Fréttir

Lítið magn af óæskilegum efnum er að finna í íslensku sjávarfangi

Út er komin skýrsla frá Matís ohf. sem ber heitið Undesirable substances in seafood products – results from the Icelandic marine monitoring activities in the year 2010.

Skýrslan sýnir niðurstöður mælinga á magni óæskilegra efna, lífrænna og ólífrænna, í íslenskum sjávarafurðum á árinu 2010 og er hluti af sívirku vöktunarverkefni sem styrkt er af Sjávarútvegs- og Landbúnaðarráðuneytinu og hefur verið í gangi frá árinu 2003. Árið 2010 voru eftirfarandi efni mæld í sjávarafurðum sem ætlaðar eru til manneldis sem og afurðum til lýsis- og mjöliðnaðar: dioxin, dioxinlík PCB og bendi PCB efni, eldhemjandi efni (PBDEs), málmar og 12 mismunandi tegundir varnarefna (skordýra og plöntueitur). Gert var sérstak átak í mælingum á eldhemjandi efnum (PBDE) og  málmum árið 2010 og var styrkur þeirra almennt lágur í íslenskum sjávarafurðum. Líkt og fyrri ár vöktunarninnar mældist almennt lítið magn óæskilegra efna í íslensku sjávarfangi árið 2010 samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt. Olía og mjöl gert úr kolmunna á það þó til að vera nálægt eða fara yfir leyfileg mörk fyrir viss efni.

Gögnin sem safnað er ár frá ári í þessu verkefni fara í að byggja upp sífellt nákvæmari gagnagrunn um ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. mengunarefna. Skýrslan er á ensku og er aðgengileg á vef Matís (hér) þannig að hún nýtist framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og öðrum við kynningu á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða.

Niðurstöður mælinga á fiskimjöli og lýsi til fóðurgerðar staðfesta nauðsyn þess að fylgjast vel með magni óæskilegra efna,  ekki síst þrávirkra lífrænna efna eins og díoxíns, PCB efna og varnarefna í þessum afurðum á vorin. Styrkur þrávirku efnanna er háður næringarlegu ástandi uppsjávarfiskistofnanna sem afurðirnar eru unnar úr og nær hámarki á hrygningartíma. Þá hættir magni díoxína og díoxín-líkra PCB efna auk einstakra varnarefna til þess að fara yfir leyfileg mörk Evrópusambandsins.  Þetta á sérstaklega við um afurðir unnar úr kolmunna.

Nýlegar er einnig komin út bæklingurinn “Valuable facts about Icelandic seafood” en þar hafa verið teknar saman mikilvægar upplýsingar úr þessu vöktunarverkefni í 10 verðmætustu fiskitegundunum sem Íslendingar veiða. Höfundar skýrslunnar eru Vordís Baldursdóttir, Natasa Desnica, Þuríður Ragnarsdóttir og Helga Gunnlaugsdóttir. Verkefnastjóri er Helga Gunnlaugsdóttir.

IS