Fréttir

GENIMPACT: Netverkefni um mat á hugsanlegum erfðafræðilegum áhrifum fiskeldis

Erfðabreytt matvæli hafa verið talsvert til umræðu á síðustu árum og eru ekki allir á eitt sáttir um áhrif þeirra. Umræðan hefur verið af tvennum toga, annars vegar hvort matvælin geti haft skaðleg áhrif á heilsu manna og hinsvegar hvaða áhrif ræktun erfðabreyttra nytjaplantna hafi á umhverfið og lífríkið í heild. Þessi umræða hefur einnig náð til fiskeldisiðnaðarins, þar sem ýmsir hafa áhyggjur af hugsanlegum áhrifum eldisfisks á villta stofna.

Nýlega hófst fjölþjóðlegt Evrópuverkefni sem hefur það að markmiði að safna saman upplýsingum um hugsanleg erfðaáhrif frá fiskeldi. Þessum upplýsingum verður síðan miðlað til hagsmunaðila, stjórnvalda og almennings.

Verkefnið er kallað  Genimpact  en formlegt heiti þess er Evaluation of genetic impact of aquaculture activities on native populations – A European network og það er dr. Terje Svåsand frá norsku hafrannsókastofnuninni sem leiðir verkefnið.  Á meðal þeirra sem eru aðilar að verkefninu er Guðrún Marteinsdóttir, prófessor í fiskifræði við Líffræðistofnun Háskóla Íslands.

Dr. Þorleifur Ágústson, fiskalífeðlisfræðingur á Rf mun taka þátt í þessu verkefni og tekur hann þátt í verkefnum 1 og 2 sem eru annarsvegar áhrif eldis á genamengi fiska og hinsvegar þróun mælitækni til að hægt sé að meta genamengun í náttúrunni.

IS