Fréttir

Niðurstöður úr forrannsóknum á stofnerfðafræði makríls á Íslandsmiðum – ekki eingöngu evrópskur?

Fyrstu niðurstöður rannsókna á stofnerfðafræði makríls á Íslandsmiðum sýna að ekki sé hægt að útiloka að lítill hluti hans sé af öðrum uppruna en evrópskum. Á næstu mánuðum munu niðurstöður úr öflugri erfðafræðilegri greiningu skera úr um hvort og þá í hvaða hlutfalli makríllinn hér við land komi vestan að.

Fyrir stuttu tók Kjartan Stefánsson hjá Fiskifréttum áhugavert viðtal við Önnu Kristínu Daníelsdóttur, sviðsstjóra Öryggis, umhverfis og erfða hjá Matís. Viðtalið er hér í heild sinni en það hafði áður birst í Fiskifréttum.

Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar, Matís og Háskóla Íslands ásamt norskum, færeyskum, grænlenskum og kanadískum vísindamönnum hófu rannsóknir á makríl í Norður Atlantshafi fyrir tveimur árum í samvinnu við nokkur fyrirtæki. Meðal þeirra eru Huginn ehf, Síldarvinnslan hf, Vinnslustöðin hf. og Framherji aps. Styrkur frá Verkefnasjóði sjávarútvegsins ýtti verkefninu úr vör árið 2011 og í kjölfarið fylgdu færeyski rannsóknasjóðurinn (Faroese Research Council) og norræni NORA sjóðurinn með fjármögnun. Einnig hefur Rannís veitt verkefninu styrk. Verkefnið heitir: „Stofnerfðafræði makríls í Norður-Atlantshafi – er stofninn eingöngu evrópskur?“

Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís ohf., er verkefnisstjóri í þeim hluta rannsóknanna sem styrktar eru af Verkefnasjóði sjávarútvegsins en Christophe Pampoulie, sérfræðingur í erfðafræði hjá Hafrannsóknastofnun, er verkefnisstjóri í NORA verkefninu.

Endanlegar niðurstöður úr verkefninu liggja ekki fyrir en niðurstöður úr forrannsóknum hafa verið kynntar fyrir þátttakendum. Þrátt fyrir að makríllinn sem gengur inn í íslensku lögsöguna sé að langstærstum hluta evrópskur eru vísbendingar um að hann sé að einhverju leyti af kanadískum uppruna, að því er Anna Kristín Daníelsdóttir sagði í samtali við Fiskifréttir. Hún tók þó fram að hæfni aðferðarinnar sem þessar niðurstöður byggja á til að greina milli stofna í vestur og austur Atlantshafi væri of veik til að gefa afdráttarlausar fullyrðingar um að kanadískan makríl sé að finna á íslensku hafsvæði og þá í hvaða hlutfalli.

Fjöldi sýna

Alls voru 1414 sýni erfðagreind innan þessa verkefnis. Viðmiðunargagnagrunnur samanstóð af sýnum af hrygningarslóð frá Frakklandi, Írlandi og Kanada og var stofngerð þessara sýna könnuð. Í heild var 471 sýni safnað á Íslandsmiðum árin 2010 og 2011 og þau erfðagreind með 15 völdum erfðamörkum sem hönnuð voru í verkefninu. Íslensku sýnin endurspegla dreifingu makríls hringinn í kringum landið.  Með því að nýta raðgreiningartækni frá Roche (454 flx) voru 30 ný svokölluð „microsatellite“ erfðamörk hönnuð. Búið er að birta ritrýnda vísindagrein þar sem aðferðafræði og einkennum þessara 30 erfðamarka er lýst.

Þrjár niðurstöður

Þessi rannsókn leiddi af sér þrjár megin niðurstöður: 1) Ekki fannst marktækur erfðafræðilegur munur á milli sýnanna tveggja frá Evrópu þegar þau voru rannsökuð með hlutlausum „microsatellite“ erfðamörkum. 2) Marktækur erfðafræðilegur munur fannst á milli sýna frá Evrópu og Kanada. Þrátt fyrir að genaflæði sé takmarkað yfir Atlantshafið þá er erfðafræðilegur munurinn minni (1,6%) en búist var við ef niðurstöðurnar eru bornar saman við aðrar uppsjávartegundir eins og síld. 3) Stærsti hluti makríls sem veiðist í íslenskri fiskveiðilandhelgi er af evrópskum uppruna eins og áður segir en þó er mögulega lítill hluti af kanadískum uppruna. Makríll sem flokkast til kanadísks uppruna virðist finnast á öllu hafsvæðinu kringum Ísland sem vekur upp ýmsar spurningar sem einnig verður leitað svara við.
Það skal áréttað að tölfræðilegur grunnur þessarar rannsóknar er veikur og frekari rannsóknir eru í gangi. Næstu skref í rannsóknunum snúa að því að finna næmari erfðamörk sem greina betur á milli stofneininga og beita þannig nýjustu erfðagreiningartækni í að þróa aðgreinandi erfðamörk undir vali (t.d. SNP erfðamörk).

Greinilegur munur milli makríls við Kanada og í Evrópu

Fram kom hjá Önnu að marktækur erfðafræðilegur munur væri á evrópska makrílnum vestur af Írlandi og í Biscayflóa annarsvegar og makríl við Kanada hins vegar. Þó væri þessi erfðafræðilegur munur minni en á síldarstofnum sem halda sig á samsvarandi hafsvæðum. Það skýrist væntanlega af fari og hegðun makrílsins en útbreiðslusvæði makrílsins er mjög víðfeðmt.

Staðan á verkefninu

Anna var í lokin spurð hver staðan væri á verkefninu. „Nú er unnið að frekari sýnaöflun, tölfræðigreiningu og verið að kanna sýni betur með nýjum erfðamörkum (SNPs). Með því verður hægt að fá gleggri og áreiðanlegri upplýsingar um erfðafræði makríls í íslensku lögsögunni. Fyrstu vísbendingar þar um eru væntanlegar í haust.

NORA samstarfsverkefnið er nú á öðru ári af þremur. Eftir ár teljum við að unnt verði að svara með meiri vissu hvort og þá hve hátt hlutfall makríls hér við land kemur að vestan. Það tekur tvö til þrjú ár að þróa aðferðarfræði, safna sýnum og koma á samstarfi. Við erum líka að horfa á þetta verkefni sem grunn að frekari rannsóknum og að niðurstöðurnar megi nýta í stofnmati, fiskveiðistjórnun og við veiðar í framtíðinni,“ sagði Anna Kristín Daníelsdóttir.

Nánari upplýsingar veitir Anna Kristín Daníelsdóttir.

IS