Fréttir

Viljayfirlýsing um samstarf Hafrannsóknastofnunarinnar á Nýfundnalandi í Kanada og Matís

Í lok síðustu viku skrifuðu Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís og Glenn Blackwood, aðstoðar forseti Memorial háskólans í Nýfundnalandi og Labrador, undir viljayfirlýsingu um samstarf til aukins framgangs kennslu, þjálfunar og rannsókna og þróunar í málefnum tengdum sjálfbærum fiskveiðum.

Með viljayfirlýsingunni eru auknar áherslur settar á hagnýtar rannsóknir í virðiskeðju sjávarfangs og sjávarafurða og á frekara samstarf við sjávarútvegstengdan iðnað í löndunum tveimur.

Enn fremur skapar viljayfirlýsingin farveg fyrir nemendur og kennara frá löndunum til aukins samstarfs sem tekið getur enn meira mið af þörfum iðnaðarins í löndunum tveimur.

Með þessari viljayfirlýsingu styrkjast málefni Hafrannsóknastofnunarinnar (MI) og Matís út á við þegar kemur að sjálfbærum vexti bláa hagkerfisins.

Fréttir

Áhrif samverkandi efnasambanda á okkar daglega líf

EuroMix (European Test and Risk Assessment Strategies for Mixtures) er nýtt verkefni sem styrkt er af rannsóknaráætlun Evrópu (H2020). EuroMix mun leggja fram tilraunaáætlun til að rannsaka sameiginleg áhrif efnasambanda (efnablöndu) sem við komumst í snertingu við í okkar daglega lífi þar sem beitt verður bæði nýjum og áður þekktum eiturefnafræðilegum prófunum.

Verkefnið er einstaklega mikilvægt fyrir nútíma samfélagið, þar sem samverkun mismunandi efnasambanda hefur hingað til ekki verið rannsökuð nægilega og ESB hefur áréttað þörfina fyrir áhættumat efnablanda sé nauðsynlegt í framtíðinni.

Upphafsfundur (20-21. maí hjá RIVM, Bilthoven)

Sérfræðingar frá alþjóðastofnunum eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (World Health Organization, WHO), Matvælaöryggisstofnun Evrópu (European Food Safety Authority, ESFA), Sameinuðu Rannsóknarstofnun Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (EC Joint Research Centre) ásamt sérfræðingum sem hafa tekið þátt í alþjóðlegri umræðu líkt og RISK 21 tóku þátt í upphafsfundi verkefnisins, þar sem kynnt var yfirlit yfir rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar í Evrópu og frá öðrum löndum. Farið var yfir helstu svið eiturefnafræðinnar, nýjar og háþróaður rannsóknaraðferðir og áhættumat samsettra efnablandna. Helstu atriði EuroMix verkefnisins voru kynnt á upphafsfundinum og sett í samhengi við alþjóðlega þróun og rannsóknir.

Markmið og skref

EuroMix miðar að því að þróa og sannreyna tilraunaáætlun fyrir efnablöndur mismunandi efna með ólíkar uppsprettur og áhrif á mismunandi æviskeið manna. Tilraunir verða framkvæmdar þar sem niðurstöðum og reynslu verða gert skil í hagnýtum leiðbeiningum fyrir framtíðar rannsóknaráætlanir. Þar sem fjöldi efnablandna sem við komumst í snertingu við í daglegu lífi er óendanlegur, verða ákveðnar lykil blöndur skilgreindar.

Þessar lykil blöndur verða prófaðar og niðurstöðu rannsóknanna verða notaðar í framtíðinni fyrir gagnagrunna til að meta útsetningu okkar við efnablöndur. Gagnsemi lífvirkniprófa (bioassays) verða metin fyrir efnablöndur og hentugustu aðferðirnar sem finnast verða sannreyndar og fullgildar í samanburði við dýratilraunir. Ný líkön til að framkvæma áhættumat fyrir efnablöndur verða þróuð og mat á útsetningu mun fara fram. Nýtt EuroMix líkan verður gert hagsmunaaðilum aðgengilegt gegnum almenna opna vefsíðu. EuroMix verkefnið mun veita alþjóðastofnunum ráðgjöf um hvernig á að nota lífvirknipróf ásamt notkun á líkaninu fyrir framtíðar rannsóknir og áhættumat á efnablöndum.

Niðurstöður

Gert er ráð fyrir því að verkefnið muni auka nýsköpun bæði í opinbera- og einkageiranum. Verkefnið mun veita traustan vísindalegan grunn til að meta áhrif efnablandna ásamt því að draga úr notkun tilraunadýra í framtíðinni. Einnig mun verkefnið styðja umræðu um samræmda stefnu innan áhættumats efnablandna innan í ESB, Codex Alimentarius og Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (US Environmental Protection Agency, EPA).

Alþjóðasamstarf

22 samstarfsaðilar eru í EuroMix verkefninu ásamt því að fjórir alþjóðlegir aðilar tengjast verkefninu. Verkefnið er innan rannsóknar- og nýsköpunar áætlunarinnar ESB, Horizon 2020, sem byggir á fyrri evrópskum rannsóknarverkefnum. Samstarfsaðilar EuroMix og framkvæmdastjórn ESB hafa samþykkt samhliða fjármögnun fyrir 8 milljónir evra.

Hollenska lýðheilsu og umhverfisstofnunin RIVM leiðir EuroMix verkefnið. Aðrar stofnanir eru skráðar í viðauka 1.

Nánari upplýsingar veitir dr. Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

Tenglar og ítarefni

http://cordis.europa.eu/project/rcn/193181_en.html tengill á EU síðu

http://horizon2020projects.com/

Fréttir

Verðmætaaukning í íslenskum sjávarútvegi

Íslenskur sjávarútvegur er mikilvægur Íslendingum og íslenska hagkerfinu. Síðastliðin 20 ár eða svo hefur virði aflans aukist umtalsvert og það á sama tíma og heildarmagn afla hefur verið nánast óbreytt; við erum semsagt að nýta hvert kg. afla betur en nokkurn tímann áður! 

Hvernig er þetta hægt? Þetta stutta myndband varpar e.t.v. ljósi á það!

Verðmætaaukning í íslenskum sjávarútvegi

Fréttir

Ekki veiða það sem þú vilt ekki og fullnýttu það sem þú veiðir!

Upphafsfundur í íslenska hluta verkefnisins DiscardLess fór fram hjá Matís í sl. viku en verkefnið gengur út á að auka fullnýtingu á öllum afla sem veiddur er innan landa Evrópu og er stýrt af DTU í Danmörku. Upplýsingarnar og tæknin sem koma út úr verkefninu verða auk þess nýtanleg í öðrum löndum enda öllum til hagsbóta að sjávarfang sem ekki er óskað eftir eða ekki er nýtt sé annaðhvort ekki veitt eða fullnýtt til aukinnar verðmætasköpunar.

Stóra málið er að veiða ekki sjávarfang sem ekki er nýtt til verðmætasköpunar og þar með er hægt að minnka sóun á takmarkaðri auðlind. En stundum gerist það að óæskilegur afli er veiddur og er meðafli skýrt dæmi um slíkt. Því er mikilvægt að tryggt sé að slíkur afli sé nýttur eins og best verður á kosið. Auk þess má ekki gleyma að mikilvægt er að fullnýta einnig þann afla sem við viljum fá að landi þannig að sem mest verðmæti verði búin til úr hverju kg af sjávarfangi sem veitt er. Íslendingar hafa staðið sig sérstaklega vel í fullnýtingu ýmissa fisktegunda, þá sérstaklega þorsks.

Nánar um DiscardLess má finna í bæklingi um verkefnið sem og á CORDIS síðu verkefnisins. Tengiliður Matís við verkefnið er Jónas R. Viðarsson og veitir hann allar nánari upplýsingar um þetta áhugaverða og tímabæra verkefni.

Fréttir

Christian Patermann í Skagafirði

Dr. Christian Patermann er aftur á leið til Matís. Dr. Patermann er af mörgum álitinn „Faðir“ lífhagkerfisins í Evrópu og mun hann m.a. taka þátt í fundi sem haldinn verður í Verinu á Sauðárkróki fimmtudaginn 28. maí kl. 16:00-17:15.

Eftir stuttar kynningar fara fram umræður. Meðal þátttakenda í panel eru Ásta Pálmadóttir, sveitarstjóri, Hólmfríður Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Iceprotein og Friðrik Friðriksson formaður stjórnar Matís.

Allir velkomnir! Kaffi á könnunni!

Mætum öll og tökum þátt í umræðu um hvaða tækifæri felast í lífhagkerfinu fyrir Skagafjörð.

Nánari upplýsingar veita Guðrún Kristín Eiríksdóttir og Eva Kuttner.

Fréttir

Fiskbókin er opin

Búið er að opna Fiskbókina en bókin er fróðleikur um helstu nytjafiska, upplýsingar um veiði þeirra, s.s. veiðisvæði, á hvaða árstíma þeir veiðast og helstu veiðarfæri. Með þessari rafrænu útgáfu Fiskbókarinnar er mögulegt að koma á framfæri margvíslegum upplýsingum um fisk og fiskafurðir, fræðslu og rannsóknum sem þeim tengjast með mun skilvirkari og fjölbreyttari hætti en hægt er í prentaðri bók.

Fiskbókin er unnin í samstarfi við Íslandsstofu, Samtök fiskvinnslustöðva, nú samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), og Iceland Seafood International með stuðningi AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Fiskbókin var opnuð í miðju erindi Matís starfsmanna um margföldun verðmæta til útflutnings að ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðarmála viðstöddum á ráðstefnunni Matvælalandinu í sl. viku.

Fiskbókin er önnur í röð rafrænna bóka frá Matís en áður hafði Kjötbókin verið sett í loftið.

Bókin er öllum opin til frjálsra afnota, þó ber að geta upprunans ef upplýsingar úr bókinni eru nýttar í hverskyns annarskonar útgáfu.  Vistun bókarinnar er með þeim hætti að hægt er að prenta hana út í heild, valda kafla eða einstakar síður og nýta þær sem hluta af kynningarefni. Hver einstök síða er merkt upprunanum og er innihald hennar óbreytanlegt.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.

Fréttir

Heima er bezt – tækifæri í framleiðslu matar

Á morgun, miðvikudaginn 20. maí, verður ráðstefnu- og ráðgjafardagur að Hólmi á Mýrum. Dagskráin stendur frá kl. 11-14 en að lokinni dagskrá gefst áhugasömum kostur á einkaviðtali við sérfræðinga Matís um allt sem kemur að framleiðslu matar.

Dagskrána má finna á einblöðungi Heima er best.

Nánari upplýsingar veitir Nína Síbyl Birgisdóttir hjá Matís.

Fréttir

Á bak við tjöldin

Þegar matvara er skoðuð út í búð þá eru flestir að velta fyrir sér t.d. verði, gæðum eða hollustu, okkur finnst það sjálfsagt mál að varan uppfylli allar kröfur um heilnæmi og öryggi og það á ekki að vera matur á boðstólum úr í búð sem ekki er fullkomlega í lagi.

Við veltum því ekkert mikið fyrir okkur hvernig heilnæmi og öryggi matvæla er tryggt, við hugsum ekkert oft til opinbera eftirlitsaðila eða rannsóknastofnana, við gerum bara ráð fyrir að einhver sjái um þetta fyrir okkur. Og þannig er það líka að miklu leyti, Matís mælir og fylgist með óæskilegum efnum í matvælasýnum og umhverfinu og við getum treyst því að þar sé unnið af heilindum.

Það sem gengið getur að því að virðist fumlaust fyrir sig í dag, hefur ekki alltaf gengið eins vel. Framfarir margskonar hafa mótað samfélagið, daglegt líf fólks og viðfangsefnin. Fyrir eyþjóð umlukta lífvænlegu hafi er mikilvægt að hlúa að umhverfinu svo nýta megi auðlindirnar hér eftir sem hingað til.

Mestur hluti sjávarfangsins er fluttur út og seldur til gjaldeyrisöflunar fyrir samfélagið. Fyrir Íslendinga skiptir máli að nýta auðlindirnar með ábyrgum hætti. Matís þjónar allri virðiskeðju matvæla af metnaði með áherslu á lykilþætti virðiskeðjunnar m.a. með vöruþróun, með áherslu á gæði og stöðugleika, fagmennsku við meðhöndlun og síðast en ekki síst öryggi matvæla.

Hér á landi starfa aukin heldur kröftug fyrirtæki sem þjóna innanlandsmarkaði með framleiðslu af fagmennsku á öruggum matvælum. Alla jafnan ganga hlutirnir vel fyrir sig þökk sé þrotlausri þróun.

Hvort heldur sem er þegar eitthvað bjátar á eða þegar unnið er að nýjungum  er oftar en ekki haft samband við sérfræðinga hjá Matís. I því ljósi á Matís í margvíslegu samstarfi við hvort heldur sem er þá sem framleiða matvæli, meðhöndla matvörur eða þá sem þjóna þeim sem það gera. Matís hefur átt í góðum samskiptum við neytendur og fyrirtæki.

Matís hefur unnið að þróun lífhagkerfisins hvort heldur sem er við þróun vinnsluferla sem fært hafa þjóðarbúinu milljarða eða með stuðningi við frumkvöðla í upphafi síns rekstrar og nýsköpunar.

Framþróun íslensks matvælaiðnaðar væri til lítils ef forsenda verðmætasköpunar væri ekki trygg, öryggi er lykilatriði í traustum viðskiptum og vöktun er þar með mikilvægur þáttur í viðskiptum með matvæli.

Vöktun felur í sér sívirka gagnaöflun um mengunarefni í matvælum og umhverfi. Kerfisbundin gagnaöflun gerir okkur kleift að segja til um hvernig styrkur mengandi efna á tilteknum svæðum hefur þróast og breyst með tíma. Gögn af þessu tagi eru nauðsynleg til þess að unnt sé að sýna fram á öryggi íslenskra matvæla, vernda ímynd þeirra og tryggja útflutningstekjur íslenskra afurða. Einnig eru gögnin mikilvægur liður í því að íslensk stjórnvöld geti staðið við skuldbindingar sínar og samninga við önnur lönd varðandi umhverfismengun.

Matís hefur sinnt vöktun á óæskilegum efnum í sjávarafurðum en nauðsynlegt er að líta á slíka vöktun sem langtímaverkefni þar sem eftirlit og endurskoðun á eftirlitsþáttum, eins og hvaða sjávarfang og efni eru mæld hverju sinni, er nauðsynleg. Helstu nytjategundir sjávar voru vaktaðar og rannsökuð voru á bilinu 60-90 óæskileg efni. Þeirra á meðal voru díoxín og díoxínlík PCB-efni en einnig voru mæld önnur PCB efni, varnarefni, þungmálmar og PAH efni. Ef ástæða þótti til var bætt við ákveðnu áhersluefni, t.d. ný mengandi efni sem lítið eða ekkert er vitað um í íslensku umhverfi. Með vöktunarverkefninu fengust nauðsynlegar upplýsingar um magn óæskilegra efna í íslensku sjávarfangi til langs tíma sem nýtast m.a. til að meta með vísindalegum aðferðum hvort óæskileg efni í íslensku sjávarfangi séu í samræmi við reglugerðir um matvælaöryggi og veita íslenskum stjórnvöldum, framleiðendum íslensk sjávarfangs, mörkuðum og neytendum óháð vísindaleg gögn um öryggi sjávarafurða. Niðurstöður vöktunarinnar hafa nýst útflytjendum sjávarfangs, sjávarútvegsfyrirtækjum, eftirlitsaðilum og fleirum til að sýna kaupendum íslenskra sjávarafurða fram á stöðu íslenskra sjávarafurða með tilliti til öryggis og heilnæmis.  

Matís kemur því með óbeinum hætti að því að tryggja markaðsaðgengi íslenskra matvæla eða eins og við erum gjörn á að líta á okkur sjálf: Matís – við erum á bak við tjöldin!

Nánari upplýsingar veita Arnljótur Bjarki Bergsson og dr. Hrönn Ólína Jörundsdóttir hjá Matís.

Grein þessi birtist fyrst í Bændablaðinu.

Fréttir

Lífhagkerfið, leið til sjálfbærni

Lífhagkerfi (e. Bioeconomy) er sá hluti hagkerfisins sem byggir á lífrænum sjálfbærum og endurnýtanlegum auðlindum sem finna má í hafi, fersku vatni, á landbúnaðarsvæðum, í skóglendi eða í óbyggðum. Grunnatvinnugreinar eins og sjávarútvegur og landbúnaður eru þannig hluti af lífhagkerfinu en ofan á þær byggjast afleiddar atvinnu- og þjónustugreinar eins og t.d. matvælavinnsla, framleiðsla sem byggir á líftækni, skapandi greinar, dreifikerfi og rannsóknir.

Efling lífhagkerfisins

Til að stuðla að eflingu lífhagkerfisins er mikilvægt að unnið sé þvert á mismunandi atvinnugreinar og að horft sé á hliðarafurðir úr einni atvinnugrein sem mögulegan hráefnastraum inn í aðra. Einnig þurfa ákveðnar grunnstoðir að vera fyrir hendi í samfélaginu, nýtingin þarf að vera sjálfbær þannig að auðlindirnar séu í raun endurnýtanlegar, mikilvægt er að framboð á menntun sé við hæfi auk þess sem tryggja þarf nýsköpunarhæfni samfélagsins, ekki hvað síst þeirra svæða sem liggja að lífauðlindum. Í dag byggir hagkerfi heimsins í ríkum mæli á olíuvinnslu, ekki bara til jarðefnaeldsneytis framleiðslu heldur er olíuvinnsla einnig undirstaða efnaiðnaðar. Olíuauðlindir eru endanlegar auðlyndir sem munu klárast auk þess sem notkun þeirra hefur neikvæð umhverfisáhrif. Litið er til lífhagkerfisins til að leysa af hólmi hagkerfi sem byggir á olíuvinnslu og færast þannig í átt til hagkerfis sem byggir á sjálfbærri nýtingu endurnýtanlegra auðlinda.

Rannsókna og nýsköpunaráherslur

Á Íslandi spilar nýting lífrænna auðlinda, einkum sjávartengdra auðlinda, stærra hlutverk í hagkerfinu en víða annarstaðar. Þegar litið er til norrænna, evrópskra og annarra svæðisbundinna eða alþjóðlegra rannsókna- og nýsköpunaráætlana er ljóst að sífellt aukin áhersla er á lífhagkerfið. Þessi aukna alþjóðlega áhersla á lífhagkerfið opnar tækifæri fyrir Ísland til breiðrar þátttöku í rannsóknum og nýsköpun með það að markmiði að auka verðmætasköpun og efla íslenska lífhagkerfið. Mikilvægt er því að nýta tækifærið og að íslenskar rannsókna- og nýsköpunaráherslur styðji þessa þróun svo að sem mest samlegðaráhrif náist á þessu sviði.

Stórar áskoranir

Ástæða þess að lífhagkerfið og efling þess er svo áberandi í alþjóðlegum áætlunum er að viðgangur, styrking og framþróun í lífhagkerfinu er eitt helsta svar mannskyns við þeim stóru áskorunum sem það sendur frammi fyrir. Þetta á við um fæðu- og matvælaöryggi fyrir sífellt fleiri jarðarbúa. Einnig til að sporna við og aðlagast hlýnun jarðar, útskiptingu jarðefnaeldsneytis og útskiptingu efna sem unnin eru úr olíu í dag. Einnig má segja að efling lífhagkerfisins geti spilað stórt hlutverk þegar kemur að byggðarþróun og íbúasamsetningu í dreifðum byggðum sem liggja að lífauðlindum. Auk þess að vera lykillinn að því að auka viðnámsþrótt vistkerfa við áföllum hvort sem um er að ræða eldgos, flóð eða fellibyli og við skiplag land- og hafsvæða.  

Aukin verðmætasköpun í lífhagkerfinu

Nýsköpun í lífhagkerfinu felist í verðmætaaukningu og nýtingu alls hráefnis sem til fellur við vinnslu þvert á geira, með framleiðslu á hliðarafurðum og/eða verðmætari vörum úr þegar nýttu hráefni. Hún getur falist í  bættum vinnslu-, kæli- og flutningsferlum sem auka nýtingu og gæði vöru.
Nýsköpunin getur einnig falist í beitingu og þróun nýrrar tækni til að einangra og vinna ýmis efni til iðnaðarframleiðslu úr lífrænum hráefnum í stað olíu. Í þessu sambandi er sérstaklega horft til nýtingar lífræns úrgangs, vannýtra auðlinda eins og t.d. þangs og þara og aukinnar ræktunar til dæmis á þörungum, bakteríum eða sveppum. Auk þess geta veruleg tækifæri falist í erfðafræðilegri sérstöðu lífvera á tilteknum svæðum, þar eru hitakærar bakteríur í íslenskum hverum gott dæmi en þær má m.a. nýta til framleiðslu á hitaþolnum ensímum sem nýtast í ýmsum iðnaði.

Drifkraftar í lífhagkerfinu

Þó verðmætaaukning sé dregin hér sérstaklega fram sem mikilvægur drifkraftur eru einnig aðrir mikilvægir þættir sem hvetja til framþróunar í lífhagkerfinu. Þar má nefna svæðisbundið fæðuöryggi sem byggir ekki einungis á nægri matvælaframleiðslu heldur einnig á því að svæði séu sjálfbjarga um nauðsynleg hráefni til matvælaframleiðslu eins og fóður og áburð.  Einnig má líta á jákvæð áhrif á byggðarþróun sem drifkraft, þar sem t.d uppbygging líftækniiðnaðar sem kallar á nálægð við lífauðlindir getur aukið framboð starfa fyrir menntað fólk í dreifðum byggðum. Umhverfisáhrif og sjálfbær nýting til að tryggja varanleika lífrænna auðlinda verður að sjálfsögðu alltaf útgangspunktur við framþróun lífhagkerfisins. Lífauðlindir eru og verða íslensku samfélagi mikilvægar, efling lífhagkerfisins hefur verið og mun verða einn mikilvægast þátturinn í að viðhalda og auka hagsæld á Íslandi til framtíðar.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa Smáradóttir hjá Matís. Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 1. maí sl.

Fréttir

UNA skincare fær viðurkenningu

Á ársfundi Íslandsstofu hlaut fyrirtækið UNA skincare viðurkenningu fyrir bestu markaðs- og aðgerðaáætlun í útflutningsverkefninu Útflutningsaukning og hagvöxtur (ÚH). 

UNA skincare™ húðvörurnar, komu á markað árið 2012. Rannsóknar- og þróunarvinna vörulínunnar fór fram í náinni samvinnu við Matís, bæði í Reykjavík og á Sauðárkróki.

Brynhildur Ingvarsdóttir,
framkvæmdastýra UNA skincare
Mynd: Arnaldur, af vef Íslandsstofu

UNA skincare húðvörurnar innihalda einstök lífvirk efni sem unnin eru úr íslenskum sjávarþörungum en vísindamenn UNA skincare hafa þróað einstæða aðferð til að einangra og framleiða virku efnin úr þessari vannýttu íslensku auðlind – aðferð sem tryggir hámarksvirkni og hreinleika efnanna og niðurstöður vísindarannsókna staðfesta að vörurnar hafa jákvæð áhrif á húðina.

Nánari upplýsingar veitir Brynhildur Ingvarsdóttir í síma 665-0101.

IS