Fréttir

Humarpaté framlag Íslands í Evrópukeppni

Sextán Evrópulönd keppa um titilinn nýstárlegasta matvara Evrópu 2015 dagana 5. og 6. október á alþjóðlegu matvælasýningunni í Mílanó, Feeding the Planet „Energy for Life“.

Hvernig verða matvæli framtíðarinnar? Hverjir verða helstu straumar og stefnur í neyslu matvæla í Evrópu?

Í október verður þessum spurningum svarað með nýsköpun 85 háskólanemenda í Ecotrophelia Europe keppninni í Mílanó. Keppendur frá Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Íslandi, Ítalíu, Króatíu, Rúmeníu, Serbíu, Slóveníu, Spáni, Ungverjalandi og Þýskalandi munu kynna aðlaðandi, bragðgóðar og nýstárlegar vörur fyrir dómnefnd sem skipuð er fulltrúum sömu landa. Formaður dómnefndar er Michel COOMANS, fyrrum forseti matvælasviðs iðnaðarráðuneytis Evrópusambandsins. Heildarverðmæti verðlauna er 15.000 evrur. 

Fyrir Íslands hönd keppir varan Humarpaté eða Paté de Langoustine þróað af 7 nemendum Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands með stuðningi frá Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtökum iðnaðarins. 

Nám í nýsköpun matvæla eykur samkeppnishæfni fyrirtækja

Frá árinu 2011 hefur framtakið ECOTROPHELIA staðið fyrir 75 keppnum og virkjað 550 háskóla og yfir 3000 nemendur til þátttöku. Fjörutíu vörutegundir, hannaðar innan ramma Evrópukeppninnar, hafa verið þróaðar og settar á markað.  ECOTROPHELIA Europe er námsmódel fyrir háskóla og nemendur, viðurkennt af iðnaðarráðuneyti Evrópusambandsins. Keppnin tengir saman hæfileika, færni og nýsköpun. Hún er einnig vettvangur fyrir fólk í kennslu, rannsóknum, framleiðslu og viðskiptum til að eiga árangursrík samskipti.

ECOTROPHELIA Europe er skipulögð af viðskiptaráði Vaucluse héraðs í Frakklandi með stuðningi samtaka matvælaiðnaðar í Frakklandi og annars staðar í Evrópu, þar á meðal Samtaka iðnaðarins á Íslandi. Aðrir stuðningsaðilar eru ýmsir opinberir aðilar í Frakklandi og stórfyrirtækin NESTLÉ World og Campden BRI í Bretlandi.

VERÐLAUN Í ECOTROPHELIA EUROPE KEPPNINNI verða afhent þriðjudaginn 6. október á sýningarsvæði alþjóðlegu matvælasýningarinnar í Mílanó, Feeding the Planet „Energy for Life“.


Frétt þessi birtist fyrst á vef Samtaka Iðnaðarins, www.si.is, þar sem fá má nánari upplýsingar.

Fréttir

Opni háskólinn í HR og Matís í samstarf um Iceland School of Fisheries

Skrifað undir samstarfssamning um nám fyrir erlenda stjórnendur í alþjóðlegum sjávarútvegi í HR

Opni háskólinn í HR og Matís, í samvinnu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og aðrar háskóla- og rannsóknastofnanir á Íslandi, hefur sett á fót yfirgripsmikið nám fyrir erlenda stjórnendur og sérfræðinga í sjávarútvegi. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís skrifuðu undir samstarfssamning um stofnun Iceland School of Fisheries í HR í gær.

Matis_undirskrift_HR_web
Sandra Kr. Ólafsdóttir, verkefnisstjóri ISF hjá Opna háskólanum í HR, Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður Opna háskólans í HR, Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Páll Jensson, prófessor við tækni- og verkfræðideild HR, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Páll Gunnar Pálsson, verkefnastjóri hjá Matís og Kristján Vigfússon, forstöðumaður MBA náms í HR.

Íslenskur sjávarútvegur er þekktur fyrir hágæðaafurðir og ábyrgar fiskveiðar. Í Iceland School of Fisheries er markmiðið að miðla dýrmætri þekkingu íslenskra sérfræðinga á þessu sviði. Í náminu verður m.a. fjallað um stjórnun í sjávarútvegi, vinnslu sjávarafurða, markaðssetningu og nýjustu þróun í tækni og nýsköpun í fiskiðnaði. Ennfremur verður fjallað um fiskveiðistjórnun, regluverk, rannsóknir og eftirlit í sjávarútvegi.

„Í Háskólanum í Reykjavík höfum við mikla reynslu af uppbyggingu alþjóðlegs náms á sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérþekkingu. Í uppbyggingu á slíku námi skiptir samstarf við leiðandi íslensk fyrirtæki og stofnanir mjög miklu máli og við erum þess vegna mjög ánægð með þennan samning við Matís,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR. „Við höfum þegar fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá og við vonumst líka til þess að íslensk fyrirtæki sjái sér hag í því að bjóða erlendum viðskiptavinum og samstarfsaðilum á námskeið Iceland School of Fisheries til að sækja sér sérfræðiþekkingu um öflugan og sjálfbæran sjávarútveg.“

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, leggur áherslu á að samstarfsvettvangur Matís og Háskólans í Reykjavík falli mjög vel að starfsemi Matís enda sé eitt markmiða Matís að koma að menntun aðila innan sjávarútvegsins hvort heldur sem er á Íslandi eða erlendis. Undanfarin ár hefur Matís tekið stór skref í auknu erlendu samstarf og því sé það mikið tilhlökkunarefni að taka þátt í með HR að byggja upp alþjóðlegt, öflugt stjórnendanám, fyrir aðila í sjávarútvegi. „Með þessu eflum við þekkingu þeirra sem fara höndum um hið mikilvæga hráefni sem fiskurinn er og tryggjum þannig aukin gæði sem skila sér í hærra verði til þeirra þjóða sem veiðarnar stunda,“ segir Sveinn. 

Í Iceland School of Fisheries verða í haust kennd þrjú vikulöng námskeið og koma leiðbeinendur úr íslensku atvinnulífi og akademíu. Meðal fyrirlesara má nefna Svein Margeirsson, forstjóra Matís; Þór Sigfússon, framkvæmdastjóra  Sjávarklasans; Guðbjörgu H Guðmundsdóttur, verkefnastjóra nýsköpunar hjá Marel; Eggert Benedikt Guðmundsson, fyrrum forstjóra Granda; Daða Má Kristófersson, forseta félagsvísindasviðs HÍ og Bjarna Má Magnússon, lektor við Lagadeild HR. Einnig verður farið í heimsóknir til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og stofnana sem starfa á sviði sjávarútvegs.

Nánari upplýsingar veita:

  • Eiríkur Sigurðsson, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs hjá HR  í síma 859 5117, netfang eirikursig@hr.is
  • Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís í síma 858 5111, netfang steinar@matis.is

Fréttir

Ert þú með framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar?

Sjávarútvegsráðstefnan kallar eftir framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar. Verðlaunafé upp á kr. 500 þúsund er í boði.

Ef þú ert hugmyndsmiður, hugsar út fyrir boxið, endilega sendu þá inn framúrstefnuhugmynd. Einstaklingar og/eða fyrirtæki geta sent inn hugmyndir eða tilnefnt aðra.
Gott tækifæri til að koma á framfæri góðum hugmyndum og eftirtalin verðlaun eru veitt:

  • Veitt verður verðlaunafé að upphæð kr. 500 þús.
  • Þrjár bestu hugmyndirnar fá kynningu og sérstaka viðurkenningu á Sjávarútvegsráðstefnunni.
  • Þjár bestu hugmyndirnar fá sýningarbás á ráðstefnunni til að kynna sínar hugmyndir.
  • Fleiri hugmyndirnar fá síðan sérstaka kynningu í veglegu ráðstefnuhefti Sjávarútvegsráðstefnunnar.
  • 10 bestu hugmyndasmiðirnir fá frítt fyrir einn á ráðstefnuna.

Á Sjávarútvegsráðstefnunni 2015 verða fimm erindi þar sem kynntar verða eldri framúrstefnuhugmyndir og m.a. sagt frá því hve langt þær eru komnar í þróunni.

Frestur til að skila inn umsóknum er 1. október nk.
 
Nánar upplýsingar á vef ráðstefnunnar undir liðnum VERÐLAUN

Fréttir

World Seafood Congress verður haldin í Reykjavík 10. – 14. september 2017

World Seafood Congress (WSC) 2015 er rétt að ljúka en ráðstefnan er haldin að þessu sinni í Grimsby á Englandi. Í lok hverrar ráðstefnu er tilkynnt hverjir halda þá næstu og tilkynnt var rétt í þessu að WSC 2017 verður haldin í Reykjavík 10. – 14. september 2017.

Mikill heiður fylgir því að fá að halda WSC en ráðstefnan er mjög stór og dregur að borðinu fólk úr öllum hornum sjávarútvegs og fiskveiða, frá villtum veiðum til fiskeldis og allt þar á milli. Á ráðstefnuna koma aðilar frá útgerðum, fiskvinnslum, innflutningsaðilum, útflutningsaðilum, fólki úr menntastofnunum, fyrirtækjum og ríkisreknum stofnunum úti um allan heim.

WSC_2017

Meginþema

Meginþema ráðstefnunnar 2017 er vöxtur í bláa lífhagkerfinu en bláa lífhagkerfið er tilvísun í mikilvægi hafsins þar sem veruleg tækifæri liggja til vaxtar, nýsköpunar, rannsókna, markaðssetningar með matvælaöryggi, fæðuöryggi, sjálfbærni og matarheilindi að leiðarljósi.

Áhersluatriði:

  • Nýsköpun í sjávarútvegi – nýjar vörur og möguleikar til fjárfestinga
  • Matvælaöryggi – forsenda nýsköpunar í matvælaframleiðslu og alþjóðlegrar verslunar með mat
  • Matar heilindi – baráttan gegn svikum í matvælaframleiðslu og –sölu á tímum netverslunar, matartengdar ferðaþjónustu og ósk neytenda um rekjanleika í matvælaframleiðslu

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa Smáradóttir (858-5113) eða Steinar B. Aðalbjörnsson (858-5111).

Heimasíða ráðstefnunnar: www.wsc2017.com
Twitter: @WSC_2017
Facebook: World Seafood Congress

Fréttir

Hagnýting korns á norðurslóð – þjálfun í boði

Hafin er vinna við nýtt alþjóðlegt verkefni um hagnýtingu korns á norðurslóð. Verkefnið er styrkt af Norðurslóðaáætluninni (Northern Periphery & Arctic Programme) og er til þriggja ára. Þátttakendur eru frá Íslandi (Matís og Landbúnaðarháskólinn), Norður-Noregi, Færeyjum, Orkneyjum og Nýfundnalandi.

Þjálfun stendur fyrirtækjum til boða

Markmið verkefnisins er að auka framleiðslu matvara úr innlendu korni og finna nýjar leiðir til að hagnýta kornið. Einnig er ætlunin að auka verðmæti kornframleiðslunnar og fjölga störfum sem tengjast korni. Gerðar verða leiðbeiningar um hvernig best verði staðið að kornrækt við mismunandi skilyrði, dregnar fram upplýsingar um kornmarkaðinn og efnt til átaks í vöruþróun bökunarvara og drykkja í samvinnu við fyrirtæki.

Upplýsingamiðlun milli landa er lykilatriði í verkefninu. Fyrirtækjum í bökunar- og drykkjarvöruiðnaði stendur til boða að hagnýta margvíslegar upplýsingar auk þess sem námskeið og handleiðsla standa til boða. Þremur íslenskum fyrirtækjum í bökunariðnaði er boðið að taka þátt í námskeiðum og handleiðslu á vegum NOFIMA í Noregi. Í þessu felst vöruþróunarnámskeið vorið 2016 og námeið um markaðsmál vorið 2017 ásamt ráðgjöf á tímabilinu. NOFIMA býr yfir háþróuðu tilraunabakaríi og mikilli reynslu af þróun vara úr korni. Drykkjarvöruframleiðendur geta hagnýtt sér reynslu Orkneyinga í drykkjarvöruiðnaði.

Matís óskar eftir að fá upplýsingar frá þeim fyrirtækjum sem vilja hagnýta sér upplýsingamiðlun í verkefninu. Einnig er óskað eftir áhugasömum fyrirtækjum til að taka þátt í námskeiðunum en þau verða valin á grundvelli væntanlegs árangurs þeirra. Fyrirtæki skulu senda upplýsingar um áhuga og áform til Ólafs Reykdal hjá Matís ( olafur.reykdal@matis.is).

Fréttir

Lífvirkni í vörum frá Villimey

Fyrirtækið Villimey slf framleiðir lífrænt vottaðar vörur úr íslenskum jurtum sem vaxa í villtri náttúru Vestfjarða. Vörur Villimeyjar komu á markað í ágúst 2005 og hefur framleiðsla farið vaxandi undanfarin ár. Vörurnar hafa fengið góðar móttökur á Íslandi og þar sem þær hafa verið kynntar erlendis.

Villimey byggir starfsemi sína á nýtingu á auðlindum Vestur-Barðastrandasýslu sem eru hrein og ómenguð náttúra og jurtir sem vaxa villtar í náttúrunni. Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, eigandi  og framkvæmdastjóri Villimeyjar nýtir þennan hreinleika náttúrunnar til að framleiða vörur úr jurtum og byggir framleiðsluna á aldagömlum uppskriftum sem hún hefur þróað í takt við nútímakröfur og þarfir. Vörur Villimeyjar eru orðnar þekktar hér á landi og njóta sífellt aukinna vinsælda.

Frá rannsóknastofu Matís á Sauðárkróki
Frá rannsóknastofu Matís á Sauðárkróki | From Matis lab in Saudarkrokur

Niðurstöður úr lífvirknirannsóknum á vörum frá Villimey

Undanfarna mánuði hafa jurtavörur sem framleiddar eru af Villimey á Tálknafirði verið rannsakaðar á rannsóknarstofu Matís á Sauðárkróki og í Reykjavík. Framleiðsla jurtasmyrslanna frá Villimey er eftir ströngustu kröfum varðandi hreinlæti og vönduð vinnubrögð. Engum rotvarnarefnum er bætt í smyrslin og þau standast þær kröfur sem gerðar eru almennt til slíkrar framleiðslu. Um er að ræða náttúruvörur sem hafa sína náttúrulegu virkni gegn bakteríum. Sýnt var fram á þessa virkni smyrslanna með svokölluðu ögrunarprófi eða „Preservative efficacy testing (challenge test)”, sem framkvæmt var á rannsóknastofu Matís. Við þessar prófanir var fylgt leiðbeiningum í Evrópsku Farmakópíunni (7. útgáfu frá 2011).

Húðvörur Villimeyjar hafa jafnframt verið prófuð í margskonar húðfrumuprófum þar sem hægt er að mæla virkni ýmissa efna í húðfrumum og finna þannig út áhrif þeirra á uppbyggingu húðfruma. Húðfrumuprófin mæla magn kollagens sem stuðlar að uppbyggingu húðfruma, elastasa sem orsakar hrörnun húðarinnar, málmpróteinasa 1  sem brýtur niður kollagen og málmpróteinasa 2 sem er nauðsynlegur við endurnýjun líkamsvefja.

Í þessum prófunum kom fram jákvæð virkni húðvaranna frá Villimey á þessi efni og þær ýmist hindra myndun þeirra svo sem elastasa og vinna þannig gegn hrörnun húðarinnar eða örva framleiðslu þeirra svo sem kollagens og stuðla þannig að endurnýjun húðarinnar. Einnig kom fram töluverð jákvæð svörun húðvaranna í prófum sem mæla hemjandi áhrif þeirra á bólgu í vöðvum og liðum.

Ennfremur kom í ljós virkni í húðvörunum við að græða skrámur í frumuþekju með svokölluðu „Scratch wound healing“ prófi (skrámugræðipróf) og reyndust græðandi áhrif þeirra í þessu prófi vera umtalsverð umfram ómeðhöndluð viðmið.

Einnig voru mæld andoxunaráhrif í vörum Villimeyjar, bæði húðvörum og jurtablönduðu eplaediki og reyndist andoxunarvirknin vera umtalsverð umfram ómeðhöndluð viðmið og má rekja þessa andoxunarvirkni til jurtanna sem notaðar eru í vörurnar. Einnig komu í ljós töluverð bólguhemjandi áhrif jurtablöndunnar í eplaedikinu.

Rannsóknir Matís á vörum Villimeyjar hafa verið styrktar af Rannsóknar- og Nýsköpunarsjóði V-Barðastrandasýslu og færa Villimey og Matís sjóðnum bestu þakkir fyrir mikilvægan stuðning.

Fréttir

Guðjón Þorkelsson prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ

Guðjón Þorkelsson, starfsmaður Matís, fékk fyrir stuttu stöðu prófessors við Háskóla Íslands. Guðjón hefur lengi kennt við háskólann eða allar götur síðan 1978. Guðjón lagði stund á líffræði við HÍ þaðan sem hann útskrifaðist árið 1977 og nám í matvælafræði í kjölfarið en Guðjón er með meistaragráðu í matvælafræði frá háskólanum í Leeds í Englandi þaðan sem hann útskrifaðist 1981. Auk þessa situr Guðjón í stjórn Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Hjá Matís er Guðjón með yfirumsjón með öllu sem tengis menntun og matvælaframleiðslu og er Guðjón mikilvæg tenging Matís við háskólana á Íslandi. Við erum afar stolt af prófessorsstöðu Guðjóns og hlökkum til að takast á við framtíðar verkefni saman.

Guðjón hélt fyrirlestur á sérstökum kynningarfyrirlestri í sl. viku en á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands er haldið upp á framgang eða ráðningu nýrra prófessora með slíkri kynningu. Athöfnin hófst með stuttu yfirliti yfir helstu störf Guðjóns, en síðan tók hann sjálfur við og flutti erindi um störf sín og framtíðarsýn í kennslu og rannsóknum.
 
Matís óskar Guðjóni innilega til hamingju með prófessorsstöðuna.

Fréttir

Tvær mjög athyglisverðar greinar í Icelandic Agricultural Sciences

Tvær nýjar greinar hafa nú birst í vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences og hægt er að nálgast þær á vef IAS

Fyrri greinin Samanburður á orkuarðsemi (EROI) lífrænna og hefðbundinna íslenskra kúabúa (A Comparative Analysis of the Energy Return on Investment of Organic and Conventional Icelandic Dairy Farms) er eftir Reyni Smára Atlason, Karl Martin Kjareheim, Brynhildi Davíðsdóttur og Kristínu Völu Ragnarsdóttur. Athugað var hvaða landbúnaðaraðferð skilar mestri orku til samfélagsins á móti  þeirri orku sem búin nota. Þetta er í fyrsta sinn sem orka sem íslensk bú nota er borin saman við þá orku sem þau gefa af sér. Þetta er mikilvægt innlegg í umræðu um orkunýtingu í landbúnaði og hvernig við nýtum óendurnýjanlega orku og hráefni í landbúnaði. Jafnframt gerir okkur kleyft að hefja samanburð við önnur lönd á þessu sviði.

Önnur nýjung var að hér var orkuarðsemi hefðbundinna og lífrænna búa borin saman. Niðurstöður eru ekki ótvíræðara þar sem lífærnu búin voru of fá til að draga endanlegar ályktanir en rannsóknin gefur til kynna að lífræn kúabú geti gefi betri orkuarðsemi en hefðbundin býli. Uppskera á hvern hektara sé minni en á móti kemur að tilbúinn áburður er ekki notaður en gerð hans, flutningur og deyfing krefjast samanlagt mikillar orku.

Hin greinin Þráðormasamfélög Surtseyjar 50 árum eftir myndun hennar (Soil nematode communities on Surtsey, 50 years after the formation of the volcanic island) er eftir Krassimira Ilieva-Makulec, Brynhildi Bjarnadóttur og Bjarna D. Sigurðsson. Greinin fjallar um þær breytingar sem hafa orðið á samfélögum þráðorma í jarðvegi á Surtsey síðan að hún myndaðist 1963, en þráðormar gegna mikilvægu hlutverki í frumframvindu vistkerfa og í jarðvegsmyndun. Höfundar bera saman næringarsnauð svæði og svæði sem voru næringarrík vegna þétts mávavarps. Alls fundust 25 ættkvíslar af þráðormum og þar af 14 sem ekki höfðu fundist þar áður. Höfundar fundu samband milli nokkurra jarðvegsþátta og gróðurs en jafnframt að framvinda þráðorma hafði annað ferli en gróðurframvindan.

Rannsóknir á jarðvegslífi eru afar fágætar á Íslandi og því má líta á þessa rannsókn sem nýjung á því sviði og mikilvægt innlegg í grunnrannsóknir á jarðvegslífi. Jafnframt er þessi rannsókn mikilvægt innlegg í framvindu á jarðvegslífi á nýrri eyju, á áður ógrónu landi.

Fréttir

Flæði gagna milli aðila í sjávarútveginum

Ljóst er að miklu magni gagna er safnað við veiðar og vinnslu hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þessar upplýsingar eru oft notaðar að þeim sjálfum við veiðistýringu síðar meir þar sem sótt er í ákveðnar tegundir eða ákveðna einginleika afla. Einnig eru dæmi um að fyrirtækin noti þessi gögn við framlegðarútreikninga fyrir veiðar og vinnslu.

Þessi ítarlega gagnasöfnun sem á sér stað við veiðar, löndun og vinnslu hjá íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum nýtist svo til frekari úrvinnslu hjá eftirlitsaðilum eða sem fylgigögn með afurðum til kaupenda eða tollyfirvalda.

Tilgangur þessa skjals er að sýna hvaða upplýsingar er um að ræða, hvar þeirra er aflað og flæði þeirra milli aðila eftir mismunandi veiðum, vinnsluaðferðum og söluferlum.


Skjalið má nálgast hér (best að skoða í Acrobat Reader).

Nánari upplýsingar veitir Valur N. Gunnlaugsson hjá Matís.

Fréttir

Hausana í land?

Við upphaf fiskveiðiársins 2012/13 gekk i gildi reglugerð sem skyldar útgerðir vinnsluskipa til að koma með að landi hluta þeirra þorskhausa sem til falla við vinnslu í íslenskri lögsögu. Forsaga þess að reglugerðin var sett, áhrif reglugerðarinnar á landað magn þorskhausa fyrstu tvö fiskveiðiárin sem reglugerðin hefur verið í gildi og mögulegar leiðir útgerðanna til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar, eru rakin í skýrslu sem Matís gaf nýlega út.

Í ágúst 2011 gaf Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið út reglugerð 810/2011 um nýtingu afla og aukaafurða. Í þeirri reglugerð kom fram sú nýlunda að skipum sem vinna afla um borð var gert skylt að koma með að landi þorsklifur og þorskhausa. Reglugerðin gerði ráð fyrir að frá 1. febrúar 2012 ættu skipin að koma með að landi 50% af allri þorsklifur og þorskhausum sem til falla við veiðar í íslenskri lögsögu. Frá og með 1. september 2012 stóð svo til að sömu skipum yrði skylt að koma með alla þorsklifur og þorskhausa að landi, sem til falla við veiðar í lögsögu Íslands. Reglugerð þessi mætti hins vegar töluverðri andstöðu meðal útgerðarmanna, sem töldu að markmið hennar væru tæknilega óraunhæf og efnahagslega óskynsamleg. Ráðuneytið leitaði því samráðs meðal hinna ýmsu hagsmuna- og fagaðila til að ná niðurstöðu sem allir aðilar máls gætu sæst á.

Í framhaldi af því var reglugerð 1296/2011 gefin út í desember 2011 og var þá búið að afnema með öllu kvaðir um að vinnsluskipum bæri að koma með þorsklifur í land og búið að tengja kvaðir um hlutfall þorskhausa sem bæri að koma með í land við lestarrými skipanna. Samkvæmt reglugerðinni, sem tók gildi 1. September 2012, var vinnsluskipum með nýtanlegt lestarrúmmál milli 600 og 800 m3 skylt að koma með 30% þorskhausa sem til falla við veiðar í lögsögu íslands að landi og frystitogarum með meira en 800 m3 lestarrými bar að koma með 40% af tilfallandi þorskhausum í land. Vinnsluskip með nýtanlegt lestarrúmmál undir 600 m3 voru hins vegar undanþegin þessari reglugerð. Vinnsluskipunum var gert heimilt í stað hausa, að koma með samsvarandi magn af gellum, kinnum og/eða fésum að landi eða af öðrum afurðum sem unnar eru úr hausum um borð.

Það eru ýmis vandamál í vegi fyrir því að unnt sé að koma með þorskhausa að landi hjá a.m.k. hluta frystiskipaflotans. Það er mjög takmarkað pláss á millidekki flestra skipanna og því erfitt að koma fyrir nýjum búnaði til að vinna hausa, frystigetan er takmörkuð og frystitækin henta illa til að frysta hausa, hausararnir sem notaðir eru skila hráefni sem hentar illa í frekari vinnslu, geymslupláss í frystilestum er takmarkað, vinnuálag á áhafnirnar er þegar mikið og vandkvæðum bundið að auka það fyrir þann tiltölulega takmarkaða fjárhagslega afrakstur sem er af hausavinnslu.

Það er hins vegar nokkur hluti flotans sem kemur með hluta sinna þorskhausa að landi og hefur það hlutfall verið að aukast á undanförnum árum. Í þeim tilfellum hefur útgerðin náð að aðlaga vinnsluna að nýtingu hausa án þess að það komi niður á vinnslu aðalafurðanna. Ekki verður þó með góðu móti séð að umtöluð reglugerð hafi haft umtalsverð áhrif á þessa þróun, þar sem svipuð þróun hefur verið hjá þeim skipum sem undanþegin eru reglugerðinni og þeim skipum sem reglugerðin nær til. Þarna er einfaldlega um verðmæti að ræða sem margir útgerðamenn sjá tækifæri í að sækja, burtséð frá reglugerðinni.

Helstu vandamálin sem við er að eiga þegar kemur að nýtingu á þorskhausum um borð í vinnsluskipum er plássleysi og takmörkuð frystigeta. Því eru tækifæri í að vinna hausana með það að markmiði að minnka umfangið og hirða þá aðeins verðmætustu hlutana. Nú eru sem dæmi á markaði vélar sem geta unnið verðmætustu afurðirnar úr hausunum, eins og til dæmis gellur, kinnar og klumbu. Með því að hirða þessar þrjár hausaafurðir má minnka umfang þess sem þarf að frysta og geyma í lestum um 65% og samt koma með meiri verðmæti að landi en ef hausarnir hefðu verið heilfrystir. Fyrir núverandi frystiskipaflota Íslendinga liggja tækifæri í slíkri vinnslu. Það er hins vegar mikil uppsöfnuð þörf á endurnýjun frystiskipaflotans til að takast á við nýjar kröfur og áskoranir. Þó vægi þeirra í íslenskri útgerð hafi minnkað á undanförnum árum verður alltaf þörf fyrir þessi skip í flotanum, og þá sérstaklega til að sækja á fjarlægari mið. Búast má við að við hönnun á nýjum vinnsluskipum og við breytingar á þeim gömlu verði tekið tillit til krafna um bætta nýtingu á öllu hráefni, hausum sem og öðrum hliðarafurðum. Endurnýjun frystitogaraflotans er því mikið hagsmunamál fyrir greinina og þjóðina sem eiganda auðlindarinnar.

Matís hefur fylgst náið með hausanýtingu um borð í vinnsluskipum og aðstoðað útgerðir við að leita tækifæra í bættri nýtingu á hliðarafurðum. Þegar reglugerð 810/2011 var í umsagnaferli komu sérfræðingar Matís að vinnu við að móta reglugerðina og hafa þeir í framhaldi af því komið að rannsóknum og þróun á því sviði. AVS verkefnasjóður í sjávarútvegi styrkti smáverkefni árið 2012 til að meta áhrif umtalaðrar reglugerðar. Þessu verkefni hefur verið sinnt með hléum síðastliðin þrjú ár og lauk formlega með útgáfu Matís skýrslu sem nálgast má hér. Áður hafði verkefnið stutt vinnu við meistaraverkefni Gísla Eyland í Fjármálum fyrirtækja við Háskóla Íslands. Meðal afurða verkefnis Gísla Eyland var rekstrarlíkan fyrir vinnsluskip þar sem meðal annars er unnt að bera saman arðsemi mismunandi kosta við söfnun og vinnslu hausa um borð. Rekstrarlíkan þetta má nálgast hér. Verkefni Gísla Eyland var jafnframt kynnt á TAFT 2012 (Trans‐Atlantic Fisheries Technology Conference) með veggspjaldi sem vakti töluverða athygli.

AVS verkefnasjóð í sjávarútvegir eru færðar þakkir fyrir að styrkja verkefnið.

Frekari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

IS