Nú er í gangi verkefnið SUSTAIN, risastórt alþjóðlegt verkefni, en tilgangur þess er að bora tvær holur í eyjunni og nýta gögnin sem fást til margvíslegra og flókinna rannsókna. Þetta er stærsta rannsókn sem fram hefur farið frá upphafi í Surtsey og er fjölþjóðlegur hópur vísindafólks sem tekur þátt. Matís er þátttakandi í verkefninu, undir forystu dr. Viggó Þ. Marteinssonar, en verkefnið sem slíkt er undir stjórn dr. Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands og dr. Marie Jackson, dósents við Háskólann í Utah í Bandaríkjunum.
Vísindamennirnir sem koma að rannsókninni eru frá Íslandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Noregi, Svíþjóð, Bretlandi, Ítalíu, Nýja Sjálandi og Ástralíu. Leiðandi rannsakendur í verkefninu af Íslands hálfu eru auk Magnúsar Tuma, Andri Stefánsson prófessor í jarðefnafræði við Háskóla Íslands, Viggó Þór Marteinsson örverufræðingur frá Matís, Tobias B. Weisenberger jarðefnafræðingur frá Ísor og Kristján Jónasson jarðfræðingur frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Fleiri sérfræðingar og tæknimenn frá þessum stofnunum taka þátt en einnig munu þaulreyndir borjarðfræðingar frá Verkís og Jarðtæknistofunni koma að verkefninu auk hóps framhaldsnema og nýdoktora.
Mikið er lagt upp úr því að raska ekki lífríki Surtseyjar við þessa viðagripsmiklu rannsóknir. Allir aðilar sem að verkefninu koma og starfa á eyjunni hafa fengið nákvæmar leiðbeiningar varðandi undirbúning og þær aðstæður sem þar eru til að tryggja lágmarks rask. Auk þess hefur Landhelgisgæslan lagt fram þyrlu sem fermir fólk og tæki fram og tilbaka þannig að átroðningi verði haldið í algeru lágmarki á þessum viðkvæma og fallega stað.