Fréttir

Hönnunarverðlaun Grapevine

Skyrkonfekt, Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir og KRADS hlutu vöruhönnunarverðlaun blaðsins Reykjavík Grapevine en þess má geta að Matís kom að þróun Skyrkonfektsins.

Skemmtileg frétt birtist á www.mbl.is fyrir stuttu. Þar er sagt frá Vöruhönnunarverðlaunum Reykjavík Grapevine. Skyrkonfektið frá Erpsstöðum fékk góða dóma.

………segir dómnefnd að skyrkonfekt sé „vel úthugsað dæmi um það gagn sem hönnun getur gert samfélaginu[…], smekkleg

og góð vara sem gerð er úr staðbundnu og lífrænu hráefni.“ Konfektið sé auk þess í „bráðfallegum umbúðum sem henta innihaldinu einstaklega vel“.

Hægt er að gæða sér á skyrkonfektinu á HönnunarMars 2012 en nánari fréttir um hátíðina og verkefnið Stefnumót hönnuða og bænda má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Irek Klonowski hjá Matís.

Mynd með frétt: Vigfús Birgisson

Ofangreind frétt birtist þann 11.3. á www.mbl.is og má sjá hana í heild sinni hér að neðan.

Skyrkonfekt, Ragnheiður Ösp Sigurðardóttir og KRADS hlutu vöruhönnunarverðlaun blaðsins Reykjavík Grapevine í ár í flokkunum vörulína ársins, vara ársins og verkefni ársins. Verðlaunin voru afhent í húsakynnum Hönnunarmiðstöðvar Íslands á föstudag.

Ragnheiður Ösp og vörulína hennar átti að mati dómnefndar vörulínu ársins, en hún á heiðurinn af NotKnot-koddunum. Segir í rökstuðningi dómnefndar að NotKnot sé „nýstárleg úrvinnsla á á íslensku ullinni, bráðfallegir koddar með skemmtilegt form“ sem sýni „sterka og sjálfstæða sýn frá skapandi íslenskum hönnuði“ og sé „frábært dæmi um handgerða vöru sem er um leið á viðráðanlegu verði.

Fyrir vöru ársins hlaut hópurinn að baki skyrkonfekti viðurkenningu, en skyrkonfekt er skilgetið afkvæmi Bændaverkefnisins, sem hafði það að markmiði að örva bændur til þess að skapa nýjar vörur í samstarfi við hönnuði. Í rökstuðningi sínum segir dómnefnd að skyrkonfekt sé „vel úthugsað dæmi um það gagn sem hönnun getur gert samfélaginu[…], smekkleg og góð vara sem gerð er úr staðbundnu og lífrænu hráefni.“ Konfektið sé auk þess í „bráðfallegum umbúðum sem henta innihaldinu einstaklega vel“.

Verkefni ársins er svo nýr flokkur í vöruhönnunarverðlaununum, en það var arkitektastofan KRADS sem hlaut viðurkenningu þar fyrir samstarfsverkefni þeirra við LEGO. Að mati dómnefndar er afraksturinn afbragðs dæmi um verkefni sem nær til allra og vekur áhuga á hönnun og umhverfi, „útlitslega sterk hugmynd sem fólk laðast náttúrulega að.“ Þykir verkefninu takast einkar vel að bæta nýrri og óvæntri vídd við merkingarþrungið vörumerki og útkoman sé tól til náms og nýsköpunar, „fögur blanda leiks og fagmennsku sem blæs nýju lífi í arkítektúr.“

Dómnefndin var skipuð hönnuðunum Herði Kristbjörnssyni, fyrir hönd Reykjavík Grapevine, Sari Peltonen, fyrir hönd Hönnunarmiðstöðvar Íslands, Auði Karítas frá versluninni Geysi, Hafsteini Júlíussyni hönnuði og Tinnu Gunnarsdóttir, fyrir hönd Vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands.

Dómnefnd voru settar þær skorður í vali sínu að verðlaunaðar yrðu vörur sem væru raunverulegir og áþreifanlegir hlutir, allt frá keramiki að skartgripum. Ákveðið var að útiloka fatahönnun úr menginu, en þó kom til greina að verðlauna fatalínur í flokknum besta vörulínan. Skilyrði var og sett um að vörurnar hefðu komið fram árið 2011.

Útgefandi Reykjavík Grapevine, Hilmar Steinn Grétarsson, segir að markmið verðlaunanna sé að vekja athygli á því sem vel er gert og að styðja við bakið á ört vaxandi og gífurlega spennandi geira hér á landi.

IS