Fréttir

Matís sér um skyldleikagreiningar á sandhverfu í Suður-Kína

“Samstarf okkar hefur aðallega gengið út á að Matís hefur greint fyrir okkur skyldleika í hrygningarstofni af sandhverfu sem við erum með hér” segir Jóhannes Hermannsson sem stýrir fyrirtæki í Suður-Kína sem sérhæfir sig í sandhverfueldi.

“Árangurinn af því fer að koma í ljós á næstu tveimur árum,“ segir Jóhannes.

Fyrirtækið hefur starfað í núverandi mynd í þrjú ár og er í eigu aðila í Hong Kong og Íslendings sem þar er búsettur. Eldið er staðsett í Kína, skammt norðan Hong Kong. „Við ölum fiskinn í lokuðum hringrásarkerfum innanhúss og getum framleitt um 300 tonn af sandhverfu á ári. Umhverfisaðstæður hér eru nokkuð langt frá náttúrulegum aðstæðum sandhverfunnar því hún þrífst vel í hita frá 12 upp í 17 gráður. Sjávarhiti hér við suður Kína fer mögulega niður í 16 gráður þegar kaldast er á  veturna og vel yfir 30 gráður á sumrin. Við erum því að ala fiskinn í umhverfi sem er fjarri náttúrulegu umhverfi hans. Eldi á  sandhverfu í tönkum uppi á landi er þekkt, t.d. á Spáni, í Frakklandi, Suður- Ameríku og víðar en sandhverfan er þekkt sem gæðahráefni í betri fiskrétti,“ segir Jóhannes en fyrirtæki hans selur nánast allan fiskinn úr eldinu lifandi til veitingahúsa, hótela og verslana. „Hér er samasemmerki milli þess að fiskur sé lifandi og líti vel út og að hann sé ferskur.“

Matís hefur sérhæft sig í tækni til að greina skyldleika í fiskeldi og þá þekkingu nýtir fyrirtæki Jóhannesar sér. „Mögulega hefðum við getað sótt okkur þessa þekkingu annars staðar en á vissan hátt eigum við greiðari aðgang að þjónustu hjá Matís þar sem það fyrirtæki er hvorki mjög stórt né flókið. Við getum sagt að í þessu tilfelli njóti báðir þess að vera  Íslendingar. Við vitum hvert við ætlum og hvað við getum fengið. Það skiptir okkur mestu að hafa aðgang að þekkingu sem er umtalsverð innan veggja Matís,” segir Jóhannes Hermannsson sem væntir þess að í framtíðinni muni sýni verða  reglulega send frá fyrirtæki hans í Suður-Kína til greiningar hjá Matís.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Jóhannsson hjá Matís.

IS