Fréttir

Framboði á fiski á heimsvísu verður vart viðhaldið nema með eldisfiski

Eftirspurn eftir fiski eykst stöðust og verður því að auka framboð á eldisfiski til að halda framboði stöðugu og minnka álag af fiskveiðum. Fiskmjöl er ríkjandi próteingjafi í fiskafóðri en framleiðsla mjölsins hefur dregist saman því nýting uppsjávarfisks í verðmætari afurðir hefur aukist vegna betri fiskveiðitækni og betri kælingar hráefnisins.

Hjá Matís hefur dr. Ragnar Jóhannsson, verkefnisstjóri, verið að vinna að ýmsum verkefnum sem miða að því að finna önnur hráefni en fiskmjöl fyrir fiskeldi og nýta ónotað hráefni. Úrgangur frá sellulósaverksmiðjum í Svíþjóð og ræktun lífmassa í jarðhitalofttegundum frá Hellisheiðarvirkjun eru möguleikar sem hafa verið kannaðir.

Ragnar hefur unnið með sænskum fyrirtækjum við framleiðslu Single Cell Protein (SCP) úr hliðarstraumum frá skógariðnaði. Meginmarkmiðið er að þróa vöru sem kemur í stað fiskimjöls. Finna þurfti hvaða örverur væru heppilegastar og hvaða hliðarstraumar í sellulósa- og pappírsframleiðslu væru best fallnir til þessarar framleiðslu. Próteinmassinn er þurrkaður og blandað við önnur hráefni svo úr verði fiskeldisfóður. Þetta fóður hefur verið reynt í tilapíueldi með góðum árangri og er nú verið að þróa fóður fyrir bleikjueldi.

Önnur aðferð sem hefur verið reynd í fóðurframleiðslu er að nota brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun sem orkugjafa við ræktun örverulífmassa. Örverurnar vaxa hratt á brennisteinsvetninu, eru síðan þurrkaðar og bætt í fiskeldisfóður. Þessu verkefni var nýlega lokið eftir tveggja ára þróunarvinnu, en frekari rannsókna er þörf til að hámarka árangur.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar hjá Matís.

Fréttir

Vel heppnuð Sjávarútvegsráðstefna 2015 að baki

Matís tók þátt í Sjávarútvegsráðstefnunni 2015 sem lauk í síðustu viku. Óhætt er að segja að aldrei hafi jafn margir sótt ráðstefnuna og eru skipuleggjendurnir mjög ánægðir með hvernig til tókst. Þeir starfsmenn Matís sem sóttu ráðstefnuna taka í sama streng.

Erindi á netinu

Nú er hægt að sækja öll erindi sem haldin voru á Sjávarútvegsráðstefnunni 2015 á vef ráðstefnunnar undir liðnum Dagskrá 2015 . Einnig hafa nemar Háskólans á Akureyri haldið úti Facebook síðu þar sem er að finna samantekt úr erindum.

Þátttakendur

Skráðir þátttakendur voru um 750 og hafa aldrei verið fleiri. Mestur fjöldi þátttakenda í ráðstefnusölum var um 550 manns, en margir sóttu aðeins hluta ráðstefnunnar. Rúmlega þrjú hundruð manna fundarsalir voru þétt setnir í nokkrum málstofum, eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Það sem fram fer utan ráðstefnusala er einnig mikilvægt, en Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni. 

Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunar 2015

Margildi bar sigur úr býtum um Framúrstefnuhugmyndina og óskar Matís starfsmönnum Margildis hjartanlega til hamingju.

Fréttir

Lífssaga 186 Atlantshafslaxa

Uppruni og lífssaga 186 Atlantshafslaxa veiddum innan íslensku fiskveiðilögsögunnar var rannsökuð með því að nota DNA stuttraðir til að meta uppruna og hreistur og kvarnir til að finna út hversu langan tíma laxarnir hafa dvalið í ferskvatni og sjó. Rannsókn þessi var gerð hjá Matís í samvinnu við VeiðimálastofnunHafrannsóknastofnun og Fiskistofu.

Flest sýnanna voru úr laxi sem var á sínu fyrsta ári í sjó eða 72,8%. Líftími í ferskvatni var breytilegur, frá einu ári til fimm og meðalferskvatnsaldur laxanna var 2,6 ár. Flestir höfðu laxarnir verið tvö ár í ferskvatni eða 42% og 28% höfðu verið þrjú ár í ferskvatni.

Við rannsókn á uppruna var notast við gagnagrunn um erfðir laxastofna í 284 evrópskum ám. Í ljós kom að 68% sýnanna voru rakin til meginlands Evrópu og Bretlandseyja, 30% voru rakin til Skandínavíu og norður-Rússlands en einungis 2% laxana voru frá Íslandi.

Þessi rannsókn sýnir fram á að hafsvæðið suður og austur af Íslandi er mikilvæg fæðuslóð fyrir Atlandshafslaxinn, og þá sérstaklega fyrir lax frá Bretlandseyjum og suðurhluta Evrópu.  Lágt hlutfall laxa af íslenskum uppruna kom á óvart og gefur til kynna að íslenskur lax noti annað beitarsvæði.

Nánar er sagt frá rannsókninni á vef ICES ritsins.

Ítarlegi upplýsingar veitir fyrsti höfundur greinarinnar, Kristinn Ólafsson hjá Matís.

Fréttir

Traust samstarf við Matís um kennslu og rannsóknir

Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og Matís hafa gert samning sín á milli um áframhaldandi samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, undirrituðu samninginn í gær. Með samningnum er tryggð áframhaldandi samvinna um að þróa og bæta nám í matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands. Samkomulagið festir enn frekar í sessi hið öfluga samstarf Háskóla Íslands og Matís.

Helstu atriði samnings Matvæla- og næringarfræðideildar og Matís eru:

  • Tryggja ásættanlegan fjölda nemenda í matvæla- og næringafræði við Háskóla Íslands.
  • Þróa og bæta nám í matvæla- og næringafræði  við Háskóla Íslands og tryggja því faglega sérstöðu í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi.
  • Vinna saman að fleiri verkefnum sem tengja saman greinar matvælafræði, matvælaöryggis, líftækni og næringarfræði. Áfram skal unnið saman að uppbyggingu tækja, gagnagrunna  og annara innviða.
  • Nemendur geta unnið að rannsókna- og þróunarverkefnum undir leiðsögn starfsmanna Matís undir umsjón fastráðinna kennara eða gestaprófessora Matvæla- og næringarfræðideildar og samkvæmt reglum Háskóla Íslands um hæfi leiðbeinenda.  
Undirritun_HI_Matis_LoRes

Frá vinstri: Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Guðjón Þorkelsson, forseti Matvæla- og næringarfræðideildar og sviðsstjóri hjá Matís, Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og
Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild.

Matvæla- og næringarfræðideild og Matís hafa átt gott samstarf um kennslu um langt skeið en starfsmenn Matís hafa í gegnum tíðina kennt við deildina. Nú hefur samstarfið aukist enn frekar en tveir starfsmenn Matís hafa fengið fasta stöðu við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og einn starfsmaður deildarinnar hefur fengið fasta stöðu við Matís.

  • Björn Viðar Aðalbjörnsson, sérfræðingur hjá Matís, hefur gegnt 20% stöðu aðjúnkts við Matvæla- og næringarfræðideild frá 1. janúar 2015.
  • Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, gegnir 20% stöðu aðjúnkts við Matvæla- og næringarfræðideild frá og með 1. janúar 2016.
  • Alfons Ramel, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, gegnir 20% stöðu sérfræðings hjá Matís frá og með 1. janúar 2016.

Matís er leiðandi á Íslandi í rannsóknum  á sviði matvælaframleiðslu, og matvælaöryggis. Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni. Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við Háskóla Íslands að kennslu og þjálfun nemenda.

Matvæla- og næringarfræðideild er ein öflugast eining Háskóla Íslands í rannsóknavirki á hvert stöðugildi kennara. Deildin leitast við að vera í fremstu röð með vönduðum rannsóknum og kennslu sem stenst samanburð á alþjóðlegum vettvangi. Samstarfið við Matís rennir stoðum undir þau markmið. Þá er rík áhersla á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís í stefnu Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar veita Inga Þórsdóttir og Sveinn Margeirsson.

Fréttir

Marlýsi – Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015

Snorri Hreggviðsson, Margildi ehf., hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015.

Hugmyndin er að framleiða Marlýsi, lýsi úr makríl, síld og loðnu til manneldis. Margildi ehf. hefur þróað nýja og einstaka vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að kaldhreinsa lýsi úr uppsjávartegundunum. Fram til þessa hefur ekki verið unnt að kaldhreinsa á skilvirkan hátt og fullhreinsa fyrrnefnt lýsi til manneldis vegna mikils magns mettaðra og langra einómettaðra fitusýra s.k. steríns í lýsinu.

Margildi hefur unnið að verkefninu með verkfræðistofunni EFLU, Matís, KPMG, Alta ráðgjöf, Kanon-arkítektum, Háskólanum á Akureyri,  Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), Sambandi Sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, AVS og Sjávarklasanum. Tilraunahráefni hefur fengist hjá HB Granda, Síldarvinnslunni og Eskju, einnig Vinnslustöðinni og Ísfélaginu í Vestmannaeyjum. 

Sérfræðingar Matís hafa komið að verkefninu og aðstaða Matís nýtt verkefninu til framdráttar.

Heimasíða Margildis.

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefnan 2015

Sjávarútvegsráðstefnan 2015 verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica dagana 19. – 20. nóvember

Markmið Sjávarútvegsráðstefnunnar er að ná saman á einum stað þversniði af íslenskum sjávarútvegi til að vinna að framförum. Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni.

Matís er með bás á ráðstefnunni þar sem tæknilausnir og samstarfsverkefni eru kynnt. Birgir Örn Smárason, doktorsnemi hjá Matís, heldur erindi á ráðstefnunni. Rannveig Björnsdóttir, fagstjóri, er í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar.

Heimasíða Sjávarútvegsráðstefnunnar er hér

Fréttir

Starfsmaður Matís í mikilvægu starfi hjá SAFE Consortium

Dr. Hrönn Jörundsdóttir hefur verið skipuð stjórnsýsluritari af framkvæmdastjórn SAFE Consortium, evrópskum samtökum um matvælaöryggi.

Hrönn er doktor í efnafræði og verkefnastjóri hjá Matís og hlaut doktorsgráðu sína frá Stokkhólmsháskóla. Hún er sérfræðingur í umhverfisefnafræði, matvælaöryggi og áhættumati og hefur stjórnað þó nokkrum innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á þessu sviði.

Hrönn mun aðstoða við rekstur og stjórnun samtakanna, þar á meðal umsjón á birtingum, samskiptum við félaga í samtökunum og kynningum á SAFE fyrir hagsmunaaðila. Hrönn hefur mikla reynslu af málefnum tengdum matvælaöryggi, umhverfisgæðum, samskiptum við fjölmiðla og kynningum og verður því öflug viðbót vil stjórnunarteymi SAFE.

Heimasíða SAFE Consortium: www.safeconsortium.org/

Fréttir

Lífeyrisskuldbindingar Matís ohf.

Þann 22. janúar 2009 var undirritaður samningur á milli Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) annars vegar og fjármálaráðuneytisins og Matís ohf. kt. 670906-0190 hins vegar um árlegt uppgjör á skuldbindingum vegna starfsmanna Matís ohf. skv. 33. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Samningur þessi tók gildi frá og með 1. janúar 2007 þegar Matís ohf. var stofnað.

Skuldbindingar vegna starfsmanna Matís ohf. sem eiga aðild að B-deild LSR eru gerðar upp árlega og var greiðsla Matís vegna þeirra 11,9 milljónir á árinu 2014.  Rétt er að geta þess að þessi skuldbinding varð ekki ljós fyrr en um tveimur árum eftir að félagið hóf starfsemi og hefur hún ekki verið bætt sérstaklega.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, í síma 858-5125.

Fréttir

Matís – brú milli háskóla og atvinnulífs

Matís er í miklu samstarfi við Háskóla Íslands, sem og aðra ríkisrekna háskóla, til þess að tryggja góða samvinnu milli atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Fyrirtækið vinnur að þróun og nýsköpun í matvælaiðnaði, líftækni og matvælaöryggi.

„Innan Matís er mjög fjölbreytt starfsemi. Hér eru mörg sérsvið sem vinna bæði í matvælaiðnaði og líftækni. Það er sterk tenging við atvinnulífið og háskólaumhverfið,“ segir Hörður G. Kristinsson rannsóknarstjóri Matís.

Boðið er upp á meistaranám og doktorsnám í matvælafræði við Háskóla Íslands. Námið er samvinnuverkefni Matís og næringarfræðideildar Háskóla Íslands. Boðið er upp á þrjár námsleiðir, framleiðslustjórnun, gæðastjórnun og líftæknilínu. Doktorsnámið felur í sér vísindaleg og tæknileg rannsóknarverkefni sem leiða til nýrrar þekkingar og nýsköpunar. Mikil áhersla er lögð á að rannsóknarniðurstöður séu birtar í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum við lok doktorsnáms.

Áhersla er lögð á hagnýtt nám en það felur í sér samstarf við fyrirtæki og stofnanir á vettvangi matvælaframleiðslu. Tækifærin eru mikil í íslenskri matvælaframleiðslu, sem sýnir sig í eftirspurn og starfsmöguleikum eftir nám. Námið nýtist þeim sem lokið hafa grunnnámi í matvælafræði eða öðrum raunvísindum eins og efnafræði, líffræði og verkfræði. Það nýtist öllum þeir sem hafa áhuga á að gegna leiðandi hlutverki í matvæla- og líftækniiðnaði við stjórnun, nýsköpun eða rannsóknir.

Nánari upplýsingar: www.matis.is/bruin/

Fréttir

Fundur hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi – MareFrame

Nú rétt í þessu lauk fundi í MareFrame verkefninu. Fundurinn var með íslenskum hagsmunaaðilum, þversniði af þeim hagsmunaaðilum sem fiskveiðistjórnun hefur áhrif á. 

Matís, Háskóli Íslands og Hafrannsóknarstofnun eru þátttakendur í evrópska rannsóknar- og þróunarverkefninu MareFrame (http://www.mareframe.eu).

Meðal markmiða MareFrame er að þróa og nýta vistkerfislíkön til að aðstoða við ákvarðanatöku þegar kemur að stjórn fiskveiða.

Mikilvægur þáttur í þessu ferli er að taka tillit til áherslna og skoðana mismunandi hagsmunaaðila við gerð líkananna og við ákvarðanatökuna. Þarf þar að huga jafnt að líffræðilegum-, vistfræðilegum-, efnahagslegum- og félagslegum áhrifaþáttum.

Á fundinum var MareFrame kynnt og sú vinna sem fram hefur farið í verkefninu hér á landi.

Nánari upplýsingar um MareFrame verkefni má finna á heimasíðu verkefnisins og heimasíðu Matís.

IS