Enn eitt rannsóknarverkefni Matís rann sitt skeið nú á dögunum þegar ClimeFish verkefnið kláraðist eftir fjögurra ára farsælt samstarf yfir 20 þátttakenda. Þetta umfangsmikla rannsóknarverkefni var unnið undir regnhlíf rannsókna- og nýsköpunaráætlunar Evrópu og var ætlað að skoða áhrif loftslagsbreytinga á fiskeldi og sjávarútveg í Evrópu og meta um leið aðlögunarhæfni, aðgerðir og skipulag aðlögunarvinnu.
Á annan tug mismunandi eldis- og fiskveiðisvæða (tilviksrannsóknir) víðsvegar í Evrópu voru tekin fyrir í verkefninu, þar sem líkön voru notuð til þess að spá fyrir um líkleg áhrif loftslagsbreytinga á framleiðslu og afköst til ársins 2050. Greining áhættuþátta og áhættumat var framkvæmt fyrir hluta svæðanna, þar sem hagrænir og félagslegir þættir voru teknir með í reikninginn. Að endingu voru aðlögunaráætlanir settar upp, byggðar á niðurstöðum spálíkana og áhættumatsins, með notkun sérstakrar aðferðafræði sem þróuð var innan verkefnisins.
Rannsóknarniðurstöður kynntar í skugga kórónuveirufaraldurs á Ítalíu
ClimeFish verkefninu lauk með glæsilegri lokaráðstefnu sem haldin var í húsakynnum Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (FAO) í Róm á Ítalíu í lok febrúar, en FAO var einmitt í hópi þátttakenda verkefnisins. Þrátt fyrir að vera haldin í skugga upphafs kórónuveirufaraldursins á Ítalíu var ráðstefnan vel sótt, en þar voru helstu niðurstöður verkefnisins kynntar af rannsakendum verkefnisins. Matís hafði yfirumsjón yfir þeim hluta verkefnisins er sneri að þróun aðferðafræði við uppsetningu aðlögunaráætlana fyrir fiskeldi og sjávarútveg, en það voru þau Jónas R. Viðarsson og Ragnhildur Friðriksdóttir sem kynntu niðurstöður á öðrum degi ráðstefnunnar.
Niðurstöður frá sjö tilviksrannsóknum voru kynntar á ráðstefnunni, þar af voru fisk- og kræklingaeldi í sjó í Grikklandi og Spáni, tjarneldi í Ungverjalandi, fiskveiðar í Gardavatni á Ítalíu, uppsjávarveiðar í Norðaustur Atlantshafi og botnfiskveiðar vestur af Skotlandi. Áhrif loftslagsbreytinga á ýmsa þætti framleiðslunnar samkvæmt líkanaútreikningum voru kynntar, má þar nefna áhrif á vaxtarhraða eldistegunda, útbreiðslu og farmynstur nytjastofna, fiskveiðidauða, fæðuframboð og líkur á ofauðgun næringarefna og þörungablómum. Þar kom m.a. fram að líkön benda til smávægilegrar aukningar í lífmassa hrygningarstofns makríls til ársins 2050 í Norðaustur Atlantshafi, en 8-15% samdráttar hjá norsk-íslenskri votgotssíld á sama tímabili. Auk þess sýndu líkön fram á smávægilega tilfærslu í útbreiðslu uppsjávarstofna til suðvesturs, en líklegt þykir að slík breyting komi til með að auka enn frekar það flækjustig sem upp er komið í samningaviðræðum strandríkja um skiptingu deilistofna.
Áhættur og tækifæri vegna loftslagsbreytinga
Helstu niðurstöður áhættumats voru einnig kynntar, en áhættumatið tók líka tillit til jákvæðra áhrifa loftslagsbreytinga á umrædda geira, en í mörgum tilfellum sýndu líkön fram á jákvæð áhrif hitastigsaukningar á framleiðslugetu, m.a. vegna aukins vaxtarhraða eldistegunda eða stækkandi hrygningarstofns. Auk þess að kynna niðurstöður áhættumats hvers svæðis voru ýmiskonar áhættur vegna loftslagsbreytinga sem reyndust sameiginleg í hverjum geira fyrir sig. Þar má nefna að algeng áhætta vegna loftslagsbreytinga fyrir fiskveiðar í sjó voru breytingar í aflasamsetningu, ýmist vegna tilfærslu í útbreiðslusvæði eða breytinga í stofnstærð. Aðrar áhættur sem reyndust algengar innan fiskveiða í sjó voru meðal annars breytingar í vaxtarhraða og nýliðun, aukinnar fjarlægðar á veiðisvæði og skemmda á veiðarfærum og öðrum inniviðum vegna aukins ágangs veðurs. Síðast en ekki síst var aukið flækjustig í kvótaúthlutun talið líkleg afleiðing loftslagsbreytinga á fiskveiðar. Algeng áhrif loftslagsbreytinga í veiðum og eldi í ferskvatni voru t.a.m. breytingar í fæðuframboði, nýliðun og afföllum, aukning í skaðlegum þörungablómum, sjúkdómum og ágengum tegundum, aðgengi að fersku vatni og ekki síst aukning í framleiðslukostnaði vegna fyrrgreindra áhrifa. Í fiskeldi í sjó voru helstu áhætturnar breytingar í vaxtarhraða, aukinn breytileiki í stærð, tilfærsla í vaxtartímabilum, aukin afföll og breyttar eldisaðstæður sem geta leitt til aukinnar tíðni sjúkdóma og sníkjudýra, og ekki síst, aukins framleiðslukostnaðar. Einnig geta svæði sem nú teljast kjörsvæði fyrir eldi breyst til hins verra með þeim afleiðingum að eldissvæði breytast með tilheyrandi auknu flækjustigi vegna úthlutunar veiði- og eldissvæða.
Ýmsar aðlögunaraðgerðir voru kynntar á ráðstefnunni sem hluti að aðlögunaráætlunum vegna loftslagsbreytinga sem þróaðar voru fyrir hvert svæði fyrir sig. Þessar aðlögunaráætlanir voru settar saman samkvæmt aðferðafræði sem þróuð var innan verkefnisins, en hún tók tillit til niðurstaðna spálíkana um líkleg áhrif vegna loftslagsbreytinga og þeirra áhættuþátta sem líklegir voru til að hafa mest áhrif. Algengar aðlögunaraðgerðir innan fiskveiða í sjó voru m.a. endurskoðun á kvótaskiptingafyrirkomulagi, þróun á þrautseigari veiðarfærum með aukna kjörhæfni og öflugri innviðum, breyttar áherslur í markaðsstarfi og aðgerðir í átt að auknu öryggi og eftirliti með innviðum. Í fiskeldi í sjó og ferskvatni má helst nefna aðgerðir eins og aukið eftirlit með ýmsum framleiðsluþáttum (s.s. súrefni, hitastigi, afföll og afföll), aukin áhersla á kynbætur, þróun á þrautseigari innviðum, þróun á sjálfvirkum fóðrunar- og þrifabúnaði og bætt haf- og strandsvæðaskipulag.
Matís hyggst nýta niðurstöðurnar til áframhaldandi vinnu hérlendis
Allar kynningar frá ráðstefnunni í Róm má finna á heimasíðu verkefnisins, www.ClimeFish.eu. Þar má líka finna tengil á vefsvæði þar sem allar helstu niðurstöður hafa verið dregnar saman fyrir hvert fiskveiði- og eldissvæði fyrir sig, með kortum og gagnvirkum upplýsingum. Matís stefnir nú á frekari vinnu á þessu sviði og hyggst nýta sér þá aðferðafræði sem þróuð var innan ClimeFish verkefnisins til að skoða áhrif loftslagsbreytinga á íslenskan sjávarútveg og fiskeldi, meta aðlögunarþörf og mögulegar aðlögunaraðgerðir, en lítil vinna hefur farið fram á þessu sviði hér á landi. Vonast er til að sú mikilvæga reynsla sem varð til innan ClimeFish verkefnisins við að meta aðlögunarþörf og æskilegar aðlögunaraðgerðir innan fiskveiða og eldis víðsvegar í Evrópu geti nýst til að skoða sambærilega þætti hérlendis.
Í umræðuskýrslu Loftslagsráðs Íslands frá því í janúar sl. kemur m.a. fram að þörf sé á fræðslu fyrir almenning og hagaðila um hvað raunverulega felist í aðlögun að loftslagsbreytingum og hver birtingarmynd slíkrar vinnu sé. Slíkt þarf því að eiga sér stað innan hvers geira fyrir sig og mun Ragnhildur standa fyrir sérstakri málstofu á Sjávarútvegsráðstefnunni í nóvember nk. um áhrif loftslagsbreytinga á sjávarútveg og aðlögun að þeim. Á þessari málstofu verður m.a. leitast við að varpa ljósi á möguleg áhrif loftslagsbreytinga á íslenskan sjávarútveg út frá öllum hliðum (líffræðileg, efnahagsleg og samfélagsleg áhrif), hvernig atvinnugreinin kemur til með að þurfa að aðlagast breyttu landslagi, hvað slík vinna myndi fela í sér, hvað nágrannaríki hafa verið að gera í þessu sambandi og hvaða áhættur og tækifæri felast í slíkri vegferð.