Skýrslur

Geymsluþol og rýrnun í virðiskeðju grænmetis // Shelf-life and waste in the value chain of vegetables

Útgefið:

31/12/2021

Höfundar:

Jóhanna Elín Ólafsdóttir; Guðný Sif Sverrisdóttir; Kolbrún Sveinsdóttir; Aðalheiður Ólafsdóttir; Guðjón Þorkelsson; Ólafur Reykdal

Styrkt af:

Matvælasjóður / Icelandic Food Innovation Fund

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Í verkefninu var geymsluþol grænmetis til skoðunar. Framkvæmt var skynmat á tómötum, kartöflum, gulrótum og rófum í 6 vikur sumarið 2021. Grænmetið var geymt við þrenns konar geymsluskilyrði: (1) Kælir 1 sem var við 2°C, (2) kælir 2 við 12°C og (3) herbergi sem var við um 22°C. Skynmat fór fram á gulrótum og rófum úr rými við 2 °C en skynmat á tómötum og kartöflum úr rýni við 12 °C. Til viðbótar var unnin gæðaskoðun á grænmetistegundunum fjórum úr öllum þremur rýmum. Fylgst var með raka- og hitastigi í hverju rými fyrir sig, grænmeti var vigtað til að fylgjast með rýrnun og sýni voru tekin til gerlamælinga. 

Gæðastuðulsaðferð (QIM) var notuð við skynmat.  Skalar fyrir skynmatið voru endurbættir í gegnum allt verkefnið. Niðurstöður úr skynmati með notkun þessara skala sýndu að þeir geta nýst við að leggja mat á ferskleika þeirra grænmetistegunda sem til rannsóknar voru. Gerlamælingar voru gerðar á tómötum og pappírsumbúðum tómata. Niðurstöður úr þeim mælingum sýndu að örverur vaxa vel á pappírsumbúðum. 

Rófur og gulrætur töpuðu töluverðri þyngd en hafa þarf í huga að rakastig í kælirýmum var ekki eins og best verður á kosið. Gæði metin með skynmati urðu lakari með tíma fyrir allar grænmetistegundirnar. Gæðin rýrnuðu hlutfallslega mest fyrir tómata en minnst fyrir gulrætur. Þetta skýrist af ólíku geymsluþoli tegundanni. Í sjöttu viku rannsóknarinnar var allt grænmeti að frátöldum gulrótum talið vera óhæft til neyslu. 

Vinnan var hluti af verkefninu Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis en það er styrkt af Matvælasjóði. Þær Jóhanna Elín Ólafsdóttir og Guðný Sif Sverrisdóttir voru sumarstarfsmenn hjá Matís við verkefnið. Vinnan skilaði mikilvægum afrakstri við þróun á skynmatsskölum og niðurstöðurnar verða hagnýttar í geymsluþolsrannsóknum á grænmeti í framtíðinni.



The Quality Index Method (QIM) was used for sensory evaluation. Scales were developed for tomatoes, potatoes, carrots and rutabagas. The method was found useful for sensory evaluation of the freshness of vegetables, but the scales need further development. The quality of the vegetables as measured by the QIM method decreased throughout the experiment. The weight of rutabaga and carrots decreased considerably throughout the experiment. 

This work was a part of the project Improved quality, shelf-life and reduced waste in the value chain of Icelandic vegetables. The work was important for development of suitable QIM scales for sensory evaluation of vegetables. Future shelf-life experiments will benefit from this work. 

Skoða skýrslu