Fréttir

Sigurvegarar í Íslandsmeistarakeppninni í matarhandverki 2014

Nú er fyrsta Íslandsmeistarakeppnin í matarhandverki yfirstaðin. Keppnin var að þessu sinni opin fyrir allar Norðurlandaþjóðirnar og fór fram í Norræna húsinu 13. nóvember.

Matís og Ný norræn matvæli II stóðu að þessari keppni. 

Samhliða keppninni var haldin ráðstefna þar sem hægt var að fræðast um hvernig frændur okkar á Norðurlöndunum hafa stutt og markaðssett matarframleiðslu úr héraði. Ráðstefnan var styrkt af ÍslandsstofuIcelandairNorræna húsinu og Mjólkursamsölunni.

Keppendur voru frá öllum Norðurlöndunum og voru skráðar 110 vörur. 
Keppt var í 8 mismunandi flokkum.

Hér má sjá lista yfir vinningshafa:

Mjólkurafurðir:

Gull     Arla Unika, Sirius (ostur), Danmörk
Silfur   Den Blinde ku, Blåmandag (ostur), Noregur
Brons  Skärvångens bymejeri, Rosalina (ostur), Svíþjóð

Kjötafurðir:

Gull     Sjónarsker, Klettur (þurrkryddaður, saltaður og reyktur lærvöðvi), Ísland
Silfur   Bjarteyjarsandur, Birkireyktur bláberjavöðvi, Ísland
Brons  Bjärhus gårdsbutik, Bjärhus ölpinne (þurrkuð hrápylsa), Svíþjóð

Fiskafurðir:

Gull     Leif Sørensen, Fish chips, Færeyjar
Silfur   Sólsker, Makrílpate, Ísland
Brons  Sólsker, Heitreyktur makríll, Ísland

Ber, ávextir og grænmeti:

Gull    Útoyggjafelagið, Meadowsweet syrup, Færeyjar
Silfur  Útoyggjafelagið, Rabarbusaft, Færeyjar
Silfur  Holt og heiðar, Rabarbarasulta með vanillu, Ísland

Bakstur:

Gull   Cum Pane ekologisk bakverkstad, Fröknäcke (hrökkbrauð), Svíþjóð  

Súrdeigs bakstur:

Gull    Sandholt, Reykt graskersbrauð, Ísland
Silfur  The Coocoo’s Nest, Súrdeigsbrauð, Ísland

Nýsköpun í matarhandverki:

Gull    Örtagård Öst, Skuren marmelad, Svíþjóð
Silfur  Urta Islandica,  SPRETTUR-orku og úthalds jurtate fyrir íþrótta- og fjallgöngufólk, Ísland

Salt:

Gull    Saltverk, Birkireykt salt, Ísland
Silfur  Norður & Co, Norðursalt – íslenskt flögusalt, Ísland

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Hvert er sótspor ferskra þorskhnakka frá Íslandi?

Í seinni tíð hefur krafan um sjálfbæra nýtingu og lágmörkun umhverfisáhrifa í framleiðslu á matvælum aukist mikið á mörkuðum sem eru mikilvægir fyrir ferskfiskafurðir okkar Íslendinga.

Kröfum um sjálfbæra nýtingu fiskistofna hefur verið svarað með umhverfisvottunum, en upplýsingar um heildarumhverfisáhrif íslenskra sjávarafurða og samanburð við samkeppnisvörur hefur skort. Því tóku nokkur fyrirtæki í framleiðslu, dreifingu og markaðssetningu á ferskum þorskhnökkum saman höndum og létu framkvæma vistferilsgreiningu (Life Cycle Assessment) á afurðum sínum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að umhverfisálag ferskra íslenskra þorskhnakka er tiltölulega lágt í samanburði við okkar helstu samkeppnisaðila í sjávarútvegi og mun lægra en frá kjötafurðum.

Afurðir frá fjórum framleiðendum og af sjö mismunandi fiskiskipum sem seldar eru í Bretlandi og í Sviss voru rannsakaðar og niðurstöðurnar bornar saman við sambærilegar rannsóknir sem gerðar hafa verið annarsstaðar í heiminum. Nokkur munur er á sótspori einstakra skipa eftir stærð, veiðarfærum, kvótastöðu og útgerðarmynstri, en meðaltalsniðurstöður rannsóknarinnar sýna að sótspor ferskra þorskhnakka er um 0,8 Kg CO2 ígildi / Kg hnakkar þegar búið er að vinna aflann. Flutningur með skipi til Bretlands eða Sviss bætir frekar litlu við sótsportið, en ef afurðirnar eru fluttar með flugi getur sótsporið allt að þrefaldast, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Séu þessar niðurstöður bornar saman við niðurstöður sambærilegra rannsókna annarsstaðar frá má sjá að sótspor íslenskra þorskhnakka sem fluttir eru með flugi til Bretlands er sambærilegt á við norskan þorsk og lax sem fluttur hefur verið með sendibílum til mið-Evrópu. Séu hnakkarnir hins vegar sendir með skipi kemur íslenski fiskurinn töluvert betur út en sá norski. Séu þorskhnakkarnir bornir saman við aðra próteingjafa úr dýraríkinu má sjá að íslenskur þorskur hefur mjög takmarkað sótspor.

Niðurstöður þessarar rannsóknar hafa verið gefnar út í skýrsluformi, auk þess sem gefin hefur verið út bæklingur með helstu niðurstöðum. Nálgast má skýrsluna og bæklinginn á heimasíðum Matís og AVS, en verkefnið var styrkt af AVS.

Nánari upplýsingar Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Úrslit í Íslandsmeistarakeppninni í matarhandverki tilkynnt í dag

Íslandsmeistarakeppnin í matarhandverki fór fram í gærdag og gærkvöldi. Fjöldinn allur af vörum voru með í keppninni og var það samdóma álit allra þeirra sem komu að þessu að mjög bjart sé yfir nýsköpun í matvælum ekki bara hér á landi heldur á öllum Norðurlöndunum.

Úrslitin verða kunngerð kl. 15 í dag í Norræna húsinu og hvetjum við alla til að koma við og sjá afrakstur smáframleiðslu matvæla og nýsköpunar í matvælum eins og hún gerist best á Norðurlöndunum.

Myndir af nokkrum vörum frá keppninni í gær

Matarhandverk | Artisan Food Matarhandverk | Artisan Food.

Matarhandverk | Artisan Food Matarhandverk | Artisan Food.

Matarhandverk | Artisan Food Matarhandverk | Artisan Food.

Matarhandverk | Artisan Food Matarhandverk | Artisan Food.

Matarhandverk | Artisan Food Matarhandverk | Artisan Food.

Matarhandverk | Artisan Food Matarhandverk | Artisan Food.

Matarhandverk | Artisan Food Matarhandverk | Artisan Food.

Matarhandverk | Artisan Food Matarhandverk | Artisan Food.

Matarhandverk | Artisan Food Matarhandverk | Artisan Food.

Matarhandverk | Artisan Food Matarhandverk | Artisan Food.

Fréttir

Sjávarbyggðir, smábátaveiðar og byggðaþróun við N-Atlantshaf

Í september síðastliðnum stóð Matís fyrir ráðstefnu um sjávarbyggðir, smábátaveiðar og byggðaþróun við N-Atlantshaf. Ráðstefnan var haldin í tengslum við íslensku sjávarútvegssýninguna og formennsku-áætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Ráðstefnan var styrkt af Norrænu ráðherranefndinni, en auk Matís kom fjöldi aðila að undirbúningi og framkvæmd ráðstefnunnar. Má þar meðal annars nefna landssambönd smábátaeigenda í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Færeyjum, Íslandi, Grænlandi og Nýfundnalandi, auk rannsóknaraðila og einkafyrirtækja í þessum sömu löndum.

Skýrsla frá ráðstefnunni

Allar framsögur á ráðstefnunni eru nú aðgengilegar á heimasíðu verkefnisins, bæði í pdf formi og myndbandsupptökur. Jafnframt hefur verið gefin út skýrsla með öllum framsögum ráðstefnunnar og bæklingur með úrdrætti úr öllum framsögum.

Nánari upplýsingar Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Viltu vita um viðskiptatækifærin í dreifðari byggðum Grænlands?

Nú er komið að lokum Arctic Bioeconomy verkefnisins. Verkefninu lýkur með ráðstefnu um norrænt lífhagkerfi með áherslu á Ísland, Grænland og Færeyjar en á ráðstefnunni munu margir áhugaverðir fyrirlesarar stíga í pontu. Meðal þeirra er Inunnguaq Hegelund sem er Íslendingum að góðu kunnur úr þáttunum Nautnir norðursins sem nýverið var sýnt á RÚV.

Lífhagkerfið tekur til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda og má því segja að íslenskt hagkerfi sé að verulegu leiti háð lífhagkerfinu.

Í ljósi mikilvægis sjávarins og haftengdrar starfsemi felast einstök tækifæri í umræðu, framþróun og aukinni verðmætasköpun á þessu sviði fyrir Ísland og Íslendinga.

Aukinn hagvöxtur byggðum á sjálfbærri nýtingu lífrænna auðlinda og nýsköpun sem miðar að aukinni verðmætasköpun er meginstefið á ráðstefnunni og er sérstöku ljósi beint að auðlindum hafsins í þessu sambandi.

Á ráðstefnunni mun dr. dr. Christian Patermann halda fyrirelstur sem ber heitið  „Europe route to the Bioeconomy, challenges and perspectives for the Nordic Union“.

Paterman þessi er stórt nafn í lífhagkerfismálum en hann er fyrrverandi forstjóri DG Research European Commission, Biotechnology, Agriculture, Food Research hjá ESB og talinn „faðir“ lífhagkerfisins í Brussel.

Dagsetning: 11. nóvember
Staðsetning: Norræna húsið, Sturlugötu 5

Dagskrá

Conference facilitator: Hrönn Ólína Jörundsdóttir, Matís

13:00 – 13:40     Europe route to the Bioeconomy, challenges and perspectives for the Nordic Union, Dr.dr. Christian Patermann, key note speaker

13:40 – 14:00       Main results of Arctic Bioeconomy – lessons learned and the way forward
Sigrún Elsa Smáradóttir, Research group leader, Matís   
      
14:00– 14:15       Trends in the Blue Bioeconomy: A Faroese Case Study
Dr. Unn Laxá,  Research Project Manager

14:15 – 14:30       Business opportunities and rural development in the Greenlandic Bioeconomy
Inunnguaq Hegelund, chef at Hotel Arctic in Greenland

14:30 – 14:50       Access to plant varieties in the Arctic agriculture
Dr. Svein Ø. Solberg, Senior Scientist, Nordic Genetic Resource Center

14:50 – 15:20    Coffee break

15:20 – 15:40       Bioeconomy in the Nordic countries, strategy, opportunities and needs
Dr. Lene Lange, professor, Department of Biotechnology and Chemistry, Aalborg University, Denmark

15:40 – 16:00       European Bioeconomy – opportunities and challenges
Dr. Hörður G. Kristinnsson, Director of Research, Matís

16:00 – 17:00       Panel discussion
Panel leader:
Þorsteinn Tómasson, Director Public Science Administration (ret.), Iceland

Amalie A. Jessen, Ministry of Fisheries, Hunting and Agriculture, Greenland
Dr.dr. Christian Patermann, Director (ret.) European Commission, Germany
Dr. Lene Lange, professor, Aalborg University, Denmark
Kjartan Hoydal, Nordic Marine Think Tank, Faroe islands
Dr. Sveinn Margeirsson, CEO Matís, Iceland
            
Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa Smáradóttir í síma 858-5113.

Fréttir

Verður ekki þverfótað fyrir Norðurlandabúum í næstu viku?

Næsta vika verður sannarlega hátíð fyrir Norðurlandabúa og þá sérstaklega þá sem áhuga hafa á lífhagkerfi Norðurlanda, en inni því kerfi er t.d. matur og matvælaframleiðsla.

Óhætt er að segja að sjaldan hafi jafn margir viðburðurðir, sem tengjast Norðurlandasamstarfi, verið hér á landi í einni og sömu vikunni. Flestir þessara viðburða tengjast formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, en 2014 er ár Íslands í þeirri formennsku.

Hér að neðan má sjá þá viðburði sem í boði eru. Rúsínan í pylsuendanum er svo Matarmarkaður Búrsins, sem haldinn verður helgina 15. og 16. nóvember.

  • 10. og 11. nóvember – lokafundur í Arctic Bioeconomy en fundurinn er haldinn hjá Matís (lokaður fundur).
  • 11. nóvember – Nordic Vision Workshop
  • 11. nóvember – 13:00 – 17:00  „Arctic Bioeconomy – Focus on West-Nordic Countries“ – ráðstefna haldin í Norræna húsinu.
  • 11. nóvember – 9:00 – 16:00 „BoMin“ („Barn och mat så in i norden” / „New Nordic food, project food and children). –> nánari upplýsingar hér.
  • 12. nóvember – 8:30 – 17:30 Vettvangsferð tengt Matarhandverkskeppninni.
  • 12. og 13. nóvember – 8:00 – 19:00 Nordic Bioeconomy and Regional Innovation.
  • 13. nóvember – 9:00 – 16:00 Matarhandverksráðstefnan en hún er haldin í Norræna húsinu.
  • 14. nóvember – 9:00 – 15:00 Matarhandverksnámskeið og fyrirlestrar hjá Matís.

Allir viðburðir tengdir Matarhandverkinu eru öllum opnir (vettvangsferðin, ráðstefnan og matarhandverksnámskeiðin).

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Rannsóknir á aukinni nýtingu síldar til manneldis

Norðmönnum hefur gengið vel með rannsóknir á fullnýtingu á síld. Rannsóknirnar hafa staðið yfir í þrjú ár og útkoman er sú að hægt er að nýta það sem til fellur eftir flökun í einar 17 ólíkar afurðir. Hér á landi eru rannsóknir af þessu einnig í gangi hjá Matís.

Í frétt í norska sjávarútvegsblaðinu FiskeribladetFiskaren segir að rannsóknin hafi miðað að því að skapa uppsjávarvinnslunni í Noregi meiri tekjur fyrir afurðir sínar með aukinni vinnslu til manneldis.

„Við horfum á þessar aukaafurðir sem hráefni til fiskmjölsframleiðslu eins og staðan er núna. Norðmenn hafa verið að reyna að búa til afurðir til manneldis úr aukahráefnunum. Við höfum verið að skoða þetta líka, hvort sem þær fara til fiskmjölsframleiðslu eða til manneldis. Verð á fiskimjöli er ævintýralega hátt og nýting á þessu síldarhráefni er mjög há í bæði mjöl og lýsi. Þetta háa verð verður þó ekki um alla eilífð og þess vegna erum við einnig að skoða leiðir til aukinnar manneldisvinnslu,“ segir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís.

Hann segir að stóri aðstöðumunurinn sé sá að Norðmenn hafi úr margfalt meira fjármagni að moða í rannsóknir.

„Rannsóknarsjóður þeirra heitir FHF. Meðan AFS-sjóðurinn okkar minnkar frá ári til árs stækkar FHF-sjóðurinn (Fiskeri og havbruk Fonden) stöðugt. Staðan er mjög ójöfn hvað þetta varðar. Við höfum náð mjög langt með samstarfi við fyrirtækin í landinu. Það hefur verið styrkur okkar Íslendinga hvað fyrirtækin hafa verið dugleg að taka þátt í þróuninni.“

Sigurjón segir að Íslendingar hafi langt því frá þurrausið þau tækifæri sem liggja í frekari nýtingu á sjávaraflanum. Þar liggi undir milljarðar króna ónýttir.

Þegar best lét fóru á um 300 milljónir króna úr AVS-sjóðnum til rannsókna. Norski FHF-sjóðurinn veitir á 215 milljónum norskra króna til rannsókna 2014 en voru 185 milljónir árið 2013, sem er hátt í fimm milljarðar íslenskra króna.  

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís.

Viðtalið við Sigurjón Arason birtist fyrst í Fiskifréttum.

Fréttir

„Faðir“ lífhagkerfisins í Evrópu á leið til Íslands

Ráðstefna um norrænt lífhagkerfi með áherslu á Ísland, Grænland og Færeyjar.

Ráðstefna verður haldin í Norræna húsinu 11. nóvember kl. 13:00 – 17:00. Ráðstefnan er styrkt af The Nordic Council of Ministers Arctic Co-operation Programme, NKJ (Nordic Joint Committee for Agricultural and Food Research) , AG-Fisk (Working Group for Fisheries Co-operation), SNS (Nordic Forest Research) and NordGen (the Nordic Genetic Resource Center),  og er hluti af verkefninu „Arctic bioeconomy“.

Ráðstefnan fer fram á ensku og er öllum opin.

Dagskrá

  • 13:00 – 13:40
    Europe route to the Bioeconomy, challenges and perspectives for the Nordic Union –
    Dr.dr. Christian Patermann, keynote speaker
  • 13:40 – 14:00
    Main results of Arctic Bioeconomy – lessons learned and the way forward –
    Sigrún Elsa Smáradóttir, Research Group Leader, Matís   
        
  • 14:00– 14:15
    Trends in the Blue Bioeconomy: A Faroese Case Study –
    Dr. Unn Laksá, Research Project Manager, Syntesa
  • 14:15 – 14:30
    Business opportunities and rural development in the Greenlandic Bioeconomy –
    Inunnguaq Hegelund, Chef at Hotel Arctic in Greenland
  • 14:30 – 14:50
    Access to plant varieties in the Arctic agriculture –
    Dr. Svein Ø. Solberg, Senior Scientist, Nordic Genetic Resource Center
  • 14:50 – 15:20
    Kaffihlé
  • 15:20 – 15:40
    Bioeconomy in the Nordic countries, strategy, opportunities and needs – Dr. Lene Lange, professor, Department of Biotechnology and Chemistry, Aalborg University, Denmark
  • 15:40 – 16:00
    European Bioeconomy – opportunities and challenges –
    Dr. Hörður G. Kristinsson, Director of Research, Matís
  • 16:00 – 17:00  
    Panel umræður

Aðalfyrirlesarinn, dr. dr. Christian Patermann er fyrrverandi forstjóri DG Research European Commission, Biotechnology, Agriculture, Food Research og „faðir“ lífhagkerfisins í Brussel. Einnig var hann starfandi í 1st German Bioeconomy Advisory Council.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa Smáradóttir, fagstjóri hjá Matís.

Fréttir

Lífvirkar fjölsykrur úr sæbjúgum

Varsha Ajaykumar Kale mun verja doktorsritgerð sína í lyfjavísindum mánudaginn 3. nóvember næstkomandi. Athöfnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl.13.00.

Ritgerðin ber heitið: „Lífvirkar súlfateraðar fjölsykrur úr sæbjúganu Cucumaria frondosa og ensím sem umbreyta slíkum lífefnum.“  „Bioactive sulfated polysaccharides from the sea cucumber Cucumaria frondosa and enzymes active on this class of biomolecules.“

Andmælendur eru dr. Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor við Matvæla-og næringarfræðideild Háskóla Íslands, og dr. Maher Abou Hachem, lektor við Danmarks Tekniske Universitet (DTU).

Leiðbeinendur í verkefninu voru dr. Sesselja Ómarsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson, fagstjóri frá Matís og prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og dr. Ólafur H. Friðjónsson, verkefnastjóri hjá Matís. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, og dr. Jóna Freysdóttir, prófessor við sömu deild.

Dr. Már Másson, deildarforseti Lyfjafræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.

Ágrip

Í Asíu er löng hefð fyrir neyslu sæbjúgna og eru þau jafnframt notuð í alþýðulækningum. Margs konar lífvirkni sæbjúgnafjölsykra hefur verið lýst. Í þessu verkefni voru fjölsykrur einangraðar úr holdi sæbjúgans Cucumaria frondosa. Súlfateruðru fjölsykrurnar voru þáttaðar niður í þrjá þætti, FCF-1, FCF-2 og FCF-3. Þættirnir innihéldu allir mismunandi fjölsykrur bæði með tilliti til mólþunga og efnasamsetningu. Greining á sameindabyggingu súlfateruðu fjölsykrunnar í þætti FCF-3, sem var í mestu magni, sýndi fram á að um fúkósýlerað kondrótín súlfat (FuCS) er að ræða. Ónæmisstýrandi áhrif, andoxunaráhrif og áhrif á sykurkljúfandi meltingarensím fjölsykranna voru skimuð in vitro. Angafrumur sem voru þroskaðar í návist fjölsykrunnar FCF-1 seyttu marktækt minna af öllum mældum boðefnum. Samræktun angafrumna sem voru þroskaðar á návist FCF-1 og ósamgena CD4 jákvæðra T frumna leiddu í ljós að angafrumurnar ýttu undir sérhæfingu Th17 frumna með því að auka IL-17 seytun þeirra. In vitro rannsóknir leiddu í ljós að FCF-3  fjölsykran hafði nokkur andoxunaráhrif og sterk bæliáhrif á virkni α-glúkósídasa en minni bæliáhrif á virkni α-amýlasa í samanburði við akarbósa sykru sem notuð var sem jákvætt viðmið. Í bakteríum finnast fjölbreytilegir lífhvatar sem sundra og umbreyta fjölsykrum. Slíkar bakteríur voru einangraðar eftir in situ auðgun í fjöru og fjöruhver á æti sem innihélt kondrótínsúlfat úr hákarla- og sæbjúgnabrjóski. Erfðamengi nokkurra baktería, sem einangraðar voru eftir auðgun á kondroitinsúlfat æti, var raðgreint og gen fjölmargra sykurkljúfandi ensíma auðkennd. Þrjár gerðir ensíma voru framleiddar í E. coli með erfðatækni, þ.e. kondrótín lýsasi og súlfatasi úr Arthrobacter stofni og tveir α-L fúkósidasar úr bakteríunni Litorilinea aerolinea sem nýlega var lýst. Eiginleikar og virkni ensímanna á náttúrulegum hvarfefnum voru metin. Saman gátu fúkósidasinn, súlfatasinn og kondrótín lýasinn brotið niður fúkósýlerað kondrótínsúlfat úr sæbjúganu C. frondosa.

Fréttir

Ertu með gullvöru í þínum höndum? Viltu fá mat á gæðum hennar?

Þann 13. nóvember næstkomandi verður haldin fyrsta „Íslandsmeistarakeppnin í matarhandverki“ (ÍM í matarhandverki). Keppnin verður að þessu sinni opin fyrir allar Norðurlandaþjóðirnar og fer fram í Norræna húsinu.

Ráðstefna – Námskeið – Fyrirlestrar

Matís og Ný norræn matvæli II bjóða smáframleiðendum frá öllum Norðurlöndunum að taka þátt í keppninni.

Samhliða keppninni verður haldin ráðstefna, sem er opin öllum, þar sem hægt verður að fræðast um hvernig frændur okkar á Norðurlöndunum hafa stutt og markaðssett matarframleiðslu úr héraði, sjá nánar dagskrá ráðstefnunnar hér. Ráðstefnan er styrkt af ÍslandsstofuIcelandair og Norræna húsinu.

Í kringum keppnina verður boðið upp á vettvangsferð, þar sem heimsóttir verða smáframleiðendur á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Eins verður boðið upp á hálfs dags námskeið og stutta fyrirlestra fyrir smáframleiðendur og aðra áhugasama um matvælaframleiðslu. Þessi fræðsla er í boði verkefnisins „Nýsköpun í lífhagkerfinu“ sem er hluti af Norræna lífhagkerfinu (Nordbio) sem er þáttur í formennsku-áætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Skráning í keppnina, ráðstefnuna og á námskeiðin fer fram hér.

Skráningu lýkur 6. nóvember.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

Dagskrá

12. nóvember
Vettvangsferð

Heimsókn til smáframleiðenda á höfuðborgarsvæðinu og á suðurlandi. Hér má sjá dagskránna.

13. nóvember
Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki – keppni opin fyrir allar Norðurlandaþjóðirnar

Smáframleiðendur frá öllum Norðurlöndunum eru velkomin að taka þátt í keppninni.

Ráðstefna -opin fyrir almenning

Fyrirlesarar frá öllum Norðurlöndunum munu gefa góð dæmi um hvernig vel hefur tekist til við að styðja smáframleiðendur og markaðssetja vörurnar þeirra. Hér má sjá dagskránna.

Báðir viðburðir verða haldnir í Norræna húsinu.

14. nóvember
Námskeið og fyrirlestrar

Ýmis áhugaverð námskeið og fyrirlestrar fyrir smáframleiðendur og aðra áhugasama um matvælaframleiðslu verða haldnir á Matís. Sjá nánar hér.

15. – 16. nóvember

Matarmarkaður Búrsins, haldin í Hörpunni

IS