Fréttir

Stórefldar rannsóknir og aukin menntun í matvælafræðum: Stefnt að fjölgun nemenda

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Háskóli Íslands og Matís (Matvælarannsóknir Íslands) hafa ákveðið að vinna náið að því að stórefla rannsóknir og menntun í matvælafræðum, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggi. Stefnt er að því að fjölga verulega nemendum í grunn- og framhaldsnámi í þessum greinum við Háskóla Íslands samkvæmt samstarfssamningi sem HÍ og Matís hafa undirritað.

Hlutverk Háskóla Íslands felst í rannsóknum á fræðasviðinu innan viðkomandi deilda skólans og leiðbeiningu nemenda í meistara- og doktorsnámi, auk þess að bera ábyrgð á kennslu í viðkomandi greinum. Hlutverk Matís er að bera faglega ábyrg á völdum fræðasviðum ásamt því að tryggja aðstöðu fyrir verklegt nám, kennslu og rannsóknir. Þá mun Matís stýra verklegri kennslu og þjálfun nemenda í BS námi í matvælafræði en þetta miðar m.a. að því að fjölga nememendum sem útskrifast á fræðasviðinu.

Markmið samningsins er meðal annars að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, að bæta lýðheilsu og tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu.

Frá undirritun samningsins 23. nóvember 2007.

„Matís er leiðandi rannsóknastofnun á sviði matvælafræði, matvælaverkfræði, líftækni og matvælaöryggis. Matís hefur um árabil verið einn mikilvægasti samstarfsaðili Háskóla Íslands. Háskólinn hyggst efla rannsóknir og kennslu á þessum sviðum í Vísindagörðum, sem reistir verða á háskólalóðinni á næstunni. Samkomulag þetta er mikilvægur liður í þeim ásetningi Háskólans að efla formlegt samstarf við Matís á sviði verk- og raunvísinda og á heilbrigðisvísindasviði, ekki síst í næringarfræði og lýðheilsu. Háskóli Íslands hefur sett sér metnaðarfull markmið um árangur í rannsóknum á næstu árum, en náið samstarf við öflugar rannsóknastofnanir á borð við Matís er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð,“ segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

„Samkomulagið við HÍ felur í sér nýja og spennandi möguleika fyrir Matís og við erum sannfærð um að það komi til með að styrkja enn frekar rannsóknastarf í matvælafræðum og laða að fleiri nemendur að slíkum fræðigreinum innan veggja háskólans. Hlutverk Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins. Til þess að fyrirtækið nái settum markmiðum sínum er mikilvægt að það eigi náið samstarf við Háskóla Íslands, sem er stærsta menntastofnun landsins,“ segir Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís.