Fréttir

Lax á Íslandsmiðum – Uppruni, vöxtur og aldur

Stofnstærð Atlantshafslaxins hefur víða minnkað mikið innan útbreiðslusvæðis tegundarinnar. Margt bendir til að orsakir megi rekja til aukinna affalla í sjávardvöl laxastofnanna.

Árið 2008 hófst fjölþjóðlegt rannsóknarverkefni, Salsea Merge sem hefur það meginmarkmið að leita svara við þeirri  spurningu af hverju afföll laxa í sjó hafa aukist. Þróaður var gagnagrunnur um erfðasamsetningu laxa í hundruðum laxastofna. Með erfðagreiningu og samanburði við gagnagrunninn er nú unnt að rekja laxa sem veiðast í sjó til sinna heimkynna, en slík vitneskja er lykillinn að því kanna hvernig nýtingu beitarsvæða í Atlantshafi er háttað hjá laxastofnum.

Lítil vitneskja hefur legið fyrir um farleiðir laxa á Íslandsmiðum. Bann hefur gilt við sjávarveiðum á laxi frá 1932 og óheimilt er að landa laxi, þrátt fyrir að vitað sé að lax slæðist með sem meðafli í ýmis veiðarfæri. Reynt var að fá sýni frá fiskiskipum allt frá 2007 og í rannsóknarveiði og söfnuðust 32 sýni. Árið 2010 var nýju rannsóknarátaki hleypt af stokkunum í samvinnu við Fiskistofu í tengslum við veiðar á makríl í íslenskri lögsögu og hefur átakið nú skilað 175 sýnum til viðbótar.

Markmið verkefnisins var að kanna aldurssamsetningu, vöxt og uppruna laxa sem veiðist á hafsvæðunum við Ísland. Greind hafa verið sýni frá árabilinu 2007 til 2010, en 86% þeirra var safnað úr makrílveiðunum árið 2010. Laxarnir reyndust flestir á sínu öðru ári í sjó (78%) en hlutfall laxa sem dvalið hafði tvö ár eða lengur reyndist 17,5%. Einnig veiddust nokkrir unglaxar á fyrsta ári í sjó (4,4%). Ferskvatnsaldur var á bilinu 1 – 6 ár og reyndust laxar með tveggja ára ferskvatnsdvöl algengastir (46,2%), en þriggja ára ferskvatnsdvöl var einnig algeng (25,3%). Ferskvatnsaldur laxa var að meðaltali 2,4 ár.

Flestir laxanna voru veiddir innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Stærstur hluti sýnanna veiddist austur af landinu, en einnig voru sýni af laxi sem veiddist fyrir sunnan og vestan landið. Flestir unglaxar veiddust vestur af Snæfellsnesi. Uppruni laxa var greindur í 150 sýnum. Af þessum  fjölda reyndust einungis 8 sýni (5%) vera af íslenskum uppruna. Niðurstöður benda til að mikilvægar farleiðir og beitarsvæði laxa sé að finna innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.

Margt bendir til að laxar einkum frá suðurhluta útbreiðslusvæðisins allt frá Frakklandi til syðsta hluta Noregs með  Bretlandseyjum nýti hafsvæðin við Ísland sem beitarsvæði á hluta af sínum lífsferli og gætu verið á leið til þekktra beitarsvæða laxa við Austur – og Vestur Grænland eða inn á Irminger hafsvæðið suðvestur af Íslandi. Laxar af íslenskum uppruna reyndust óverulegur hluti sýnanna og var það einnig stutt aldurs – og vaxtargögnum. Lax í sýnunum sýndi þannig mun hraðari vöxt á seiðastigi en gerist hjá íslenskum laxastofnum, en íslenskir laxar dvelja að stærstum hluta 3 -5 ár í ferskvatni fyrir sjógöngu.

Aðilar í þessu verkefni eru: Veiðimálastofnun, www.veidimal.is, Fiskistofa, www.fiskistofa.is og Matís.
Styrktaraðili verkefnis: Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

Nánari upplýsingar veitir Kristinn Ólafsson hjá Matís, kristinn.olafsson@matis.is.

IS