Fréttir

Miklir nýsköpunarmöguleikar í matvælavinnslu

„Möguleikar til nýsköpunar í matvælavinnslu á Íslandi eru að mínu mati mjög miklir“, segir Haraldur Hallgrímsson, sviðsstjóri hjá Matís.

„Þetta er ein af stóru atvinnugreinunum á Íslandi og við erum mjög góð í því að framleiða fyrsta flokks matvæli. Þegar við horfum á heimsmyndina til framtíðar þá er ljóst að aukinn fólksfjöldi kallar á meiri og betri matvæli og með aukinni velmegun í þróunarríkjunum hækkar heimsverð matvæla. Við Íslendingar höfum alla burði til að nýta okkur tækifærin sem því fylgja og Matís hefur margt fram að færa til þeirrar verðmætasköpunar,“ segir Haraldur Hallgrímsson sem tók á árinu 2012 við stöðu sviðsstjóra Nýsköpunar og neytenda.

Væntingar neytenda þarf að uppfylla
Styrkur Matís í þjónustu við matvælaiðnaðinn segir Haraldur grundvallast af mjög mörgu. Framleiðslu- og tækniþekkingu, ráðgjöf um meðferð vöru og hráefna, flutningstækni, ráðgjöf um vöruþróun, umbúðum, markaðssetningu, aðstoð við fjármögnun nýsköpunarverkefna og mörgu öðru.

„Á sviðinu  vinnum við að því að styðja markaðsdrifna virðiskeðju íslensks matvælaiðnaðar með því að hugsa alltaf fyrst um markaðinn, skilgreina og rannsaka væntingar og vilja neytenda. Síðan förum við til framleiðendanna og hjálpum þeim að uppfylla þessar væntingar. Það er grunnurinn að vel heppnaðri vöru sem nýtur hylli á markaði,“ segir Haraldur en hans svið er það  sviða Matís sem vinnur hvað mest með frumkvöðlum í matvælaframleiðslu. Haraldur undirstrikar þó að viðskiptavinir sviðsins spanni alla flóruna, frá þeim smæstu til þeirra stærstu.

„Öll verkefni og fyrirtæki hafa verið lítil í byrjun en síðan vaxið. Ég er þess fullviss að út um allt land eru góðar nýsköpunarhugmyndir í matvælaframleiðslu sem hægt er að hjálpa út á réttar brautir, þróa fyrir rétta markaði og ná góðum árangri. Þá á ég ekki aðeins við framleiðslu fyrir innlendan markað heldur einnig fyrir erlendan markað. Það er langt í að við verðum magnframleiðendur sem keppa á verðgrundvelli í öðru en fiski en við viljum ekki keppa á grundvelli lágra launa heldur á grundvelli gæða, hátækni og með öflugri markaðssetningu. Þar af leiðandi eigum við að horfa til þess að þjóna sérmörkuðum sem borga hærra verð. Þar eru tækifæri,“ segir Haraldur.

Farsælast að vinna með heimamönnum
Undir sviðið heyra matarsmiðjur á Höfn og Flúðum en matarsmiðjan á Höfn hefur fest sig rækilega í sessi á undanförnum árum. Í gegnum matarsmiðjurnar hafa mörg nýsköpunarverkefni orðið að veruleika sem tengjast smáframleiðslu í landbúnaði en áhersla verður lögð á að efla enn frekar vinnu með frumkvöðlum í sjávarútvegi á næstu misserum. Sumarið 2012 opnaði Matís  starfsstöðvar í Grundarfirði og á Patreksfirði sem Haraldur segir undirstrika þá stefnu fyrirtækisins að taka höndum saman við heimaaðila um verkefni þar sem byggt er á svæðisbundnum auðlindum og tækifærum.

„Reynsla okkar er að það tekst best til þegar við tökum höndum saman við heimaaðila um verkefni. Þau eiga þá meiri samhljóm í nærsamfélaginu og árangurinn verður meiri og sýnilegri fólkinu á svæðunum. Okkar aðkoma frá Matís er að styðja frumkvöðla og fyrirtæki á svæðunum til að framkvæma þeirra hugmyndir,“ segir Haraldur en í Grundarfirði er starfsstöðin í húsnæði með framhaldskóla Snæfellinga. Markmiðið með starfsstöðinni er að styðja við verkefni sem byggja á nýtingu sjávarfangs úr Breiðafirði, til að mynda lífefnavinnslu úr stórþörungum og nýtingu á vannýttu hráefni á borð við fiskslóg.

Með staðsetningu starfsstöðvar Matís á Patreksfirði segir Haraldur ætlunina að styðja við uppbyggingu í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum. „Þessar nýju starfsstöðvar við Breiðafjörðinn starfa þétt saman. Líkt og heimamenn horfum við til möguleika svæðisins í heild, allt frá Snæfellsnesi til suðurhluta Vestfjarða,“ segir Haraldur.

IS