Mánudaginn 27. maí næstkomandi ver Rebecca Sim doktorsritgerð sína í efnafræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Dreifing vatnssækinna og fitusækinna arsen efnasambanda meðal stórþörunga.
Doktorsvörnin fer fram í Hátíðarsal Aðalbyggingar Háskóla Íslands klukkan 11:00 til 13:00. Andmælendur verða Dr. Barbro Kollander, yfirvísindamaður hjá Matvælastofnun Svíþjóðar og Dr. Kristmann Gíslason, fagstjóri efnagreiningarhóps hjá Hafrannsóknastofnun Íslands. Leiðbeinandi er Ásta Heiðrún Pétursdóttir, doktor í efnagreiningum og sérfræðingur hjá Matís.
Í doktorsnefnd eru einnig Dr. Guðmundur Haraldsson prófessor emeritus, dr. Jörg Feldmann, yfirmaður trace Element Speciation Laboratory (TESLA) við háskólann í Graz í Austurríki, og Dr. Karl Gunnarsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknnastofun Íslands.
Stjórnandi varnar er Dr. Einar Örn Sveinbjörnsson, deildarforseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands.
Rebecca er frá Norðaustur-Skotlandi en flutti til Íslands árið 2020 til að stunda doktorsnám. Hún lauk BSc í efnafræði við háskólann í Glasgow og MSc í efnagreiningaefnafræði við háskólann í Aberdeen. Rebecca starfar nú sem sérfræðingur í efnagreiningarhópi Matís.
Eftirfarandi er ágrip af ritgerðinni:
Þörungar geta tekið upp mikið magn af frumefninu arsen úr sjónum á efnaforminu ólífrænt arsen sem er þekktur krabbameinsvaldur. Í þörungunum greinist arsen einnig á formi fjölbreyttra lífrænna efnasambanda arsens t.d. arsenósykrur og arsenólípíð, en lífrænar arsentegundir hafa verið taldar hættulausar. Nýlegar rannsóknir á arsenólípíðum hafa þó sýnt að þau geta verið jafn frumudrepandi og ólífræna arsenið og mögulegt er að arsenósykur hafi langvarandi neikvæð áhrif við reglubundna neyslu. Margt leikur á huldu um uppruna arsenólípíða en upphafspunktur framleiðslu þeirra er talinn eiga sér stað í þörungum. Þörungar njóta stöðugt meiri vinsælda á Vesturlöndum. Brýn þörf er á frekari upplýsingum um þessi efnasambönd til að meta til hlítar áhættuna sem fylgir neyslu þeirra og tryggja að settar séu viðeigandi reglur um hámarksmagn þeirra í matvælum. Sýnum af rauð-, græn- og brúnþörungum var safnað nálægt Grindavík og Kjalarnesi. Sýnin voru ítarlega rannsökuð m.t.t. þungmálma og framkvæmd var tegundagreining arsens til að afla upplýsinga um efnaform arsensins. Tegundargreining arsenólípíða er flókin og var framkvæmd í völdum sýnum með massagreinunum HPLC-ICP-M/ESI-MS/MS og HPLC-qToF-MS. Aukinheldur var brúnum stórþörungum skipt í líffræðilega hluta til að ákvarða hvort dreifing arsentegunda sé jöfn um þangið. Takmarkaðar upplýsingar eru til á heimsvísu um arsenólípíð í þangi, svo þessi umfangsmikla prófílgreining þeirra í mismunandi tegundum þörunga mun styðja við að skýra hvernig þessi dularfullu lífrænu efnasambönd arsens myndast og hvar þau eru geymd. Gögnin geta einnig nýst við áhættumat á arsentegundum í þangi til manneldis og geta því haft áhrif á framtíðarlöggjöf um matvælaöryggi.