Fréttir

Öll sýni af sjávarafurðum til manneldis undir hámarksgildum ESB

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís hefur birt árlega skýrslu sem fjallar um mengunarvöktun í sjávarfangi, lýsi og fóðri. Skýrslan kynnir niðurstöður efnagreininga á óæskilegum efnum í mikilvægum sjávarafurðum en verkefnið er hluti af sívirku vöktunarverkefni sem er styrkt af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og hefur verið í gangi frá árinu 2003.

Árið 2012 var lögð áhersla á að mæla svokölluð flúoreruð alkanefni (PFC) og er þetta í annað sinn sem þessi efni eru mæld í íslensku sjávarfangi. Einnig voru eftirfarandi efni mæld í sjávarafurðum sem ætlaðar eru til manneldis sem og afurðum til lýsis- og mjöliðnaðar: dioxin, dioxinlík-PCB og bendi PCB efni, eldhemjandi efni (PBDEs), málmar og 12 mismunandi tegundir varnarefna (skordýra og plöntueitur). Eina PFC efnið sem fannst var PFOSA í tveim sýnum, en styrkurinn var lágur. Líkt og fyrri ár vöktunarinnar mældist almennt lítið magn óæskilegra efna í íslensku sjávarfangi árið 2012. Þrátt fyrir breytingu á hámarksgildum fyrir díoxín, DL-PCB og NDL-PCB (ESB reglugerð nr. 1259/2011) eru öll sýni af sjávarafurðum til manneldis undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma.

Undesirable substances in seafood products – results from the Icelandic marine monitoring activities in the year 2012.

Gögnin sem safnað er ár frá ári í þessu verkefni fara í að byggja upp sífellt nákvæmari gagnagrunn um ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. mengunarefna. Skýrslan er á ensku og er aðgengileg á vef Matís þannig að hún nýtist framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og öðrum við kynningu á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða.

Niðurstöður mælinga á fiskimjöli og lýsi til fóðurgerðar staðfesta nauðsyn þess að fylgjast vel með magni óæskilegra efna, ekki síst þrávirkra lífrænna efna eins og díoxín, PCB efna og varnarefna í þessum afurðum á mismunandi árstímum. Styrkur þrávirku efnanna er háður næringarlegu ástandi uppsjávarfiskistofnanna sem afurðirnar eru unnar úr og nær hámarki á hrygningartíma. Fyrri skýrslur hafa sýnt að þá hættir magni díoxína og díoxín-líkra PCB efna auk einstakra varnarefna til þess að fara yfir leyfileg mörk Evrópusambandsins. Þetta á sérstaklega við um afurðir unnar úr kolmunna.

Höfundar skýrslunnar eru Sophie Jensen, Hrönn Ólína Jörundsdóttir, Natasa Desnica, Þuríður Ragnarsdóttir og Helga Gunnlaugsdóttir. Verkefnastjóri er Helga Gunnlaugsdóttir.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir.

IS