Fréttir

Rannsóknarúrræði bætt í Tansaníu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýtt og glæsilegt rannsóknarskip hefur verið afhent stjórnvöldum í Tansaníu. Það mun nýtast við rannsóknir á fiskistofnum í Tanganyikavatni, en fiskur þaðan er ein megin fæðuuppsprettan í landinu sem og í nágrannalöndunum Búrundí, Kongó og Zambíu.

Nýlega afhentu starfsmenn Matís stjórnvöldum í Tansaníu vel útbúið rannsóknarskip fyrir Tanganyikavatn í Tansaníu. Með afhendingu skipsins lýkur formlega tveggja ára þróunarsamvinnuverkefni Matís í Tansaníu sem meðal annars miðaði að því að þróa vinnsluaðferðir á fiski og bæta rannsóknarúrræði og skilning á lífríki í vatninu.  Fjöldi fólks byggir lífsviðurværi sitt af veiði í vatninu enda annað stærsta ferskvatn í heimi, þó aðferðir við veiðar og vinnslu séu frumstæðar.

Stuðlar að sjálfbærri þróun

„Með aukinni þekkingu á efnasamsetningu vatnsins og lífríki er hægt að stuðla að sjálfbærri þróun fiskistofna og efla samþættingu veiða. Skipið mun því koma vel að notum við rannsóknir og mat á stofnstærðum fiska og til að skilja efnafræðilega þróun í vatninu,“ segir Margeir Gissurarson, verkefnastjóri  hjá Matís.  

Tanganyikavatn er á landamærum Búrundí, Kongó, Tansaníu ogZambíu og er mikilvæg fiskveiðiauðlind með einstakt líffræðilegt vistkerfi.  Vatnið er um 32 þúsund ferkílómetrar að stærð eða um þriðjungur af flatarmáli Íslands.

Matís tekur reglulega þátt í þróunarsamvinnuverkefnum víða um heim. Í þessu samstarfi er til að mynda stuðlað að uppbyggingu þekkingar í matvælaiðnaði í þróunarlöndum við Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Háskóla Sameinuðu þjóðanna og annarra er vinna að þróunarsamvinnu.


 
 
 Skipið sem var gert upp Nýja skipið er útbúið nákvæmum tækjum
IS