Fréttir

Lítil mengun þungmálma í hafinu kringum landið

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Mengun þungmálma í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið. Þungmálmar eru frumefni sem eru upprunnir í náttúrunni en styrkur þeirra getur aukist vegna aðgerða manna (t.d. námuvinnslu).

Fram kemur í skýrslunni (Monitoring of the marine biosphere around Iceland in 2005 – 2006) að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Þannig mælist t.d. kadmínstyrkur í kræklingi hærri á ýmsum stöðum sem eru fjarri íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi, eins og t.d. í Mjóafirði, heldur en í Hvalfirði og Straumsvík.

Í skýrslu Matís eru birtar niðurstöður árlegs vöktunarverkefnis á vegum Umhverfisráðuneytisins fyrir árin 2005 og 2006. Markmiðið með vöktun umhverfis landið er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi á erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á að veiðar fari fram í ómenguðu umhverfi.

Mæld voru ýmis ólífræn snefilefni og klórlífræn efni í þorski veiddum í árlegu vorralli Hafrannsóknastofnunarinnar í mars 2006 og í kræklingi sem safnað var á 11 stöðum í kringum landið í ágúst/september 2005.

Rannsóknir á breytingum á lífríki sjávar við Íslands hefur staðið yfir frá 1989.

Skýrsluna er að finna hér.