Fréttir

Má bjóða þér rabarbarakaramellu, sláturtertu, rúgbrauðs-rúllutertu eða skyrkonfekt?

Samstarf Matís og Listaháskóla Íslands, Stefnumót hönnuða og bænda, einn af 8 bestu molunum á HönnunarMars 2012.

Lilja Gunnarsdóttir, ritstjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, valdi bestu og girnilegustu molana úr dagskrá HönnunarMars 2012 og þótti henni Stefnumót við bændur einn besti molinn þetta árið.

Matís er þátttakandi í HönnunarMars 2012. Annars vegar kemur Matís að verkefninu Stefnumót við bændur sem er verkefni leitt af Listaháskóla Íslands en markmið þess var að leiða saman tvo mjög svo ólíka hópa; hönnuði annars vegar og bændur hins vegar. Matís var þar sem mikilvægur samstarfsaðili þegar kom að því að búa til neytendavænar vörur úr hráefnum, oft á tíðum vannýtum, sem bændur hafa handa á milli. 

„Stefnumót bænda og hönnuða“ er frumkvöðlaverkefni í þágu atvinnulífsins þar sem tvær starfstéttir eru leiddar saman  til að skapa einstaka afurð. Mikil sóknartækifæri felast í  matvælaframleiðslu og með markvissri nýsköpun á hráefninu og vöruþróun er hægt að margfalda virðisaukann.

Sýningarmoli þessi fer fram á Klapparstíg 33 í Reykjavík. Fréttatilkynning: Stefnumót vð bændur.

Sjá nánar á www.sparkdesignspace.com og www.designersandfarmers.com (vefsvæði opnar á laugardaginn).

Hins vegar er Matís þátttakandi á HönnunarMars í sýningu á afrakstri háskólanámskeiðsins „Vistvæn nýsköpun matvæla“ (EcoTrophelia Iceland).

Á EcoTrophelia er keppt um titilinn ljúffengasta, frumlegasta og vistvænasta matvaran 2012. Keppnin og sýningin eru haldin innan ramma HönnunarMars og fara viðburðirnir fram í nýjum húsakynnum Hönnunar- og arkitektúrsdeildar Listaháskóla Íslands, Þverholti 11.

Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaun í nemendakeppninni við athöfn á sýningarsvæðinu laugardaginn 24. mars kl 14.30. Sýningin er öllum opin og hér er auglýsing vegna hennar.

Markmið EcoTrophelia Iceland er að minnka umhverfisáhrif frá íslenskum matvælaiðnaði með því að skapa nýjar vistvænar mat- og drykkjarvörur í gegnum vöruþróunarsamkeppni háskólanemenda. Nýsköpunarmiðstöð Íslands ásamt Matís hefur stofnað til samstarfs við fimm íslenska háskóla um að efna til námskeiðs á mastersstigi í vistvænni nýsköpun á  matvælum. Þverfagleg teymi nemenda frá ólíkum skólum og sérsviðum eru leidd í gegnum vöruþróunarferlið, frá hugmynd að markaðshæfri vöru, með sérstakri áherslu á umhverfismál og hönnun. Í lok námskeiðs býr hvert teymi yfir fullþróaðri frumgerð matvöru og fullbúinni viðskipta- og markaðsáætlun. Nemendur geta markaðssett vöruna sína sjálfir eða selt nýsköpunarhugmyndina til starfandi matvælafyrirtækis. Námskeiðið endar á samkeppni, EcoTrophelia Iceland, milli vöruhugmyndanna, en  vinningsliðið tekur þátt í Evrópukeppninni EcoTrophelia Europe síðar sama ár. Að keppninni standa, auk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Matís, Þróunarvettvangur á sviði matvæla – Food for Life og Samtök iðnaðarins.

Nánari upplýsingar um EcoTrophelia má finna hér.

IS