Matís hefur undanfarnar vikur unnið með Skotta Film að framleiðslu sýndarveruleikamyndbands um lífhagkerfið. Lífhagkerfið er hugtak sem fæstir þekkja og því var upplagt að útskýra hugtakið með nýjum og áhugaverðum hætti sem hrifið gæti sem flesta, þá sérstaklega yngri kynslóðina. Við erum afskaplega stolt af þessu myndbandi og stefnum að framleiðslu fleiri slíkra myndbanda á næstu vikum og mánuðum. Myndböndin má finna á Youtube rás Matís og hægt er að draga myndbandið til ef sýndarveruleikagleraugu eru ekki til staðar.
Af hverju lífhagkerfi? Hvað er lífhagkerfi?
Fæstir vita hvað er átt við með orðinu lífhagkerfi og margir sýna því málefninu takmarkaðann áhuga. Hér er hugtak sem ætti að skipta alla Íslendinga máli vegna þess að þjóðin, eins og aðrar vestrænar þjóðir, gengur á óendurvinnanlegar auðlindir, ekki hvað síst í matvælaframleiðslu. Mikilvægt er að líta með öðrum augum á þessa hluti og reyna eftir fremsta megni að innleiða hugsunarhátt sem stuðlar að nýtungu auðlinda sem hægt er að endurnýta. Lífhagkerfið er í raun hugtak sem nær yfir allt sem náttúran býður upp á; allt frá því sem manneskjan getur gert og er fær um að gera og yfir í það að örverur verða grunnurinn að allri plastframleiðslu framtíðarinnar!
Drekkum við vatn í framtíðinni úr plastflöskum sem bakteríur hafa framleitt……… 🙂
Skýrt og skorinort: lífhagkerfi er hagkerfi sem byggir á nýtingu lifandi auðlinda á landi og í sjó þar sem leitast er við að hámarka ávinning án þess að ganga á auðlindirnar.
Á þessu ári lýkur þriggja ára formennskuáætlun Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni en hún hófst árið 2014 þegar Ísland gegndi formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Af því tilefni er boðað til ráðstefnu í Hörpu, þar sem einstakt tækifæri gefst til að fræðast um lífhagkerfið og NordBio verkefnin, heyra um alþjóðlega strauma og stefnur á þessu sviði og leggja á ráðin um það hvernig framtíðin eigi að líta út.
Ráðstefnan fer fram í Hörpu og fyrir utan fyrirlestra, veggspjaldasýningar, sýningar á sýndarveruleikamyndbandi þá gefst gestum tækifæri til að smakka vörur sem framleiddar hafa verið úr lífhagkerfi norræna svæða; Grænlands, Færeyja og Íslands svo dæmi séu tekin.
Sjá nánar um ráðstefnuna.