Heilindi og traust neytenda er ein af megin áskorunum nútíma viðskipta með matvæli, ekki síst í kjölfar hneykslismála á borð við svokallað „hrossakjötsmál“, en á undanförnum árum hafa komið upp fjöldi tilvika á alþjóðlega vísu þar sem milliliðir og neytendur eru blekktir í viðskiptum með sjávarfang.
Dæmi um slíkar blekkingar eru þegar ódýrar tegundir eru seldar sem dýrari, frystar afurðir seldar sem ferskar, efnum bætt í afurðir til að auka þyngd, breyta útliti, lengja líftíma eða fela að varan sé skemmd án þess að þeirra sé getið í innihaldslýsingu, tegundir í útrýmingarhættu eru seldar undir fölsku flaggi o.s.frv.
Síðastliðinn miðvikudag stóð Matís fyrir málstofu um hvernig erfðatækni getur nýst við að tryggja heilindi í viðskiptum með sjávar- og fiskeldisafurðir. Málstofunni var skipt upp í fjóra hluta, þar sem hver hluti hófst með stuttum inngangi um afmarkað umfjöllunarefni og í framhaldi voru svo almennar umræður. Kynningar sem fylgdu inngangi hvers hluta má nálgast hér að neðan.
- Aðferðir til að fylgjast með og sannreyna innihald fóðurs fyrir fiskeldi
- Aðferðir til að greina óæskilegar örverur í sjávarfangi
- Erfðafræðilegar aðferðir til að tegundagreina og rekja uppruna
- Kröfur markaða og hagnýting erfðaupplýsinga með tilliti til regluverks og efnahagslegra áhrifaþátta
Málstofan var vel sótt, þar sem á fimmta tug hagaðila víðsvegar úr virðiskeðju sjávarafurða mættu á fundinn og spunnust upp mjög góðar umræður. Var samdóma álit þátttakenda að hér væri um að ræða mikið hagsmunamál fyrir íslenska matvælaframleiðendur.
30% sýna sem starfsmenn Matís tóku á tíu veitingastöðum í Reykjavík sýndu að ekki var um þá fisktegund að ræða sem pöntuð hafði verið af matseðli.
Í fyrirlestri Jónasar R. Viðarssonar, fagstjóra hjá Matís, kom fram að rannsóknir á tegundasvikum (mislabelling) í viðskiptum með sjávarfang í Evrópu og Bandaríkjunum sýna að um þriðjungur af seldum fiski er af annarri tegund en staðhæft er á pakkningum eða matseðli. Vandamálið er mismikið eftir tegundum og sölustöðum, þar sem tegundir eins og túnfiskur og glefsari (e. snapper) eru í mikilli áhættu að vera skipt út fyrir aðrar tegundir án þess að um það sé upplýst. Atlantshafsþorskur er einnig ofarlega á listanum. Tegundasvik virðast sérstaklega algeng á Sushi veitingastöðum og á veitingastöðum sem selja brauðaðan fisk, til dæmis „fish & chips“.
Matís er þátttakandi í alþjóðlegum rannsóknum, FoodIntegrity, Authenticate og Authent-Net, þar sem m.a. er safnað sýnum á íslenskum veitingahúsum og í kjölfarið kannað með erfðatækni hvort sýni séu í samræmi við það sem tilgreint er á matseðli. Ávallt er leitað staðfestingar hjá starfsfólki veitingastaðar um tegund fisks. Rannsóknaverkefnin eru enn í gangi, en af þeim 27 sýnum sem þegar hafa verið greind eru átta sem ekki voru í samræmi við matseðil.
Nánari upplýsingar veitir Jónas