Matís er að rannsaka hvort íslenskir þörungar geti dregið úr metanlosun frá kúm í verkefninu SeaCH4NGE sem styrkt er af EIT Food. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að notkun þörunga sem hluta fóðurs getur minnkað myndun metangass frá jórturdýrum. SeaCH4NGE rannsakar fjölbreytt úrval íslenskra þörunga og hvort þeir geti minnkað metan frá kúm. Þörungarnir eru bæði rannsakaðir á rannsóknastofum m.t.t. efnainnihalds og einnig til getu þeirra til að draga úr metangas myndun. Þeir þörungar sem koma best út á rannsóknarstofum verða síðan rannsakaðir áfram í fóðurtilraun með kúm.
Ljóst er að áhrif hamfarahlýnunar eru víðtæk og alvarleg. Nýleg skýrsla Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) benti á alvarlegar afleiðingar hlýnunar jarðar um 1.5°C frá iðnbyltingu samanborið við hlýnun um 2°C. Nú þegar stefnum við að lágmarki 3-4°C hlýnunar jarðar árið 2100 – en meðaltals hitamunur í dag og á tímum ísaldar er einmitt u.þ.b. 4°C. Í því samhengi er ljóst að slík hækkun á hitastigi jarðar myndi kollvarpa vistkerfum.
Tíðrætt er um kjöt og mjólkurvörur í þessu samhengi. Ástæðan er sú að kýr losa metangas við jórtrun en metan er mjög sterk gróðurhúsalofttegund og er 28x áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur. Vegna gríðarlegs fjölda af kúm á heimsvísu spilar þessi metanlosun stóran þátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði sem er tæpur fjórðungur losunar af mannavöldum.
Nauðsynlegt er að bregðast við. Breytingar á matarvenjum, landbúnaðarkerfum, stefnum og löggjöfum auk minnkunar á matarsóun eru m.a. mikilvægar aðgerðir til að bregðast við. Engin töfralausn er á vandamálinu og alltaf þarf að hafa í huga heildræna nálgun. SeaCH4NGE stefnir að því vera einn hlekkur í átt að jákvæðum breytingum í landbúnaði m.t.t. umhverfismála.
Hér fyrir neðan er myndband á ensku sem er stutt samantekt um verkefnið og ávinning þess.