Fréttir

Eldisfiskur gæti mettað heiminn

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Sífellt vaxandi fólksfjöldi felur í sér miklar áskornir sem FAO (Matvæla-og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna) vekur athygli á í nýjustu útgáfu SOFIA. Talið er að mannfjöldi heimsins muni nema 9.6 milljörðum árið 2050. Nú þegar eru ýmis framleiðslusvæði komin að þenslumörkum, svo finna þarf nýjar leiðir til svara fæðuþörf vaxandi heims.

Í leiðara nýjustu útgáfu SOFIA (The State of World Fisheries and Aquaculture) sem er viðamesta rit FAO leggur José Graziano da Silva, framkvæmdastjóri FAO áherslu á mikilvægi þess að finna leiðir til að mæta hungursneyð í heiminum, án þess að það komi niður á gæðum matvæla eða stuðli að ofnýtingu auðlinda. Horfir hann hýru auga til þeirra möguleika sem liggja í fiskeldi og fram kemur að möguleiki sé á að fiskeldi geti spilað stórt hlutverk í að útrýma hungri, stuðla að bættri heilsu og minnka fátækt í heiminum.

Talið er að 800 milljónir manna búi nú þegar við hungursneyð og líkur eru á að sú tala hækki með auknum fólksfjölda. Landsvæði sem hafa verið notuð til ræktunar eru sumstaðar komin að þolmörkum og því er mikilvægt að efla sjávarútveginn og nýta þau tækifæri sem þar eru. Fiskneysla hefur aukist verulega á síðustu árum, en hún hefur verið einkar mikilvæg uppspretta próteina og næringarefna í fátækari löndum heims.

Blár hagvöxtur

Sú mikla aukning sem hefur verið í fiskeldi á síðustu árum hefur víða skapað atvinnu á svæðum sem hafa einkennst af fátækt og atvinnuleysi en í þróunarlöndum er fiskur oft ríflega helmingur útflutningsverðmæta. Á Íslandi hefur fiskeldi ýtt undir jákvæða byggðarþróun á svæðum sem hafa búið við fólksfækkun á undanförnum árum.

Í leiðaranum leggur da Silva jafnframt áherslu á að þrátt fyrir að stefnt sé að aukinni fæðuframleiðslu megi það ekki koma niður á auðlindum jarðar. Heilsa og fæða mannskyns sé háð heilsu jarðar. Því þurfi að efla sjálfbærar veiðar og fiskeldi og stuðla umfram allt að bláum hagvexti.

Hann segir bláan hagvöxtur fást með því að efla sjálfbæra notkun og varðveislu endurnýtanlegra vatnaauðlinda með hagfræði-, félags- og umhverfisvænum aðferðum. Blár hagvöxtur miðar að því að jafna og samrýma þau forgangsatriði sem stuðla hvortveggja að vexti sem og varðveislu og tryggja ávinning fyrir samfélög sem eiga allt sitt undir sjávarútvegi með því að viðhalda jafnvægi milli handverks-, iðnaðarveiða og fiskeldis.

Íslendingar eygja tækifæri í fiskeldi

Fiskeldi er sú fæðuframleiðslu grein sem hefur vaxið mest á síðustu árum og vex um þessar mundir hraðar en fólksfjölgun í heiminum. Fiskur framleiddur í fiskeldi er þegar orðið um helmingur þess fisks sem neytt er í heiminum og áætlað er að hlutur fiskeldis verið orðinn 62% árið 2030.

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein hérlendis. Arnljótur Bjarki Bergsson sviðstjóri hjá Matís telur þó að frekari rannsóknir og þróunarvinnu þurfi til að efla fiskeldi hérlendis. Hann bendir á að Íslendingar veiði um 1-2% af veiddum fisk í heiminum en ali einungis 0,01% af heildar fiskframleiðslu.

„Hér eru vissulega tækifæri til aukningar en leita þarf leiða til að hámarka arðsemi fiskeldis til dæmis með því að þróa ódýrara fóður án þess að það komi niður á gæðum hráefnisins.“

Arnljótur bendir þó á að Íslendingar ættu frekar að horfa til gæða frekar en magns og stefna þar með á dýrari markaði. Lífhagkerfið við strendur Íslands sé viðkvæmt og varúðar þurfi að gæta svo það spillist ekki.

Arnljótur telur að þegar fram í sækir megi ætla að fiskeldi á vestfjörðum muni framleiða jafn mikinn ef ekki meiri fisk en veiddur eru á svæðinu í dag. Ísland getur spilað stórt hlutverk í baráttuni gegn hungri, ekki bara sem fæðuframleiðandi heldur einnig með rannsóknum og nýsköpun.

IS