Matís og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins þar á undan, hefur tengst þróunarverkefnum í rúm 10 ár í gegnum kennslu og leiðbeiningastarf við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP). Þessi samvinna hefur leitt af sér frekari verkefni fyrir Matís með námskeiðahaldi í þróunarríkjum.
Alls hefur Matís haldið átta námskeið í fimm löndum, Víetnam (2005), Sri Lanka (2006), Kenía (2008 og 2013), Úganda (2011) og Tansaníu (2012, 2014 og 2015). Námskeiðin hafa verið ein til tvær vikur að lengd og sniðin að þörfum viðkomandi landa. Fyrrum UNU-FTP nemar hafa seinni ár tekið virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd námskeiðanna. Þessi samvinna hefur verið verðmæt öllum aðilum og nýst Matís við vaxandi verkefni í þróunarlöndum.
Tanganyikavatn í Tansaníu
Árið 2010 auglýstu stjórnvöld í Tansaníu eftir ráðgjöfum til að hanna rannsóknaskip, sjá um útboð vegna skipsins, framkvæma athugun á félagslegri stöðu fiskisamfélaga við Tanganyikavatn og koma með ráðleggingar varðandi bætta meðhöndlun og vinnslu á fiski, sem veiddur er í vatninu. Matís sótti um að taka að sér verkefnið í samvinnu við Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar, Ráðgarð skiparáðgjöf og verkfræðistofuna GOCH í Tansaníu og var því tilboði tekið. Matís tók að sér verkefnastýringu auk þess að annast ráðgjöf um bætta meðhöndlun og vinnslu á fiski. Margeir Gissurarson annaðist verkefnastjórn fyrir hönd Matís en hann hefur mikla reynslu í þróunarverkefnum og hefur einnig búið í Mósambík í sex ár. Verkefnasvæðið voru fiskisamfélög í Tansaníu sem liggja að Tanganyikavatni, þar sem í fæstum samfélögum er rafmagn eða rennandi vatn og því starfsumhverfi ólíkt því sem Íslendingar eiga að venjast. Þetta svæði er eitt það fátækasta í Tansaníu og því styrkur fyrir Matís að geta boðið fram starfsmann sem búið hefur í þróunarlöndum í mörg ár og þekkir álíkar aðstæður.
Þurrkun fiska og annars sjávarfangs við erfiðar aðstæður
Helstu vinnsluaðferðir á fiski við Tanganyikavatn eru reyking og þurrkun. Þurrkunin er framkvæmd með því að dreifa fiski á jörðina og láta sólina þurrka hann. Fuglar og skordýr eru þar í harðri samkeppni við mannfólkið um fæðuna sem liggur óvarin á jörðinni og á regntímum skolast fiskurinn burt og/eða skemmist vegna mikillar bleytu. Þannig er áætlað að um 30% aflans úr vatninu tapist eða milli 10 og 20 þúsund tonn. Reyking á fiski er framkvæmd yfir opnum eldi og því er fiskurinn frekar brenndur en reyktur. Vinnslan er yfirleitt framkvæmd af konum sem standa í reykjarkófi alla daga og afleiðing þess eru særindi í augum og erfiðleikar í öndunarfærum. Áskorun Matís var því ekki einungis að leysa tæknileg vinnslumál heldur einnig að bæta heilsufar íbúa á svæðinu.
Þurrkofn kominn í notkun
Afrakstur verkefnisins varð vinnslueining sem bæði gat þurrkað og reykt fisk í lokuðu umhverfi Viðarnotkun í nýju einingunni er einungis um 20% af því sem notað er við hefðbundna reykingu og afföll á fiski eru hverfandi. Nýju vinnslueiningunni var vel tekið og þess óskað að Matís aðstoðaði við að breiða út boðskapinn. Verkefninu var þá lokið og ekki hægt að vinna meir í því að sinni. Árið 2014 var auglýst eftir verkefnum af Nordic Climate Facility, sem er sjóður undir Norræna þróunarsjóðnum. Matís sótti þar um styrk til að endurbæta reyk- og þurrkeininguna úr fyrra verkefni og smíða 100 einingar sem dreift
væri til fiskisamfélaga í Tansaníu við Tanganyikavatn. Sá styrkur fékkst og er nú unnið í því verkefni í samvinnu við UNU-FTP og Tansania Fish Research Institute (TAFIRI). Markmið verkefnisins er að minnka viðarnotkun við reykingu á fisk um 80% og bæta afkomu fiskisamfélaganna. Í Tansaníu eru notaðir um 450 þúsund rúmmetrar af viði á ári til að reykja fisk og því má áætla að ef vinnslueining Matís kemst í almenna notkun þar í landi sé hægt að draga úr viðarnotkun um 350 þúsund rúmmetra á ári.
Notkun jarðvarma við matvælaframleiðslu
Matís hefur ennfremur tengst þróunarverkefni varðandi notkun jarðvarma
við framleiðslu matvæla. Árið 2014 fóru tveir starfmenn Matís til Kenía og Rúanda í tvær vikur til að framkvæma hagkvæmisathugun á notkun lághita við matvælavinnslu. Í Kenía er töluverður jarðvarmi en Rúanda hefur enn ekki fundið orkumiklar lindir þó þar séu til staðar hverir á nokkrum stöðum, sem hugsanlega má nýta til matvælavinnslu.
Matís við Karabíska hafiðÁrið 2015 tók Matís að sér verkefni í Karabíska hafinu varðandi mat á því
hvernig lönd innan CARIFORUM ríkja standa gagnvart alþjóðlegum kröfum um matvælaöryggi, með áherslu á villtan fisk og fiskeldi. Meginmarkmið verksins var að setja fram vegvísi eða tillögur að því hvað löndin geta gert sameiginlega og hvert fyrir sig til að tryggja aðgengi að mikilvægum markaðslöndum eins og Evrópu og Bandaríkjunum. Heimsótt voru átta lönd þar sem aðstæður og eftirlit var skoðað og niðurstöður kynntar yfirvöldum og hagsmunaaðilum. Lokatillögum var skilað í október 2015.
Undanfarin ár hefur verkefnum Matís í þróunarlöndum farið fjölgandi og með hverju verkefni hefur orðstír fyrirtækisins sem traustur og faglegur ráðgjafi í þróunarlöndum vaxið.