Svavar Hávarðsson hjá Fiskifréttum birti um daginn grein um Lava Seafood en fyrirtækið er ört vaxandi fyrirtæki þar sem starfsmenn hafa að stórum hluta fengið menntun sína hjá Matís.
Lava Seafood er ungt fyrirtæki sem sérhæfir sig í útflutningi sjávarfangs og hefur vaxið hratt. Nú starfa hjá fyrirtækinu tíu starfsmenn en þriðjungur þeirra hefur hlotið menntun í matvælafræði með aðkomu Matís. Á næstunni bætist starfsmaður í starfslið Lava Seafood sem hlaut mikilvæga þjálfun hjá einum af forverum Matís, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Lava Seafood hóf rekstur með útflutningi sjávarfangs til Nígeríu árið 2014.
Þróunarstarfið lykillinn
Kristmann Pálmason, framkvæmdastjóri Lava Seafood, varð vitni að mikilvægi og þýðingu rannsókna og þróunarstarfs í tengslum við viðskiptahagsmuni Íslands þegar fyrirtækið steig sín fyrstu skref ytra. Kunnugt er að lækkandi olíuverð hefur haft mikil áhrif á kaupgetu almennings í löndum á borð við Nígeríu. Í ofanálag gripu Nígerísk stjórnvöld til aðgerða sem miða að aukinni sjálfsbjörg Nígeríumanna til matvælaframleiðslu. Þar á meðal voru aðgerðir til að takmarka innflutning á matvælum s.s. þurrkuðu sjávarfangi frá Íslandi. Gengisskráning, aðgengi að gjaldmiðlum og tollar höfðu áhrif, magn og verðmæti útflutnings héðan dróst saman. Slíkt hafði áhrif bæði efnahagslega og ímyndarlega, þar sem minni sala á sérstökum sjávarafurðum minnkar nýtingu Íslendinga á sjávarafla.
Að sögn Kristmanns er staðreyndin sú að þó menn vilji koma á fullkomnum markaði með vörur og þjónustu þá eru víðast það miklir hnökrar á, að hvergi er í raun hægt að tala um fullkominn markað. Víða eru gáttir sem einungis opinberir aðilar geta opnað.
Uppbygging þekkingar
Því fór viðskiptasendinefnd til Nígeríu í fyrra undir forystu Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi utanríkisráðherra, en þó sendinefndin kæmist inn um gátt sem áður var lokuð, var samtalið við gestgjafana takmarkað.
„Samtalið við nígerísk stjórnvöld, fjármálaráðherra Nígeríu, komst fyrst af stað þegar mennta- og rannsóknasamstarf um nýtingu auðlinda sjávar, sem Matís og Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP) hafa lagt grunn að, barst í tal. Fjármálaráðherra Nígeríu opnaði dyrnar fyrir íslenska ráðamenn hjá Tollstjóra Nígeríu í beinu framhaldi af umræðu um rannsókna- og þróunarsamstarfið,“ segir Kristmann og bætir við að Matís og UNU-FTP hafi tekið stór skref í þróa rannsóknir Íslendinga á sjávarafurðum. Mjög mikilvægt sé að nýta það sem komið er og byggja upp þekkingu á því hvað við erum með í höndunum í fyrsta lagi, og hins vegar hvað við erum í raun að selja inn á alla okkar fiskmarkaði, einkum með tilliti til heilnæmis, próteina og áreiðanleika. Það sé mikilvægt að tengja nýsköpunina inn á þekkta markaði t.d. Nígeríu auk þess að leita að nýjum mörkuðum.
Hæfileikafólk til landsins
Eins og Fiskifréttir hafa fjallað um að undanförnu hefur fjölþjóðlegt tengslanet vísindasamfélagsins í Matís dregið til landsins hæfileikaríkt fólk sem íslenskur sjávarútvegur getur nýtt sér með markvissum hætti með tilliti til þekkingar á og aðgengi að nýjum mörkuðum. Skemmst er að minnast ráðstefnunnar World Seafood Congress, sem Matís skipulagði með tilstyrk fjármála- og sjávarútvegsfyrirtækja. Ráðstefnan var mikilvægt innlegg inn í umræðu á alþjóða vísu, að sögn Kristmanns. Ráðstefnuna sóttu jafnt fræðimenn, ráðherrar og stjórnendur fyrirtækja í tengslum við sjávarútveg framtíðarinnar.
Kristmann segir að íslensk fyrirtæki eigi að leggja kapp á að nýta þá þekkingu og þann mannauð sem Matís hefur byggt upp með gagnkvæmu samstarfi. Það hafi Lava Seafood gert; nýtt sér vísindasamfélagið Matís til að undirbúa margþætt verkefni á erlendri grundu. Fyrirtækið á í viðskiptum við félög í yfir 30 löndum og byggir á þeirri trú að allstaðar sé hægt að selja þekkingu.
„Matís má kalla samnefnara fyrir þá íslensku þekkingu sem er svo eftirsótt er viðkemur verðmætasköpun úr auðlindum sjávar,“ segir Kristmann.
Grein þessi birtist fyrst í Fiskifréttum 18. desember sl.