Rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU) dr. David M. Malone heimsækir Ísland og þá skóla UNU sem starfræktir eru hér á landi í þessari viku. Mánudaginn 6. júlí s.l. leit Rektor David ásamt fylgdarliði við hjá Matís.
Rektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna ( e. United Nations University – UNU) dr. David M. Malone er á Íslandi í þessari viku ásamt Max Bond aðstoðarrektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna í heimsókn til þeirra skóla háskóla sameinuðu þjóðanna sem hýstir eru hér á landi. Á Íslandi eru starfræktir: frá 1980 Jarðhitaskóli ( e. Geothermal Training Programme – UNU-GTP), frá 1998 Sjávarútvegsskóli ( e. Fisheries Training Programme – UNU-FTP), frá 2007 Landgræðsluskóli ( e. Land Restoration Training Programme – UNU-LRT) og frá 2009 Jafnréttisskóli ( e. Gender Equality Studies and Training Programme – UNU-GEST) Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Rekstur skólanna er liður í þróunarsamvinnu Íslands sem er á forræði utanríkisráðuneytisins.
Dagskrá hinna góðu gesta er þéttskipuð. Matís hlotnaðist sá heiður mánudaginn 6. júlí að vera meðal viðkomustaða gestanna á fyrsta degi heimsóknar þeirra til Íslands ásamt fylgdarliði. Dr. Tumi Tómasson forstöðumaður UNU-FTP hóf heimsókn gestanna til Matís á örstuttri kynningu. Dr. Tumi rakti helstu ástæður þess að Háskóli Sameinuðu þjóðanna ákvað að leggja þá áherslu á sjávarútveg með þeim hætti að hér yrði starfræktur sérstakur skóli er fjallar um málaflokkinn. Í stóru myndinni þá eru mikil tækifæri fólgin í því að fara betur með það sem er framleitt, gera sem mest úr því, og þá ber jafnframt að líta á mikilvægi sjávarafurða í daglegri neyslu almennings í þróunarlöndunum.
Arnljótur B. Bergsson sviðsstjóri Auðlinda og Afurða kynnti Matís og hvernig Matís hefur komið að verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi með bættri nýtingu, betri meðhöndlun og þróun vinnsluferla m.a. í samstarfi við UNU-FTP.
Prófessor Sigurjón Arason yfirverkfræðingur Matís sagði frá samþættingu hagnýtra rannsókna og þróunarverkefna Matís við nám þ.m.t. nemenda UNU-FTP. Eins greindi Sigurjón frá aðkomu Matís að þurrkun sjávarafurða hér á landi og reykingu og þurrkun fiska í Afríku, vinnu sem unnin er í samstarfi við títtnefndan sjávarútvegsskóla. Þá sagði Sigurjón frá fjórum doktorum sem útskrifast hafa frá Háskóla Íslands með stuðningi UNU-FTP í samstarfi við Matís og tveggja doktorsnemenda sem nú eru í námi. Eins benti Sigurjón á skýrslu sem rituð var af fyrrum nemanda UNU-FTP og helstu sérfræðinga Matís á sviði þukkrunar matvæla um notkun jarðhita við matvælaframleiðslu og gefin var út af Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna nýlega. Umræður spunnust um sjálfbærni veiða, hreinleika umhverfisins og framtíðar fyrirætlanir doktorsnemendanna.
Að loknum hinum stutta fundi var gestunum sýnd aðstaða Matís á Vínlandsleið. Þótti gestunum aðstaðan til fyrirmyndar. Á leið sinni um húsið voru gestirnir kynntir fyrir doktorsnemendunum Cyprian Ogombe Odoli frá Kenía og Dang Thi Thu Huong frá Víetnam. Gestirnir hvöttu þau til dáða í ljósi mikilvægis viðfangsefnis rannsókna hvors þeirra.
Matís vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi við þá skóla Haskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktir eru hér á landi og vonast til að dr. David M. Malone rektor og Max Bond aðstoðarrektor Háskóla Sameinuðu þjóðanna njóti dvalarinnar og hafi gagn og gaman af heimsóknunum.