Ein stærsta og verðmætasta breytingin í útflutningi síðustu 10-20 árin er hin mikla aukning í framleiðslu ferskra flaka og flakabita. Frá 1997 hefur útflutningur þessara afurða nærri fjórfaldast í tonnum talið frá því að vera um 9.000 tonn í tæp 34.000 tonn árið 2013 og það sem meira er að útflutningurinn er nú í mun meira mæli með skipum en áður.
Kældur fiskur
Árið 2000 voru flutt út rúm 500 tonn af ferskum flökum með skipum en nú er þessi tala fyrir 2013 ríflega 15.000 tonn, eða rétt tæpur helmingur útflutningsins.
Breytingar af þessari stærðargráðu eiga sér ekki stað nema margt komi til og við sem erum að rannsaka af hverju, hvers vegna og hvernig breytingar hafa áhrif erum alveg sannfærð um að rannsókna- og þróunarverkefni undanfarinna ára hafa haft töluvert að segja um þennan árangur. Þessi þróun var hvött áfram af áhugasömum hagaðilum og má með sanni segja að hvatinn hafi legið í rannsókna og þróunarvinnu sem studd var af rammaáætlun um rannsóknir og þróun í Evrópu, Tækniþróunarsjóð Rannís og AVS.
Í samstarfi við útvegs- framleiðslu- og flutningsfyrirtæki hefur orðið til mikil þekking og kunnátta um hvernig best er að meðhöndla ferskt sjávarfang og viðhalda gæðum. Það má heldur ekki gleyma gildi námskeiða um bætta meðferð afla eða öðru fræðsluefni.
Ferskfiskbókin sem nýlega var sett á vefinn er mikilvægur hlekkur í því að miðla þekkingu til allra þeirra mörgu sem koma að því að skapa sem mest verðmæti úr auðlind þjóðarinnar.
Byggt á gögnum frá Hagstofu Íslands. Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson hjá Matís.