Fréttir

Eru vinnsla og útflutningur á lifandi beitukóngi raunhæfur kostur?

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Veiðar á beitukóngi hafa verið stundaðar hér á landi um langt skeið og verið nýttur bæði í beitu og til manneldis. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar frá 1772 er greint frá því að beitukóngur hafi þótt mikill herramansmatur meðal íbúa í Breiðafirði. Það var hins vegar ekki fyrr en 1996 sem beitukóngsveiðar og vinnsla til útflutnings hófst fyrir alvöru hér á landi, en fyrirtækið Sægarpur á Grundarfirði ruddi þar veginn. Frá þeim tíma hefur veiðin hér við land verið nokkuð misjöfn milli ára, en þar hafa markaðsaðstæður haft mest áhrif. Veiðarnar hafa nær eingöngu verið stundaðar í Breiðafirði og það eru aðallega tvö fyrirtæki sem hafa stundað veiðar og vinnslu af krafti þ.e. Sægarpur á Grundarfirði og Royal Iceland í Reykjanesbæ. Rekstur Sægarps fór í þrot árið 2013 og síðan hefur Royal Iceland verið eitt um að sinna þessum veiðum.

Heimsafli beitukóngs hefur verið um 30-35 þúsund tonn á ári, þar sem Bretland og Frakkland eru stærstu veðiþjóðirnar. Ágætir markaðir eru fyrir beitukóng víða í mið- og suður Evrópu, sem og víðsvegar í Asíu. Íslenska framleiðslan hefur þó að lang mestu farið á markaði í Asíu s.s. Kína, Kóreu og Japan.

Þekkt er að á ákveðnum markaðssvæðum er töluverð eftirspurn eftir lifandi beitukóngi og í sumum tilvikum er greitt hærra verð fyrir slíka vöru. Aðstandendur Sægarps á Grundarfirði ákváðu því að kanna hvort veiðar, vinnsla og útflutningur á lifandi beitukóngi væri raunhæfur kostur. Þeir fengu því Matís með sér í lið og með dyggum stuðningi frá AVS sjóðnum var farið í umfangsmiklar rannsóknir og tilraunastarfsemi.

Framkvæmdar voru tilraunir með mismunandi aflameðferð um borð í veiðiskipi og geymslu eða flutning, sem gaf vísbendingar um að með réttri meðhöndlun og frágangi væri hægt að halda beitukóngi á lífi í u.þ.b. viku. stefnt hafði þó verið að því að tryggja a.m.k. 10 daga lifun til að það teldist raunhæft að ætla sér að flytja út lifandi beitukóng. Niðurstöður tilraunanna sýndu hins vegar að þegar meira en vika var liðin frá veiði dró hratt úr lifun og kjötið var orðið óhæft til neyslu á tíunda degi. Mögulega væri hægt að þróa þessa ferla betur til að tryggja betri lifun, en miðað við þessar niðurstöður er geymsluþolið ekki nægjanlega langt til að þetta geti talist álitlegur kostur að sinni.

Einnig voru gerðar tilraunir til að halda beitukóngi lifandi í hringrásarkerfi í fiskikeri. Markmiðið með þeim tilraunum var að kanna hvort hægt væri að geyma lifandi beitukóng á „lager“ fyrir vinnslu í landi. Útbúið var hringrásarkerfi með síubúnaði sem dugði til að hald lífi í beitukóngi í viku. Ekki er ólíklegt að hægt sé að lengja þann tíma með öflugri síubúnaði en notaður var í þessum tilraunum. Þessar niðurstöður verða að teljast jákvæðar og til þess fallnar að þær gætu verið teknar upp hjá fyrirtækjum sem standa að vinnslu á beitukóngi.
Markaðir fyrir lifandi beitukóng voru einnig skoðaðir, en segja má að sú könnun hafi endanlega fært heim sanninn um að útflutningur á lifandi beitukóngi væri ekki raunhæfur kostur. Það sé einfaldlega betri kostur að vinna beitukónginn hér heima. Breytist markaðsaðstæður hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að hægt sé að bæta ferla svo að slíkur útflutningur verði mögulegur.

Lokaskýrsla þessa verkefnis er nú aðgengileg hér.

IS