Rætt var við Ástu Heiðrúnu Pétursdóttur sérfræðing Matís í Morgunútvarpi Rásar 2, um verkefnið SeaCH4NGE sem fjallar um að kanna hvort viðbættir þörungar í fóður kúa hafi áhrif á metanlosun þeirra.
Matís vinnur ásamt samstarfsaðilum að SeaCH4NGE sem er styrkt af EIT Food en verkefnið ber titilinn: Notkun þangs til að minnka metangas frá kúm – Leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði.
Verkefnið fjallar um skimun á fjölda þörunga, m.a. íslenskra, fyrir virkni þeirra til að minnka losun metan frá kúm.
Þessi virkni er mæld bæði í tilraunaglösum hjá Háskólanum í Hohenheim Þýskalandi og einnig verður hún mæld hjá kúm í Háskólanum í Reading á Bretlandi, þar sem allur tækjabúnaður sem þarf til verksins er fyrir hendi – eða eins og Hulda Geirsdóttir kallaði búnaðinn: “prumpklefa”. Réttara væri þó að nefna þá “ropklefa” þar sem metanlosun kúa er að mestu í gegnum rop en ekki vindgang.
Þörungarnir fara einnig gegnum ýtarlegar efnarannsóknir hjá Matís hvað varðar efnainnihald; m.a. mt.t. næringarefna, þungmálma og steinefna, enda mikilvægt að vita nákvæmlega hvað kýrnar innbyrða.
Viðtalið í Morgunútvarpi Rásar 2 má spila hér, það hefst á 0:48:18 mín
en einnig verður hægt að spyrja og fræðast um verkefnið á Vísindavöku Rannís laugardaginn 28. september n.k. í Laugardalshöll kl. 15-20.
Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins má einnig finna ítarlega umfjöllun um verkefnið.