Matís hefur fundið áður óþekkta hverabakteríu, sem virðist bundin við Ísland. Tegundin fannst í háu hlutfalli í hver á Torfajökulssvæðinu og hefur nú tekist að rækta hana.
Matís hefur fundið áður óþekkta hverabakteríu, sem virðist bundin við Ísland. Tegundin fannst í háu hlutfalli í hver á Torfajökulssvæðinu og hefur nú tekist að rækta hana.
Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á hverabakteríum á vegum Prokaria, líftæknisviði Matís. Nútíma aðferðir gera vísindafólki kleift að greina tegundasamsetningu án þess að rækta bakteríurnar. Áður óþekkt Thermus tegund, sem virðist bundin við Ísland, fannst með slíkum aðferðum. Tegundin fannst í háu hlutfalli í hver á Torfajökulssvæðinu, en hafði þó áður fundist í hverum á Hengilssvæðinu.
Í framhaldinu kviknaði áhugi á að reyna að einangra og rækta þessa séríslensku Thermus tegund. Styrkir fengust úr Rannsóknasjóði og frá Orkustofnun og voru tekin sýni úr hvernum á Torfajökulssvæðinu síðsumars og staðfest að Thermus islandicus væri þar að finna. Ræktunartilraunir á mismunandi ætum, við mismunandi hitastig, sýrustig og súrefnisstyrk hafa nú loks skilað árangri í lífvænlegum stofni sem er nú rannsakaður nánar. Snædís Huld Björnsdóttir starfsmaður Matís hefur unnið að þessu verkefni, en Sólveig Pétursdóttir er verkefnisstjóri.
Ýmsar Thermus tegundir hafa gefið af sér verðmæt DNA ensím sem notuð eru við rannsóknir víða um heim. Hér má nefna ensímið DNA polymerasa, sem er notaður til að magna upp DNA til að fá margar kópíur af ákveðnu geni eða genabút og DNA lígasa úr Thermus veiru sem límir DNA búta. Ekki er því ólíklegt að nýja tegundin geymi áhugaverð ensím.