Það er mikið tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg að fá þessa ráðstefnu hingað til lands, til að kynna hvað hann stendur fyrir. Erlendis eru margir sem horfa öfundaraugum til Íslands vegna þess hve vel okkur hefur tekist að halda utan um stjórnun og nýtingu sjávarauðlindanna,“ segir Steinar B. Aðalbjörnsson, forstöðumaður miðlunar og markaðssetningar hjá Matís.
Ráðstefnan World Seafood Congress (WSC) verður haldin í Hörpu 11.-13. september nk. en að sögn Steinars er WSC einn stærsti vettvangur heims sem fjallar um verðmætasköpun og matvælaöryggi í sjávarútvegi. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og hana sækja starfsmenn útgerða og fiskvinnslu, fjárfestar og fólk úr stofnana- og menntaumhverfinu víða um heim. Steinar segir mjög eftirsótt að halda ráðstefnuna, sem var síðast í Bretlandi og þar áður í Kanada. „Það felst mikil viðurkenning í því að fá ráðstefnuna hingað til lands en Ísland er fyrst Norðurlanda til að halda hana.“ Ráðstefnan er í eigu IAFI (International Association of Fish Inspectors), sem eru samtök fag- og eftirlitsaðila í fiskiðnaði en þau leggja áherslu á faglega þætti sem snúa að matvælaöryggi og eftirliti sem tengist matvælaframleiðslu í sjávarútvegi, ekki síst í þróunarríkjum.
Bláa lífhagkerfið
Ráðstefnan er frá mánudegi og fram á hádegi á miðvikudag en þá hefst einmitt Íslenska sjávarútvegssýningin í Kópavogi. Yfirskrift ráðstefnunnar er að þessu sinni „Vöxtur í bláa lífhagkerfinu“. Lífhagkerfið spannar allar lífrænar og endurnýjanlegar auðlindir og bláa lífhagkerfið skírskotar til þess sem þrífst í höfum og vötnum. „Við viljum vekja athygli á að allt sem við gerum hefur áhrif á lífrænar auðlindir okkar. Þegar við fjöllum um sjávarútveg erum við því ekki bara að tala um fiskinn í sjónum heldur líka þörungana sem fiskarnir þrífast á, orkuna sem notuð er til að sigla á miðin, hversu vel við förum með hráefnið sem við veiðum, ásamt öllu öðru sem hefur áhrif og tengist lífinu í hafinu.“
Matvælaöryggi
Steinar segir dagskrá ráðstefnunnar ákveðna af vísindaráð sem skipuð er fulltrúum IAFI og Matís. Þar vegi þungt áherslur IAFI á matvælaöryggi og matvælaeftirlit og viðhorf vísindamanna Matís, sem sveigi áherslurnar meira að viðskipta- og fyrirtækjaverkefnum og fjármögnun.
„Þótt ráðstefnan sjálf byrji ekki fyrr en mánudaginn 11. september verða komnir ýmsir hópar hingað strax á laugardeginum til að funda um helgina.“ Hann segir að í upphafi ráðstefnunnar á mánudag verði áhersla lögð á þróunarsamstarf og stöðuna á hinum ýmsu svæðum í heiminum, þar á meðal þar sem sjávarútvegstengd mat- vælaframleiðsla er ekki komin jafn langt og á Vesturlöndum. Þá verði meðal annars fjallað um matvælaöryggi, eftirlit og skylda þætti sem miða að því að stuðla að nægu fæðuframboði og öruggum matvælum.
Tæknilegar umbyltingar
Á öðrum degi breytast áherslur ráðstefnunnar og færast meira yfir á tækniumbyltingar, fjármögnun og fyrirtækjarekstur, þar sem litið verður á matvælaframleiðslu í sjávarútvegi sem viðskiptatækifæri. Nefnir Steinar sem dæmi að mikið hafi verið gert til að auka matvælaframleiðslu í Norður- og Mið-Afríku og gera hana öruggari. Þegar það gerist sé talið að það skapi áhugaverða kosti til innviðauppbyggingar og fjármagn til þess fáist þá frá alþjóðlegum fjármálastofnunum, hvort sem það eru Alþjóðabankinn eða stofnanir Sameinuðu þjóðanna.
Síðasti dagur ráðstefnunnar, miðviku- dagurinn, verður með dálítið öðru sniði. Þá verður umfjöllun bara fram að hádegi, enda hefst þá Sjávarútvegssýningin í Kópavogi. Á þessum síðasta degi ráðstefnunnar verður miklu tjaldað til þegar kynntar verða helstu nýjungar og tækniumbyltingar sem orðið hafa síðustu misserin í matvælaframleiðslu, með sérstaka áherslu á sjávarútveginn. Þar verður meðal annars fulltrúi frá Gfresh, sem er nettengt markaðstorg fyrir sjávarafurðir á heimsvísu, ásamt Lynette Kucsma, sem kom að hönnun eins af fyrstu þrívíddarmatvælaprenturunum en hún hefur verið valin af sjónvarpsrisanum CNN sem einn af sjö tæknifrömuðum sem við ættum að fylgjast með. Auk þeirra mun John Bell, frá framkvæmdastjórn ESB, fjalla um hvernig tæknibyltingar eru að hafa áhrif á evrópskan sjávarútveg. Fleiri áhugaverðir fyrirlesarar vera einnig í boði og forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun svo loka ráðstefnunni.