Fréttir

Hvað er átt við með lífhagkerfi?

Að undanförnu hefur í vaxandi mæli orðið vart við hugtakið lífhagkerfi (e. bioeconomy). Sem dæmi má nefna að formennska Íslands í Norræna ráðherraráðinu snérist um lífhagkerfi Norðurlanda (e. Nordic bioeconomy) og jafnframt tekur núverandi formennska Dana í Norræna ráðherraráðinu mið af lífhagkerfinu og þá sérstaklega því sem tengist hafinu, eða hinu bláa lífhagkerfi (e. blue bioeconomy).

Í samhengi við þá áherslu má nefna velheppnaða ráðstefnu sem haldin var í Færeyjum í nýliðnum júní mánuði en hún fjallaði um lífhagkerfi í kjölfar áherslu á þekkingar samfélög. Evrópskt samstarf um rannsóknir og þróun tiltók „þekkingarmiðað lífhagkerfi“ sem eina af áherslum samstarfsins á árunum 2007-2013.

Matvælaframleiðendur hafa sameiginlega hagsmuni og samstarf milli ólíkra greina matvælaframleiðslu getur nýst hverjum og einum sem og stærri hópi matvælaframleiðenda. Til að mynda hefur Matvælalandið Ísland hefur dregið fram í dagsljósið ótvíræða kosti fjölþætts samstarfs innan lífhagkerfisins.

Til eru margar mismunandi skilgreiningar á lífhagkerfinu. Skilgreiningin tekur oft mið af umhverfi þess sem skilgreinir og hagsmunum minni eða stærri heildar á ákveðnu svæði. Mikilvægt er að skilgreiningin um lífhagkerfi nái yfir atriði sem skipta alla máli, enda lífhagkerfi á einum stað líklegt til að hafa áhrif á lífhagkerfi annarra staða. 

Hugtakið lífhagkerfi hefur verið notað til að ná yfir allar lífauðlindir, samspil þeirra og samhengi og áhrif þeirra á efnahagslega, umhverfislega og félagslega þætti. Rannsóknir á sviði lífhagkerfis ganga þannig þvert á atvinnugreinar og leitast við að hámarka ávinning auðlinda án þess að ganga á þær.

Sigrún Elsa Smáradóttir, ársskýrsla Matís 2013

IS