Fréttir

Aukin fiskneysla fæst með aukinni fræðslu

Ljóst er að foreldrar hafa mest hvetjandi og mótandi áhrif á fiskneyslu ungs fólks og þeir sem hafa vanist því að borða fisk í æsku halda því áfram síðar á ævinni. Í ljós kom að fræðsla og þekking jók greinilega fiskneyslu hjá ungu fólki.

Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís útskrifaðist með MS-próf í matvælafræði frá Háskóla Íslands í október 2008. Meginviðfangsefni hennar var að afla upplýsinga um fiskneyslu ungs fólks og viðhorf þeirra til fisks og var verkefnið unnið innan AVS-verkefnisins : Viðhorf og fiskneysla ungs fólks: Bætt ímynd sjávarafurða.

Tilgangurinn var að leita leiða sem gætu stuðlað að bættri ímynd sjávarafurða meðal ungs fólks og aukið neyslu þeirra á þessum afurðum í samræmi við næringarfræðilegar ráðleggingar og þannig mögulega haft áhrif á þau sjálf og næstu kynslóð

Helstu niðurstöður verkefnisins voru þær að unga fólkið á aldrinum 17 til 26 ára borðaði fisk sem aðalrétt 1,3 sinnum í viku sem er undir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um að borða eigi fisk tvisvar í viku eða oftar. Foreldrar hafa mest hvetjandi og mótandi áhrif á fiskneyslu unga fólksins. Það að hafa borðað fisk í æsku hefur mikil áhrif á viðhorf unga fólksins til fiskneyslu seinna meir. Sjá mátti einnig úr niðurstöðunum að sá hluti þessa fólks sem farið var að heiman borðaði minnst af fiski.

Óöryggi varðandi meðhöndlun á fiski eins og það að matbúa hann eru letjandi þættir á fiskneysluna. Íhlutun sem fól í sér aukið aðgengi að fiski gegnum skólamötuneyti, opna fræðslufyrirlestra og kynningu á vefnum skilaði betri þekkingu á fisknum og lýsisneyslan jókst um nær helming og meir hjá stúlkum en strákum. Þeim sem ekki voru fyrir fisk fyrir íhlutun geðjaðist betur að honum eftir íhlutun.

Hvað varðar þessa þróun á minnkandi fiskneyslu þá er mikilvægt að sporna við henni sem fyrst með því að auka m.a. þekkingu á mikilvægi fiskneyslu heilsunnar vegna ásamt því að kenna unga fólkinu að elda fisk. Fjölskyldan er sterkur áhrifavaldur varðandi fiskneyslu og því er mikilvægt að foreldrarnir taki einnig virkan þátt í því að fræða og kynna fiskinn fyrir börnunum sínum. Ef markaðssetja á fiskafurðir fyrir þennan aldurshóp eða auka fiskneyslu þeirra ber að hafa í huga að mikilvægt er fyrir unga fólkið að fiskmáltíðin taki mið af kröfum þeirra. Niðurstöðurnar sýndu að unga fólkið hefur mismunandi smekk og skoðanir og hægt er að skipta því upp í nokkra mismunandi hópa bæði eftir smekk þeirra fyrir fiskréttum og viðhorfa til heilsu og hollustu.

Rannsóknin í heild sýndi að fiskneyslan er undir viðmiðum og þekking á fiski er ekki góð. Þörf er á aðgerðum til að fá ungt fólk til að borða meiri fisk og fræða það um mikilvægi fisks fyrir heilsuna. Einnig sýndi rannsóknin að fræðsla skilar sér til unga fólksins og hafði hún meiri áhrif á þá sem voru minna fyrir fisk. Íslendingar hafa lifað á sjávarútvegi um aldir og þekking á fiskveiðum og fiskvinnslu er með því besta sem gerist í heiminum. Þekking á fiskneyslu og hvað ákvarðar fiskneyslu ætti að vera lykilatriði í markaðssetningu sjávarafurða.

Ef neysla Íslendinga á sinni meginframleiðslu er minnkandi getur það skaðað ímynd útfluttra sjávarafurða frá Íslandi. Þegar til framtíðar er litið þá er ljóst að samstilltar aðgerðir, sem byggja á ítarlegri neytendarannsóknum, markvissri fræðslu um bæði hollustu og matreiðslu sjávarfangs svo og auknu framboði að fjölbreyttum fiskréttum, geta orðið mikilvægir þættir í að snúa við neysluþróun síðustu ára og stuðlað að aukinni fiskneyslu og bættri lýðheilsu þjóðarinnar. Með þessari rannsókn er kominn stór gagnabanki sem er forsenda fyrir því að halda áfram að rannsaka viðhorf og fiskneyslu Íslendinga.

Hægt er að nálgast ritgerð Gunnþórunnar hér: Viðhorf og fiskneysla ungs fólks

IS