Fréttir

Tvær greinar frá Matís birtar í vísindaritum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýlega birtust tvær greinar eftir starfsfólk Matís í virtum erlendum vísindaritum. Annars vegar er um að ræða grein um undirkælingu á bleikju og hins vegar grein um geymsluþol og stöðugleika fiskdufts.

Í grein sem birtist í 3.tbl vísindaritsins International Journal of Food Engineering 2007, er fjallað um geymsluþol bleikju sem geymd er við mismunandi aðstæður og áhersla lögð á ofukælingu. Greinin ber titilinn Effects of Dry Ice and Superchilling on Quality and Shelf Life of Arctic Charr (Salvelinus alpinus) Fillets. Aðalhöfundur greinarinnar er Huynh Nguyen Duy Bao frá Vietnam, en meðhöfundar eru þau Sigurjón Arason og Kristín Anna Þórarinsdóttir frá Matís.

Girnilegir bleikjubitar

Bao var nemandi við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sþ veturinn 2004-5 og vann þá einmitt að verkefni um þetta viðfangsefni undir handleiðslu Sigurjóns og Kristínar Önnu. Að sögn Sigurjóns hafa rannsóknir á áhrifum undirkælingar hér á landi einkum beinst að sjávarfiskum s.s. þorski, en bleikja varð fyrir valinu í fyrrgreindu verkefni Bao þar sem sá fiskur líkist meira fisktegundum sem veiðast í Vietnam.  Lesa grein

Önnur grein, sem birtist nýlega birtist í tímaritinu Journal of Aquatic Food Product Technology, fjallar um rannsóknir sem gerðar voru á geymsluþoli og stöðugleika próteinríks fiskdufts sem unnið var úr ufsa og ætlað er til manneldis.  Greinin ber titilinn “Stability of Fish Powder Made from Saithe (Pollachius virens) as Measured by Lipid Oxidation and Functional Properties,” og er aðalhöfundur hennar Margrét Bragadóttir, sem lengi starfaði hjá Rf, en aðrir höfundar eru Eyjólfur Reynisson, Sigurjón Arason og Kristín Anna Þórarinsdóttir, sem öll starfa hjá Matís.  Lesa grein 

Eins og margir vita framleiða Íslendingar mikið af fiskmjöli, einkum úr uppsjávarfisktegundum eins og loðnu, kolmunna og síld, en einnig er talsvert framleitt úr aukahráefni sem til fellur í fiskvinnslu, s.s. afskurði og hryggjum.  Fiskmjöl hefur hingað til einkum verið nýtt í dýrafóður, en lengi hefur verið áhugi á að kanna hvort og hvernig mætti nýta stærri hluta þessa hráefnis til manneldis, enda er það hráefni sem kallað er aukahráefni auðugt af próteinum og fitu. 

Í þessu sambandi má nefna að dótturfyrirtæki Matís, Iceprótein ehf, sem starfrækt er á Sauðárkróki, rannsakar nú hvernig hægt er að nýta aukahráefni úr þorski til að framleiða hágæðaprótein.