Ráðstefna um nýja aðferðafræði í verndunarlíffræði sem notast við umhverfis DNA (environmental DNA) til að meta líffræðilegan fjölbreytileika í vistkerfum verður haldin 2. og 3. október næstkomandi í fundarsal Hafrannsóknastofnunar. Þessi tækni hjálpar við að komast fyrir ýmsa af þeim annörkum sem fylgir öðrum aðferðum og býður upp á fljótlega og ódýra leið til þess að meta líffræðilegan fjöbreytileika í hafinu.
Uppruni eDNA í hafinu er ýmiskonar en venjulega kemur DNA-ið frá lífverunum úr húðfrumum, slími, hrognum, hlandi eða saur. Sjó er safnað á misunandi dýpi á þeim svæðum sem eru til rannsókna og er sjórinn svo síaður. Í síunni verður eftir DNA úr lífverum sem hægt er að greina með raðgreiningartækni. Vöktun á líffræðilegum fjölbreytileika með umhverfis DNA hefur marga kosti umfram aðrar aðferðir og hefur aðferðin reynst vel við mat á líffræðilegum fjölbreytileika í mörgum vistkerfum.
Á ráðstefnunni munu íslenskir og erlendir sérfræðingar kynna rannsóknir sýnar og ræða um aðferðir til notkunar á umhverfis DNA til mælinga og vöktunar á líffræðilegum fjölbreytileika.
Ráðstefnan verður haldin í fundarsal Hafrannsóknastofnunar 2. til 3. október 2019 og er opin. Skráning er forsenda þátttöku.
Ráðstefnan er styrkt af Ag-Fisk og skipulögð af Davíð Gíslasyni á Matís og Christopher Pampoulie á Hafrannsóknastofnun.