Fréttir

Efling staðbundinnar matvælaframleiðslu – Grein eftir starfsmann Matís í tengslum við Matvæladag MNÍ

Efling staðbundinna matvæla miðar að því að byggja upp staðbundið og sjálfbært matvælahagkerfi. Þetta felur í sér matvælaframleiðslu, vinnslu, dreifingu og neyslu. Talið er að þróun staðbundinna matvæla muni efla viðkomandi staði eða svæði efnahagslega, umhverfislega og félagslega. Þá gefa þau tækifæri á nánari tengingu milli framleiðenda og neytenda.

Breytilegt er hvaða skilning menn leggja í hugtakið staðbundin matvæli. Yfirleitt felur þó skilgreiningin í sér þá hugmyndfræði að matvæli séu af betri gæðum og bragðist betur vegna þess að þau séu ferskari og á „besta aldri” þegar þau komast í hendur neytenda. Þá nota framleiðendur síður efni eða aðrar aðferðir til að auka geymsluþol þeirra, þar sem þessar vörur þurfa að ferðast skemur en hefðbundnar vörur sem fást í verslunum. Annað markmið staðbundinna matvæla er að varðveita og endurvekja staðbundnar matarhefðir, stuðla að ræktun fjölbreyttra nytjaplantna til að draga úr notkun varnarefna, áburðar og myndun úrgangs. Þetta mun einnig efla staðbundin hagkerfi með því að styrkja lítil bændabýli, staðbundin störf og verslanir.

Matarferðamennska er oft tengd við borgarferðir, háklassa veitingahús og svo kölluð „matarlönd”. Það er því nokkur áskorun að koma á fót matarferðamennsku í dreifbýli Íslands. Á undanförnum árum hafa nokkur samtök verið stofnuð til að stuðla að framleiðslu og framboði á staðbundnum matvælum, bæði á landinu öllu og svæðisbundið.

Á landinu eru þrenn megin samtök; Beint frá býli, Lifandi landbúnaður og Matur-Saga-Menning sem hafa öll það að markmiði að örva matarmenningu á Íslandi meðal annars með því að efla framleiðslu matvæla úr staðbundnu hráefni og stuðla að varðveislu hefðbundinna framleiðsluaðferða og matargerðalistar. Þá hefur verið þónokkur vakning á undanförnum árum meðal hráefnisframleiðenda og ferðaþjónustuaðila á Íslandi, um mikilvægi matvæla í upplifun ferðamanna og þá virðisaukningu sem fæst með vinnslu og sölu hráefnis í héraði. Hagsmunaðilar á mörgum svæðum hafa efnt til samstarfs til að vinna sameiginlega að skilgreiningu og uppbyggingu á matarferðamennsku og til að styðja við framleiðslu á staðbundum matvælum. Dæmi um slíkt samstarf eru Matur úr héraði, Matarkistan Skagafjörður, Þingeyska matarbúrið, Austurlamb, Suðurland bragðast best og Ríki Vatnajökuls. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er einnig hafinn undirbúningur að slíku samstarfi. Í dag er því net, og uppbygging þekkingar varðandi tækifæri í matarferðamennsku, orðið nokkuð þéttriðið. Auk þess stuðnings, sem slíkt samstarf veitir, er nú unnið að uppbyggingu á alhliða vöruþróunarhóteli á Hornafirði. Með þessu er markvisst reynt að hvetja til nýsköpunar í smáframleiðslu matvæla á landinu.

Þóra Valsdóttir matvælafræðingur, verkefnastjóri hjá Matís.

Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 2. október sl.

IS