Þann 5-6. September stóðu Matís og RISE frá Svíþjóð fyrir vinnustofu fyrir hönd Evrópuverkefnisins BIO2REG. Vinnustofan bar heitið “BIO2REG expert workshop on research infrastructure and living labs” og fjallaði um tengingu lífhagkerfisins við rannsóknarinnviði og „living labs“. Þar voru leiddir saman sérfræðingar á ýmsum sviðum lífhagkerfisins og fræddust þeir um verkefni sem tengjast lífhagkerfum, þróun síðustu áratuga og mikilvægi grænnar orku.
Degi 1 var eytt í heimsóknir. Dagurinn hófst í Brim þar sem gestir fengu kynningu á starfsemi fyrirtækisins, en lífhagkerfi Íslands byggir að stórum hluta á fiskveiðum. Því næst var haldið í Vaxa Impact Nutrition á Hellisheiði og fræðst um þeirra starfsemi, en þar eru örþörungar framleiddir á einstakan hátt. Daginum lauk í fiskeldisrannsóknar stöð Matís, MARS, og starfsemi þeirra kynnt. Dagur 2 fór fram í höfuðstöðvum Matís. Þar voru kynningar frá fjölda fyrirlesara, m.a. Matís, RISE, Orkídeu og Forschungszentrum Jülich. Komið var víða við og líflegar umræður sköpuðust.
Vinnustofan var ein af þeim fimm sem verkefnið stóð fyrir. Hinar fjórar fjölluðu um menntun á sviði lífhagkerfis, félagsþætti lífhagkerfa, virðiskeðjur og fjármögnun. Niðurstöður vinnustofanna verða notaðar til að ná markmiðum BIO2REG verkefnisins, en markmið þess er að auðvelda iðnaðarsvæðum sem losa mikið af gróðurhúsalofttegundum að ná fram grænni umbreytingu. Fyrir frekari upplýsingar um BIO2REG er hægt að heimsækja verkefnasíðu og heimasíðu verkefnisins. BIO2REG er þriggja ára Everkefni og eru þátttakendur 9, víðsvegar að úr Evrópu. BIO2REG er samhæfingar- og stuðningsverkefni (CSA) styrkt af Evrópusambandinu.