í ætt við einingalíkön (e. agent-based models). Einn angi rannsóknarinnar fjallaði um brottkast en þar voru tólf aðferðir til að draga úr brottkasti metnar kerfisbundið með svokallaðri SVÓT greiningu sem felur í sér að greina styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri.

Um doktorsefnið

Sigríður Sigurðardóttir fæddist 1. desember 1983. Hún lauk B.Sc. prófi árið 2007 í iðnaðarverkfræði og  meistaragráðu í sama fagi árið 2011. Meistararitgerð Sigríðar fjallaði um líkön og leiðir til hagræðingar í mjólkurvinnslu hjá Mjólkursamlagi Kaupfélags Skagfirðinga. Samhliða doktorsnáminu, sem hófst árið 2011, hefur Sigríður starfað hjá Matís við fjölbreytt verkefni, einkum í sjávarútvegi. Sigríður varði hluta námstímans erlendis; við Kaliforníuháskóla í Berkeley og Chalmers tækniháskólann í Gautaborg og naut leiðsagnar þarlendra prófessora.

Eiginmaður Sigríðar er dr. Egill Maron Þorbergsson og eiga þau dótturina Önnu Ísafold.

Fréttir

Háskóli Íslands upp um nær 50 sæti á lista yfir bestu háskóla heims – Matís er stoltur samstarfsaðili

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgum að Háskóli Íslands (HÍ) fékk enn eina rós í hnappagatið fyrr í þessari viku þegar Times Higher Education World University Rankings 2015-2015 birti lista yfir bestu háskóla heims. Skólinn færist upp um hartnær 50 sæti á þessum lista, úr 270. sæti í það 222.

Góð tenging hefur lengi verið á milli HÍ og Matís. Fjölmargir starfsmenn Matís koma að kennslu hjá HÍ þá sérstaklega í matvæla- og næringarfræði sem og kennslu í líftæknitengdum greinum. Starfsfólk Matís er ákaflega stolt af því að Matís skuli vera nefnt sem samstarfsaðili þessa öfluga háskóla og lítur björtum augum til áframhaldandi samstarfs á næstu árum og áratugum.

Matís óskar Háskóla Íslands til hamingju með þessa miklu viðurkenningu!

Um samstarf HÍ og Matís

Matís hefur átt í miklu og góðu samstarfi við Háskóla Íslands um nám í matvælafræði en það er samvinnuverkefni Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Matís. Í náminu er lögð rík áhersla á að nemendur vinni hagnýt verkefni og séu í tengslum við atvinnulífið.

Samstarfið við Háskóla Íslands er ekki bundið við matvæla- og næringarfræðideild þar sem einnig er mikið samstarf við verkfræði- og náttúruvísindasvið og einnig félagsvísindasvið.

Sumarið 2013 gerðu Matís og HÍ með sér samning um víðtækt samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Samningurinn leggur grunninn að frekri eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna. Samkomulagið er mikilvægt skref í formlegu samstarfi Matís og Háskóla Íslands um samnýtingu aðfanga, innviða rannsókna og mannauðs. Það felur í sér ásetning um að vera í fararbroddi á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til.

Háskóli Íslands hefur mótað sér stefnu til ársins 2016, þar sem m.a. er lögð áhersla á doktorsnám, framúrskarandi rannsóknir og kennslu, auk áherslu á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís. Á vegum HÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir og kennsla á þeim fræðasviðum sem Matís fæst við, einkum á vettvangi heilbrigðisvísinda- og verkfræði- og náttúruvísindasviða skólans.

Margt er gert til að tryggja enn betur samstarf og góða samvinnu á milli aðila í þessum mikilvægu greinum. Til að mynda var árið 2012 blásið til sóknar í matvælafræðinámi á Íslandi. Með samstarfi Matís og Háskóla Íslands, í samvinnu við aðra ríkisrekna háskóla, var nýtt alþjóðlegt meistaranám í matvælafræði sett á laggirnar en námið hefur heldur betur slegið í gegn og fjölgar nemendum ár frá ári. Nánari upplýsingar um námið má finna hér: www.framtidarnam.is.

Auk þess var stofnað nýtt svið hjá Matís með það fyrir augum að tengja enn betur saman iðnaðinn og háskólasamfélagið.

„Með stofnun sviðs um menntun og matvælaframleiðslu gerum við starfsemi og hlutverk Matís meira áberandi og tengjum betur saman atvinnulífið, menntun, rannsóknir og þróun á matvælum,“ segir Guðjón Þorkelsson um hið nýja svið menntunar og matvælaframleiðslu sem tók til starfa innan Matís þann 1. júní 2012.

Fréttir

Áhugaverð ráðstefna á Akureyri – Sjávarútvegur á Norðurlandi

Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) stendur fyrir áhugaverðri ráðstefnu á morgun, föstudaginn 15. apríl. Fjöldi góðra fyrirlesara mun þar flytja erindi sem tengjast sjávarútvegi og er einn þeirra Sæmundur Elíasson frá Matís og Háskólanum á Akureyri.

Nánari upplýsingar má finna á vef RHA.

Fréttir

Er sjálfbær aukning í fiskveiðum möguleg í ljósi loftlagsbreytinga?

Loftlagsbreytingar eru raunverulegar og viðvarandi. Meðal þess sem veldur áhyggjum í tengslum við loftlagsbreytingar er ógn við sjálfbæran vöxt fiskeldis og fiskveiða á heimsvísu. Jarðarbúum fjölgar ört, kröfur um næringarríkan og hollan mat aukast og framtíðarspár benda til samdráttar í matvælaframleiðslu vegna loftlagsbreytinga

ClimeFish – Nýtt verkefni

ClimeFish er evrópskt rannsóknaverkefni styrkt af Rannsóknaáætlun Evrópu, Horizon 2020, og hófst vinna í verkefninu 1. apríl sl. Markmið með verkefninu er að tryggja að framleiðsla sjávarafurða geti aukist, bæði á tegundum og á svæðum þar sem sjálfbær aukning er möguleg að teknu tilliti til væntanlegra loftlagsbreytinga. Verkefnið verður þáttur í því að tryggja öruggt framboð matvæla, atvinnuöryggi og sjálfbæra þróun dreifbýlla strandsvæða.

Í ClimeFish verkefninu verða þróuð fráviksdæmi og gerð félagshagfræðileg greining til að bera kennsl áhættu og tækifæri fyrir fiskeldi í ljósi loftslagsbreytinga. Einnig verða þróaðar aðferðir til að draga úr áhættu og greina tækifæri í samstarfi við hagsmunaaðila. Þetta mun þjóna þeim tilgangi að styrkja vísindalega ráðgjöf og bæta langtíma framleiðsluáætlanir og stefnumótun. Í ClimeFish verkefninu verður framleiðsla skoðuð á þremur sviðum, í fiskveiðum, fiskeldi í sjó og fiskeldi í vötnum og tjörnum. Sextán ferlisathuganir (e. case study) verða framkvæmdar á meira en 25 fisktegundum víðsvegar í Evrópu. Hagsmunaaðilar í verkefninu eru 21 frá 16 löndum og eru frá háskólum, rannsóknastofnunum og meðalstórum fyrirtækjum.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins

Fyrir stuttu hlaut dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri IceProtein og Protis, hvatningarverðlaun sjávarútvegsins. Verðlaunin eru rós í hnappagat Hólmfríðar, starfsfólks IceProtein og Protis og FISK Seafood, eiganda IceProtein og Protis og viðurkenning á starfsemi þessara fyrirtækja í Skagafirði. Verðlaunin eru auk þess sérstakt ánægjuefni fyrir Matís því ekki er svo langt síðan Hólmfríður starfaði hjá við líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki.

En hvað er IceProtein og hverslags starfsemi er um að ræða hjá fyrirtækinu?

Saga IceProtein, Matís á Sauðárkróki og dr. Hólmfríðar Sveinsdóttur

IceProtein

Á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf), sem er forveri Matís, var árið 2005 stofnað nýsköpunarfyrirtæki kringum rannsóknaverkefni sem fólu í sér nýtingu á próteinum úr afurðum hafsins sem voru ekki fullnýtt í vinnslu. Árið 2006, vegna áhuga FISK Seafood á starfseminni, var verksmiðja IceProtein flutt til Sauðárkróks og og varð hluti af Verið Vísindagarðar.

FISK Seafood eignaðist síðan 64% hlut í Iceprotein árið 2009 á móti 36% hlut Matís. IceProtein hefur ásamt Matís verið þátttakandi í fjölda rannsóknaverkefna. Stefna IceProtein var að sækja um styrki til rannsókna og þróa þjónustuverkefni fyrir Kaupfélag Skagfirðinga og önnur fyrirtæki. Kaupfélag Skagfirðinga stofnaði þróunarsjóð sem styðja átti við rannsóknir tengdar starfsemi félagsins árið 2010 og voru tekjur sjóðsins 0,15% af rekstrartekjum hverrar framleiðslueiningar. Frá stofnun þróunarsjóðsins hefur starfsemi IceProtein í auknum mæli verið tengd þjónustuverkefnum fyrir Kaupfélag Skagfirðinga. Í árslok 2012 Keypti FISK Seafood hlut Matís í IceProtein og réð dr. Hólmfríði Sigurðardóttur sem framkvæmdastjóra. Skömmu síðar voru fleiri starfsmenn ráðnir til fyrirtækisins og rannsóknargetan og framleiðslan aukin.

Árið 2015 leiddi starfsemi IceProtein til stofnunar nýs fyrirtækis, Protis, sem annast framleiðslu og sölu á nýrri vörulínu undir nafni hins nýja félags. Í dag eru framleiddar þrjár tegundir af fæðubótarefnum undir nafni Protis og eru þær seldar í flestum verslunum hér á landi. Í janúar 2016 voru starfsmenn Protis og IceProtein fjórir og og hafa þeir allir menntun í líftækni og lífefnafræði.

Matís á Sauðárkróki

Í nóvember 2008 opnaði Matís líftæknismiðju á Sauðárkróki þar sem sérhæfð rannsóknastofa á sviði líftækni og lífefna var staðsett. Markmiðið var að leiða saman fyrirtæki í Skagafirði og beita háþróaðri rannsóknatækni við framleiðslu afurða úr vannýtum hráefnum. Líftæknismiðjan vann með IceProtein að tilraunaframleiðslu og byggð var upp aðstaða til greininga á lífvirkum efnum. Líftæknismiðjan á Sauðárkróki var sett á fót með stuðningi FISK Seafood  sem er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Í ársbyrjun 2016 voru starfsmenn Matís á Sauðárkróki fjórir.

Frá Verinu á Sauðárkróki

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir

Hólmfríður Sveinsdóttir varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands í maí 2008 og hóf þá um haustið störf í líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki ásamt öðrum starfsmönnum og meistaranemendum. Frá þeim tíma hefur Hólmfríður verið í forsvari fyrir rannsóknir og þróun á sviði líftækni og lífefna. Doktorsgráða Hólmfríðar er á sviði líftækni og í meistaranámi lagði hún stund á næringarfræði. Áhugasvið hennar hefur verið rannsóknir á lífefnum unnum úr hráefnum úr hafinu og með sérstakri áherslu á prótein og peptíð sem unnin eru úr þorski (Gadus morhua).

Árið 2011 fjárfesti FISK Seafood, sem þá hafði eignast meirihluta í IceProtein, í nýjum höfuðstöðvum og fluttu IceProtein og líftæknismiðja Matís í það húsnæði. Við það tækifæri jók Matís við tækjakost í líftæknismiðjunni. Árið 2013 þegar FISK Seafood hafði eignast IceProtein að fullu, flutti Hólmfríður sig um set frá Matís og gerðist framkvæmdastjóri IceProtein.

„Ég vona að þessi verðlaun séu ekki einungis vatn á myllu okkar Skagfirðinga til að halda áfram nánu samstarfi við alls kyns frumkvöðla í þágu nýsköpunar og framþróunar FISK Seafood og greinni til heilla heldur komi einnig til með að hvetja önnur sjávarútvegsfyrirtæki til að auka samstarf við frumkvöðla. Nýsköpun leiðir af sér betri gæði við veiðar og vinnslu, bætta ímynd, fjölbreyttari afsetningaleiðir og meiri verðmætasköpun innan fyrirtækjanna.“
Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir

IS