Fréttir

Fundur í Chill-on verkefninu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Dagana 21-22 september s.l. var haldinn á Rf fundur í Evrópuverkefninu Chill-on, sem er stórt samþætt verkefni sem hófst nú í sumar. Verkefnið er styrkt af ESB og nemur styrkurinn alls um 9,8 milljónir Evra og er umfang þess alls um 15,1 m. Evra eða um 1,4 miljarðar íslenskra króna.

Rf stýrir einni af fjórum meginrannsóknarstoðum Chill-on verkefnisins auk þess að vera þáttakandi í fleiri verkþáttum þess. Fundurinn á Rf var í þeim rannsóknarhópi sem Rf stýrir og fjallar um kælitækni og flutninga á viðkvæmum matvælum eins og ferskum fiski og hvernig megi auka öryggi og gæði afurða með nýrri tækni.

Á vefsíðu verkefnisins kemur m.a. fram að markaðssvæði Evrópusambandsins sé annar stærsti markaður í heimi fyrir fersk og frosin matvæli og að viðskipti með kæld og frosin matvæli aukist um meira en 10% á ári. Þar segir einnig að fiskur sé í þriðja sæti af þeim matvælum sem mest sé neytt af í Evrópu og vegna þess hve ferskur fiskur sé viðkvæm vörutegund hafi verið ákveðið að rannsaka allt sem viðkemur gæðamálum og rekjanleika í birgðakeðju og flutningum með kældan og frystan fisk í verkefninu.

Rannsóknir Rf í verkefninu snúa að mestu að fiskafurðunum og aðferðum til að auka geymsluþol og öryggi þeirra, en samstarfsverkefni af þessari stærð opnar fyrir ýmsa nýja möguleika og þekkingarflæði hingað heim.

Í Chill-on verkefninu verður jafnframt unnið að þróun sömu þátta fyrir kjúklingaafurðir og birgðaleiðir slíkra afurða til Evrópu. Má í þessu sambandi geta þess að frá Brasilíu eru t.d. flutt um 250 þús tonn árlega af kjúklingabringum til markaða í Evrópu. Í Chill-on verkefninu eru alls 24 þátttakendur frá Evrópu og fjarlægum löndum s.s. Kína, S-Ameríku, en þátttakendur á fundinum í Reykjavík, fyrir utan vísindamenn frá Rf, komu frá Ísrael, Tyrklandi, Spáni, og Þýskalandi.

Verkefnisstjóri í Chill-on fyrir hönd Rf er dr. Sigurður Bogason:

Upplýsingar um verkefnið fást hjá Matís, matis@matis.is