Fréttir

Matvæli eiga ekki að ógna heilsu okkar

Það er grundvallaratriði að við sem neytendur getum treyst því að maturinn sem við borðum skaði okkur ekki né ógni heilsu okkar.

„Svo tryggja megi öryggi matvæla er því nauðsynlegt að eftirlit og rannsóknir á matvælahráefnum og framleiðslu sé virkt og í takt við þá öru framþróun og nýsköpun sem verið hefur í matvælaiðnaðinum.“ Þetta segir Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri efnarannsókna og áhættumats hjá Matís.

Ýmislegt getur haft áhrif á heilnæmi matvæla, en auk sjúkdómavaldandi sýkla sem geta borist í fólk með neyslu matar geta matvæli einnig innihaldið efni sem til langs tíma geta haft áhrif á heilsu okkar. Má þar nefna þrávirk lífræn mengunarefni eins og díoxín og PCB. Þessi efni eru fituleysanleg og geta borist í menn með fæðu og ógnað heilsu okkar hægt og bítandi.

„Langtímarannsóknir á áhrifum skaðlegra og mengandi efna í mat skiptir gríðarlega miklu máli fyrir lýðheilsu og vellíðan okkar. Tækjabúnaður og sérfræðiþekking þarf að vera fullnægjandi svo hægt sé að mæta auknum kröfum neytenda og opinberra eftirlitsaðila hvað matvælaöryggi varðar. Matvælalöggjöf hér á Íslandi er að mestu sú sama og tíðkast annarsstaðar í Evrópu og til þess að geta sýnt fram á samkeppnishæfar og samanburðarhæfar matvæla- og umhverfisrannsóknir þarf öflugt samstarf þeirra stofnana og aðila sem að þessum málaflokki koma. Má þar nefna rannsóknastofur,  matvælaframleiðendur, háskóla og stjórnvöld,“ segir Helga.

Hjá Matís er unnið ötullega að því að stuðla að bættu matvælaöryggi á Íslandi og fjölbreytt starfsemi fyrirtækisins snýr að fjölmörgum snertiflötum matvælaöryggis og heilnæmi afurða. Stór þáttur í starfseminni eru örveru- og efnamælingar þar sem árlega er unnið úr þúsundum sýna frá ýmsum aðilum í matvælaiðnaðinum og opinberum eftirlitsaðilum. Um er að ræða örveru- og efnarannsóknir á sýnum úr matvælum, neysluvatni og sjó en auk þess að vinna úr sýnum frá matvælaframleiðendum sinnir Matís einnig vöktun og öryggisþjónustu fyrir stjórnvöld. Sá hluti starfseminnar sem snýr að öryggi og vöktun óæskilegra efna í matvælum felst m.a. í mælingum á varnarefnaleifum í matvælum og þrávirkum lífrænum efnum eins og PCB-efnum. Mælingar á varnarefnaleifum miða að því að skima fyrir ýmsum hjálparefnum sem notuð eru við ræktun ávaxta og grænmetis eins og skordýraeitri, illgresiseyði og lyfjaleyfum.

„Við erum með faggildar mælingar fyrir opinberar eftirlitsstofnanir hér á landi sem þýðir að mælingar okkar hafa fengið ákveðna gæðavottun. Stjórnvöld og aðrar eftirlitsstofnanir geta þá leitað til okkar með mælingar þar sem vissum gæðastöðlum þarf að fylgja. Þá er einnig búið að útnefna Matís sem tilvísunarrannsóknarstofu Íslands fyrir örverurannsóknir á skelfiski og fyrir mælingar á Salmonella í matvælum. Við höfum sýnt fram á að mælingar okkar fyrir þessi rannsóknarsvið samræmast evrópskum stöðlum og erum ábyrg fyrir að viðurkenndar aðferðir séu við höndina og að við getum leiðbeint öðrum rannsóknastofum með slíkar mælingar,“ segir Helga.

„Markmið okkar er að vera leiðandi í matvæla- og umhverfisrannsóknum. Niðurstöður rannsókna okkar hafa skilað mikilvægum upplýsingum um neysluafurðir og umhverfi hér á Íslandi sem nýtist ekki bara á innlendum vettvangi heldur einnig erlendis,“ segir Helga og bætir við að nú sé farið í gang mikilvægt verkefni við uppbyggingu á sviði matvælaöryggis sem er áætlað að ljúki í árslok 2014. Um er að ræða verkefni sem miðar að því að gera lögbærum íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun og  heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna betur kleift að framfylgja reglugerðum um matvælaöryggi og neytendavernd sem hafa nú þegar verið innleiddar í gegnum EES samninginn.

„Lykilmarkmið þessa verkefnis er að auka enn frekar matvælaöryggi á Íslandi með því meðal annars að búa að betri rannsóknaraðstöðu og getu til að framkvæma efnagreiningar á algengustu hættum í matvælum og þróa nýjar mæliaðferðir og verkferla við lögbært matvælaeftirlit. Verkefnið er því nauðsynlegt til að Ísland geti staðið við þær auknu skuldbindingar sem við höfum undirgengist með samþykkt matvælalöggjafarinnar,“ segir Helga.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir hjá Matís.

IS