Verkefnið Matarlandslagið felur í sér að gerður verður heildstæður, aðgengilegur og sjálfbær gagnagrunnur, vefsíða og app, sem inniheldur skrá yfir alla frumframleiðslu á Íslandi. Verkefnið er byggt á ófullgerðri frumgerð sem Matís hefur þróað síðastliðin og finna má á vefslóðunum www.matarlandslagid.is og www.eaticeland.is
Í Matvælastefnu Íslands til ársins 2030 er, í takt við Sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030 og Parísarsamkomulagið frá 2015, lögð rík áhersla á að auka sjálfbærni á öllum sviðum matvælaframleiðslu frá auðlind til neyslu en í stefnunni segir m.a. að:
Öll virðiskeðja matvæla skiptir máli, allt frá framleiðsluaðferðum til ánægju neytenda. Það skiptir máli hvernig matvæli eru framleidd, þeim dreift, þau keypt og þeirra neytt, en jafnframt að þau séu örugg og að nýting við framleiðslu og neyslu sé sem best. Sjálfbærni er undirstaða góðra lífskjara til framtíðar (bls. 6).
Framleiðsla matvæla beint úr fæðuauðlindum Íslands, eða frumframleiðsla þar sem til að mynda bóndi ræktar landið eða elur dýr eða útvegsmaðurinn veiðir fisk úr sjó, er grunnur allra íslenskra matvæla og forsenda fæðuöryggis Íslands. Yfirsýn yfir frumframleiðslu matvæla í landinu og þekking á aðstæðum er grunnur upplýstra ákvarðana og markvissrar, áhrifaríkrar stefnumótunar og skrefa til framfara en ekkert slíkt heildstætt yfirlit er aðgengilegt í dag. Slíkt yfirlit, byggt á upplýsingum sem eru uppfærðar reglulega, myndi auðvelda stjórnvöldum á öllum stjórnsýslustigum að stíga áhrifarík skref í átt að aukinni sjálfbærni og framþróun. Þá getur yfirsýn og þekking frumframleiðendanna sjálfra verið lykill að framþróun, nýsköpun og atvinnutækifærum, með samtali og samvinnu frumframleiðsluaðila og frumframleiðslugreina. En slík þekking getur einnig greitt fyrir beinum, milliliðalausum viðskiptum neytenda við frumframleiðendur og þannig ýtt undir sjálfbær viðskipti og aukinn fjölbreytileika framboðs og nýsköpun.
Með verkefninu Matarlandslagið, verður til heildstæður, aðgengilegur og sjálfbær gagnagrunnur, vefsíða og app, sem inniheldur skrá yfir alla frumframleiðslu á Íslandi. Byggt er á ófullgerðri frumgerð sem Matís hefur þróað sl. ár (sjá www.matarlandslagid.is eða www.eaticeland.is ). Landakort með staðsetningarpunktum allra frumframleiðenda er grunnurinn og er um að ræða nokkra frumframleiðsluflokka sem hver hefur sinn einkennislit (td. nautgripir, sauðfé, hestar, svín, matjurtir, fiskeldi, alifuglar, skelfiskur, geitur, þörungar, afli úr sjó … , sem smella má á fyrir þrengra sjónarhorn og upplýsingasíðu viðkomandi frumframleiðanda. Upplýsingasíða frumframleiðanda getur innihaldið allar þær upplýsingar sem hann kýs að koma á framfæri, t.d. um framleiðsluafurðir, framleiðsluaðferðir, sölu afurða, staðsetningu, símanúmer, netföng, heimasíðu, aðildarfélög sem frumframleiðandinn er aðili að, þjónustu sem frumframleiðandinn býður upp á (svo sem bændagisting, verslun á staðnum, dýragarður, afþreying, hestaferðir, markaður og svo framvegis), viðburði/ bændamarkaði/ rekomarkaði/ hátíðir/ sýningar sem framleiðandinn tekur þátt í, myndir af afurðum og aðstæðum, rafrænt pöntunareyðublað fyrir bein netviðskipti, o.s.frv. Tryggt er að upplýsingar um frumframleiðendur eru ávallt réttar þar sem frumframleiðandi hefur sjálfur sérstakan aðgang að eigin upplýsingasíðu og uppfærir hana með einföldum hætti sjálfur með innskráningu með sérstöku lykilorði sem hann einn hefur aðgang að. Síða frumframleiðenda gefur kost á ítarupplýsingum með myndum. Stefnt er að því að skipuleggjendur viðburða sem frumframleiðendur taka þátt í um landið geti einnig sótt um sérstaka upplýsingasíðu innan Matarlandslagsins sem þeir uppfæra sjálfir með innskráningu, þar sem fram koma nákvæmar upplýsingar um viðburðinn og dagsetningu. Matarlandslagið mun svo innihalda og birta sífellt uppfært viðburðadagatal með upplýsingum um viðburði/ bændamarkaði/rekomarkaði/ hátíðir /sýningar osfrv. um landið þar sem allir þeir viðburðir sem skráir eru af skipuleggjendum birtast. Hægt yrði einnig að sjá viðburðadreifingu yfir landið yfir ákveðið tímabil (t.d. viðburðir í júlí sjást á landakorti sem staðsetningarpunktur með dagsetningu og tegund viðburðar og þegar smellt er á staðsetningarpunktinn kemur upplýsingasíða um viðeigandi viðburð upp).
Verkefnið verður unnið í samstarfi við regnhlífarsamtök ýmissa sambanda og félaga frumframleiðenda sem vinna afurðir úr auðlindum landsins. Gildi slíks samstarfs er ótvírætt með tilliti til þekkingar beinnar tengingar slíkra samtaka við frumframleiðendurna sjálfa í gegnum aðildarsambönd og -félög, en Matís býr yfir mikilli og góðri reynslu samstarfs við frumframleiðendur um allt land, sem nýtast mun í verkefninu.
Matarlandslaginu er ætlað að gefa skýra heildarsýn m.a. með tilliti til sjálfbærrar framþróunar og uppbyggingar í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Parísarsamkomulagið. Þá mun Matarlandslagið einnig nýtast til upplýsingaöflunar og fræðslu um matvælaframleiðslu og matarmenningararf Íslands og þróun þessa. Frumframleiðendur, ferðamannaiðnaðurinn og veitingageirinn munu geta nýtt Matarlandslagið til að kynna matareinkenni hvers svæðis og hvar og hvernig nálgast megi innlendar afurðir sem einkenna ólík svæði og Ísland í heild. Afurðir verkefnisins eru því eftirfarandi:
- Aðgengilegur vettvangur opinn öllum: Vefurinn veitir aðgang að uppfærðum raunupplýsingum um framboð, aðgengi og eðli frumframleiðsluafurða á Íslandi og þau samfélög sem skapa þessar afurðir.
- Aukinn skilningur og þekking neytenda á frumframleiðslu íslenskra matvæla: Yfirsýn og skilningur gerir neytendum kleift að miða neyslu sína að því að minnka neikvæð neyslutengd umhverfisáhrif og þannig taka smáskref gegn hlýnun jarðar og stuðla að vistvænna samfélagi.
- Tæki fyrir stjórnvöld á öllum stigum til víðrar yfirsýnar yfir aðstæður: Skráin og myndræn framsetning hennar á Íslandkorti veita stjórnvöldum á öllum stigum nákvæma yfirsýn yfir íslenska frumframleiðslu, til upplýstrar stefnumótunar, ákvarðanatöku, nýsköpunar og uppbyggingar í takt við sjálfbærni- og þróunarmarkmið.
- Tæki fyrir ferðaþjónustuaðila og fyrirtæki til markvissrar markaðssetningar: Skýrari sýn á framboði afurða, þjónustu og afþreyingar, eðli þess framboðs, þróun þess, sögu og sérkennum er tæki fyrir ferðaþjónustuaðila til markvissrar markaðssetningar og skýrari áætlanagerðar.
- Aukið samstarf frumframleiðenda matvæla við aðra geira: Bætt yfirsýn yfir greinina getur leitt í ljós vannýtt tækifæri til frekari nýsköpunar og hvatt til samstarfs frumframleiðenda á nýjum sviðum. Í þessu samhengi má t.a.m. nefna samstarf frumframleiðenda við ferðaþjónustufyrirtæki, líftæknifyrirtæki og ólíka menningarstarfsemi en einnig aðra matvælaframleiðendur.
- Bætt fæðuöryggi og sjálfstæði í matvælaframleiðslu: Innlend matvælaframleiðsla er grundvöllur fæðuöryggis. Samfélag sem af of stórum hluta þarf að treysta á utanaðkomandi fæðuframleiðslu til að geta brauðfætt þegna sína getur búið við öryggisleysi ef ófyrirsjáanlegar aðstæður, náttúrulegar eða manngerðar, koma upp. Þetta á ekki síst við um eyríki. Þrátt fyrir trú manna á óbrigðugleika vöruflutninga nútímans hefur Covidfaraldurinum sýnt fram á mikilvægi styttri svæðisbundinna aðfangakeðja til að bregðast við óvæntum atvikum sem geta ógnað fæðuöryggi landsins.
Með Matarlandslaginu verður unnt að taka mikilvæg, greinanleg og áhrifarík skref í átt að sjálfbærni, framþróun og nýsköpun í takt við aðgerðaáætlun Matvælastefnu Íslands til ársins 2030, en í stefnunni segir um framtíðarsýn á bls. 2:
- Orðspor íslenskrar matvælaframleiðslu er gott og einkennist af hreinleika þar sem gæði og öryggi eru í fyrirrúmi.
- Heilsa, nýsköpun og tækni eru lykilþættir í íslenskri matvælaframleiðslu.
- Náttúra, menning, saga og sjálfbærni gera Ísland að spennandi áfangastað fyrir matarunnendur.
- Aðgengi íslenskra neytenda að upplýsingum er gott, þeir eru meðvitaðir um umhverfisáhrif framleiðslunnar, gæði hennar og næringu og þekkja rétt sinn sem neytendur.
- Sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur eru tryggð í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Einnig nægir að vísa til kaflaheita stefnunnar til marks um víðtæka möguleika Matarlandslagsins sem gagn til að ná markmiðum stefnunnar en heiti kaflanna og umfjöllunarefni eru „Framleiðni og nýsköpun auka hagsæld“, „Sterk staða eykur frelsi og val“, „Samvinna tryggir velferð,“ „Bætt lífsgæði er hagur allra“ og „Sjálfbærni er grundvallaratriði.“
Með Matarlandslaginu verður stuðlað að varðveislu þess menningararfs sem matarmenning okkar er og er oft grunnur sérkenna samfélaga um landið. Einnig verður stuðlað að framþróun matarmenningar, atvinnutækifærum og virðisauka í heimabyggð með því að styðja við frumframleiðendur sem nýta gamlar aðferðir og framleiða mat á hefðbundinn hátt, sem og þá sem þróa hefðir og vinna mat á nýjan hátt og stuðla að nýsköpun. Menningararfur, menning og sérkenni samfélaga um landið byggja að stóru leyti á þeirri fæðu sem matarauðlindir svæðisins gefa. Menningarleg sérkenni samfélaga eru grunnur til að byggja framþróun þeirra, sem og viðurværi á, svo sem í formi menningar- og matarmenningarferðaþjónustu og framleiðslu.
Óteljandi tækifæri eru fyrir frumframleiðendur og byggð um landið til markvissrar og sjálfbærrar þróunar blómstrandi byggða þar sem áhersla á menningarsérkenni og hefðir í matreiðslu og framþróun og útfærslur þessa á hverjum stað eru í forgrunni. Matarlandslagið veitir þannig íslenskum neytendum jafnt sem erlendum gestum tækifæri til að kynnast íslenskum mat og tengingu hans við íslenska menningu á markvissari hátt. Þetta gæti jafnframt ýtt undir frekari þróun frumframleiðslu og fært samfélögum um land allt aukna afkomumöguleika og möguleika á sjálfbærri uppbyggingu með skýrari sýn á styrkleika eigin samfélags og sérkenni fæðuauðlinda hvers svæðis. Bændur og aðrir frumframleiðendur geta einnig nýtt vefinn til að skoða hvað starfssystkin þeirra um landið eru að gera og fengið hugmyndir og eldmóð til framþróunar, nýsköpunar og samvinnu.
Niðurstaðan er að samfélög um landið fengju skýrari sýn á „hver erum við, hvað höfum við að bjóða og hvernig gerum við það á árangursríkan og sjálfbæran hátt til uppbyggingar samfélagsins“.
Þá myndu neytendur einnig deila þessari sýn á hver sérstaða okkar tengd hverjum stað er og hvað er eftirsóknarvert á hverjum stað, og stjórnvöld á öllum stigum munu jafnframt deila þessari sýn og geta byggt á henni í stefnumótun og ákvarðanatöku um sjálfbæra framþróun, nýsköpun og uppbyggingu. Um væri að ræða eflda og skýrari sýn á því hvernig hefðir og menning okkar hefur skapað og þróað samfélög um landið.
Einnig verður erlendum aðilum , m.a. ferðamönnum, veitingaþjónustuaðilum, fyrirtækjum, mennta- og menningarstofnunum, auðveldað aðgengi að upplýsingum um einkenni og hefðir íslensks matar, hvers landshluta og staðar og matartegunda, hvað varðar matarmenningu og framþróun hennar, sem og til að auka aðgengi að íslenskum mat og þekkingu á honum.
Að lokum mun Matarlandslagið vekja athygli á því mikilvæga starfi sem íslenskir frumframleiðendur vinna, sem stuðlar að sjálfbærni samfélags okkar og vera hvati til frekari framfara og aðgerða í þessa átt.
Í heild má sjá fyrir sér öflugt tæki til uppbyggingar frumframleiðslu um landið þar sem bændur og aðrir frumframleiðendur munu geta nýtt sér þau tækifæri sem felast í virku, markvissu og öflugu upplýsingaflæði til markvissrar framleiðslu og framþróunar.
Til að sjálfbærni Matarlandslagsins, gagnagrunnsins og vefsíðunnar sé tryggt er mikilvægt að umsjón og viðhald verði í höndum aðila sem eru í forsvari fyrir frumframleiðendur. Sjá má fyrir sér að til framtíðar verði árangursríkast að burðug regnhlífasamtök félaga frumframleiðenda fái það hlutverk, jafnvel fleiri en ein regnhlífasamtök (til að mynda bæði regnhlífasamtök landafurða og sjávarafurða þegar fram í sækir, og sinni hvort þeirra sínu sérsviði). Umsjónin feli í sér lágmarksaðgerðir, sem fælust aðallega í samþykkt á skráningu nýrra frumframleiðenda og viðburða sem sækja um innskráningarsíðu, almennt viðhald og uppfærslur hugbúnaðar, auk reglulegrar kynningar og markaðssetningar upplýsingagrunnsins/vefsíðunnar til að viðhalda virkni og gagnsemi hans.