Hjá Matís er unnið að athugunum á áhrifum þess að forkæla afurðir fyrir pökkun með tilliti til geymsluþols afurða. Eftir því sem afurðir eru nær ákjósanlegu hitastigi við pökkun, því minni er kæliþörfin í sjálfu flutningaferlinu.
Afar mikilvægt að lækka hitastig vörunnar í litlum einingum áður en henni er pakkað því annars er hætt við hægri og ójafnri kælingu, sem reyndin er í tilfelli stórra pakkaðra vörueininga. Forkælingaraðferðirnar, sem eru notaðar í tilraununum, eru vökvakæling og roðkæling og er afurðum pakkað í frauðplastkassa að lokinni snyrtingu og skurði í hnakkastykki. Kassarnir eru geymdir við hitastýrðar aðstæður þar sem líkt er eftir raunverulegum flutningaferlum. Fylgst er með breytingum á gæðum og skemmdarferlum með reglulegu millibili. Niðurstöður verða síðan notaðar til að meta geymsluþol afurða sem pakkað hefur verið eftir eða án forkælingar.

Þessar forkælingartilraunir nýtast tveimur AVS verkefnum, þ.e. Samþættingu kælirannsókna (R 061-06) og Hermun kæliferla (R 037-08) og eru einnig hluti af EU-verkefninu Chill-on (FP6- 016333-2). Í fyrra verkefninu nýtast þær til markvissari ferlastýringar og útgáfu leiðbeininga fyrir iðnaðinn. Í Hermun kæliferla er meiri áhersla lögð á flutningaferlana og tengsl forkælingar við hönnun og notkun umbúða í flutningaferlum. Niðurstöður forkælingartilraunanna koma að gagni við þróun varmaflutningslíkana fyrir ferskan fisk í flutningi, sem nýtast til endurbóta á flutningaferlum.