Fréttir

Laxablóð – verðmæt hliðarafurð

Matís tók þátt í rannsóknarverkefni í sumar sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Rannsóknin snýr að söfnun og nýtingu á blóði úr eldislaxi og var verkefnið unnið í samvinnu við Slippinn-DNG, Samherja fiskeldi, Eim og Háskólann á Akureyri.

Þrír nemendur unnu að verkefninu í sumar og framkvæmdu tilraunir með þurrblæðingu laxa í slátrun, söfnun og greiningu á laxablóði og mati á áhrifum mismunandi blæðingaraðferða á flakagæði. Laxablóði var safnað við slátrun með búnaði sem var sérstaklega hannaður og smíðaður fyrir verkefnið. Næringargildi blóðsins voru rannsökuð ásamt því að gæði og geymsluþol flaka var metið með mismunandi aðferðum, því mikilvægt er að gæði fisksins rýrni ekki í ferlinu.

Sæmundur Elíasson verkefnastjóri hjá Matís var einn af leiðbeinendum nemendanna í verkefninu og  kynnti hluta af niðurstöðum þess á 51. ráðstefnu WEFTA sem fram fór í Kaupmannahöfn 16.-20. október síðastliðinn. West European Fish Technologists Association eða WEFTA er vettvangur þar sem margt fremsta vísindafólk Evrópu á sviði rannsókna á sjávarfangi og nýtingu þess kemur saman og ber saman bækur sínar. Áhersla ráðstefnunnar í ár var ,,sjálfbær nýting sjávarfangs“.

Niðurstöður verkefnisins skiluðu hönnunarforsendum sem nýtast til þróunar tæknilausna við þurrblæðingu á eldislaxi og sýndu einnig fram á að þurrblæðingarferlið sem notast var við hafði ekki neikvæð áhrif á flakagæði. Ljóst er að laxablóðið sjálft getur verið verðmæt hliðarafurð, það hefur fjölþætta möguleika til nýtingar, er bæði járn og próteinríkt og gæti verið gott fæðubótarefni fyrir fólk. Töluverðar áskoranir felast í söfnun þess og geymslu í miklu magni til nýtingar og er þetta verkefni gott byrjunarskref í átt að aukinni nýtingu og verðmætasköpunar laxablóðs.

IS