Undanfarna daga hefur átt sér stað mikil umræða um heilindi í viðskiptum með sjávarfang. Upphaf umræðunnar má rekja til málstofu sem Matís hélt miðvikdaginn 16. mars en þar var greint frá niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar sem Matís er þátttakandi í.
Rannsóknin nær til tegundagreininga á fiski, hvort fisktegund, sbr. niðurstöður erfðarannsókna, sé í samræmi við það sem gefið er upp, og eru yfir 40 aðilar sem taka þátt um alla Evrópu. Rannsóknin er ekki hluti af matvælaeftirliti landanna þar sem rannsóknirnar fara fram heldur er um að ræða upplýsingaöflun og stöðumat á hvernig þessum málum er háttað í mismunandi ríkjum Evrópu.
Í íslenska hluta rannsóknarinnar, sem ekki er lokið, kom meðal annars fram að um 30% allra sýna sem tekin hafa verið á veitingastöðum innihéldu annan fisk en tilgreint var á matseðli, eins og fram hefur komið í frétt Matís.
Svipaðar rannsóknir hafa verið framkvæmdar áður. Til að mynda hefur Oceana (www.oceana.org) rannsakað tegundasvik á fiski í 21 fylki í Bandaríkjunum. 1200 sýni voru rannsökuð og í 33% tilfella voru aðrar fisktegundir í pakkningum en merkingar sögðu til um. Oceana rannsakaði einnig hvernig málin stæðu á veitingastöðum í Brussel og í mötuneytum stofnana Evrópusambandsins. Í Brussel var um að ræða aðra tegund en fram kom á matseðli í 31,8% tilfella.
Það er mikið hagsmunamál að heilindi séu viðhöfð í viðskiptum með mat, hvort sem það er fiskur eða önnur matvæli. Það er hagsmunamál fyrir framleiðendur, söluaðila, neytendur og ekki síst þau lönd sem keppa um markaðshlutdeild á alþjóðlegum mörkuðum.
Íslendingar byggja afkomu sína að verulegu leyti á útflutningi á fiski og fiskafurða og á sama tíma og við bendum á hreinleika og heilnæmi okkar fisktegunda, eru ódýrari og óheilnæmari tegundir settar til höfuðs okkar, en undir fölsku flaggi. Eitt þessara dæma er þegar ódýr hvítfiskur er seldur sem þorskur úr Norður-Atlantshafi. Verðmunurinn getur verið mjög mikill og leitt af sér lægra verð fyrir þorskinn og þorskafurðir. Marine Stewardship Council (MSC, www.msc.org/) hefur bent á að hefðbundið verð fyrir brauðaðan pangasíus sé um fjórar evrur á hvert kg þegar verðið á þorski geti verið um 25 evrur á hvert kg.
Því má ljóst vera að heilindi með sjávarfang er mikið efnahagslegt hagsmunamál fyrir alla Íslendinga og mikilvægt að taka umræðuna um tegundasvindl föstum tökum.