Fréttir

Verðmætt norrænt samstarf á sjávarútvegssviðinu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís tekur á margvíslegan hátt þátt í samstarfsverkefnum með hinum Norðurlöndunum. Bæði á það við um einstök verkefni þar sem koma að önnur rannsóknafyrirtæki, stofnanir og framleiðslufyrirtæki og í mörgum tilfellum leiðir Matís aðrar íslenskar stofnanir eða fyrirtæki til slíkra norrænna verkefna.

Þessi verkefni eiga ekki hvað síst við um sjávarútveg, enda grunnatvinnugrein á Íslandi og sjávarútvegur um margt líkur á Norðurlöndunum. Auk þess eru sumir fiskistofnar í Norðurhöfum deilistofnar eða flökkustofnar, sem þýðir að veiðar úr sama stofninum eru innan fleiri en einnar fiskveiðilögsögu.

Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís, situr fyrir hönd Íslands í tveimur vinnuhópum þar sem lagðar eru línur um rannsóknir og samstarf á sjávarútvegssviðinu á Norðurlöndum. Vinnuhóparnir heyra undir Norrænu ráðherranefndina. Annars vegar er um að ræða embættismannahópinn EK-FJLS sem mótar stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í sjávarútvegi og fiskeldi og hins vegar svokallaðan AG-Fisk starfsvettvang sem hefur umsjón með þessum verkefnum og miðlar m.a. fjármagni í formi styrkja til hinna ýmsu verkefna embættismannahópsins. Sigurjón segir þátttöku í þessu norræna samstarfi mjög mikilvæga. Í því felist verðmæti fyrir Íslendinga sem fiskveiðiþjóðar, auk þess sem aðrar þjóðir njóti þeirrar reynslu og þekkingar sem Íslendingar hafa fram að færa úr sínum sjávarútvegi. „Verkefnin í þessu norræna starfi eru fjölbreytt, lúta t.d. að nýtingu sjávarauðlinda, fiskvinnsluþróun og fiskvinnslutækni. Markmið með öllum slíkum verkefnum er auðvitað fyrst og fremst að bæta lokaafurðina, skapa aukin verðmæti sjávarfangs og skapa þannig betri stöðu á markaði. En einnig koma á okkar borð mál sem snúa að pólitískum úrlausnarefnum, svo sem nýtingu sameiginlegra fiskistofna. Grunnur að lausnum í slíkum málum liggur oft í samtali og samstarfi vísindamanna,“ segir Sigurjón.

Þrátt fyrir að íslenskur sjávarútvegur eigi margt sameiginlegt með norskum og færeyskum sjávarútvegi segir Sigurjón mikils virði að afla einnig reynslu annarra norrænna þjóða á sjávarútvegssviðinu, til að mynda Dana, Finna og Svía sem eru þátttakendur í Evrópusambandinu og sjávarútvegsstefnu þess. „Allt skilar þetta okkur árangri, bæði rannsókna-fyrirtækinu Matís, öðrum íslenskum fyrirtækjum og stofnunum og í rauninni Íslandi sem framsækinni fiskveiðiþjóð,” segir Sigurjón.

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís.