Fréttir

Meira bragð: Lömb alin upp á hvönn

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hafnar eru tilraunir á því að ala íslensk lömb upp á hvönn. Markmiðið er að kanna hversu mikil bragðgæði felast í því að ala lömb upp á bragðsterkum gróðri í stað hefðbundinnar sumarbeitar. Matís (Matvælarannsóknir Íslands) hyggst rannsaka hvaða áhrif hvannabeit hefur á bragð lambakjötsins.

Verkefnið er að frumkvæði Höllu Steinólfsdóttur og Guðmundar Gíslasonar sauðfjárbænda að Ytri-Fagradal á Skarðsströnd. Þau hyggjast ala ákveðinn fjölda lamba í beitarhólfi með býr yfir hvönn. Til samanburðar verður öðrum lömbum komið fyrir í úthagabeit og á ræktuðu landi. Markmiðið er að rækta upp hvönn til að beita á lömbin fyrir slátrun og hefja framleiðslu á lambakjöti sem byggir á þessari aðferð. Ef verkefnið skilar jákvæðum niðurstöðum er stefnt að því að hefja sölu á lambakjöti sem byggir á slíkri sérstöðu.

Kindur.

Hvönn talin góð kryddjurt

Hvönn var áður talin til búdrýginda og var einnig talin allra meina bót. Nú er áhugi á þessari jurt að vakna á ný samhliða aukinn vitund fólks um þau efni sem það setur ofan í sig. Hvönn hefur verið notuð til að gefa bragð í mat og þykir góð sem kryddjurt. Þess vegna þykir áhugavert að gera athugun á því hverju það skilar sér í bragðgæðum á kjöti að ala lömb upp að hluta til á hvönn fyrir slátrun.

Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að lömb sem eru alin upp við ólíkar aðstæður fyrir slátrun gefa mismunandi bragð. Þá er það þekkt erlendis frá að hægt sé að ala lömb fyrir slátrun upp við mismunandi aðstæður og skapa þar með ákveðna sérstöðu með sölu og markaðssetningu á kjöti.

Hvönn.

Matís rannsakar bragð kjötsins

Hjá Matís verður skoðað hvaða áhrif hvannabeit hefur á bragð kjötsins. Athugað verður hvort hægt sé að greina mun á bragði og áferð kjötsins eftir beit/fóðri. Sé um merkjanlegan mun að ræða verða allir þættir skynmats skoðaðir, svo sem bragð, lykt, útlit og og áferð. Þá kemur í ljós í hverju munurinn er fólginn, eins og til dæmis hvort um aukabragð sé að ræða. Hjá Matís er sérhönnuð aðstaða fyrir skynmat samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Þá býr Matís yfir skynmatshóp sem er sérstaklega þjálfaður fyrir mismunandi skynmatspróf.

Lambaskrokkar.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Búnaðarsamtök Vesturlands.

Frétt Bændablaðsins um hvannalömbin.