Fréttir

Ruglingslegar upplýsingar um léttsaltaða fiskinn!

Fyrstu fréttir af léttsöltuðum saltfiski í framleiðslu bárust í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Á þeim tíma var einn framleiðandi á Vestfjörðum sem framleiddi léttsöltuð og lausfryst flök fyrir Spánarmarkað. Léttsaltaður frosinn fiskur var fyrst og fremst hugsaður sem ódýrari valkostur en útvatnaður hefðbundinn saltfiskur, enda vinnsluferlið töluvert styttra og einfaldara.

Léttsaltaður fiskur er aðeins um 1,5% saltur og hefur saltið því engin áhrif á geymsluþol vörunnar og því nauðsynlegt að beita frystingu sem varðveisluaðferð. Tollayfirvöld á Spáni úrskurðuðu fyrir nokkrum misserum að þessi afurð skuli flokkast sem frosinn fiskur en ekki sem saltfiskur eins og íslensk yfirvöld töldu rétt að gera.

Það er með öllu vonlaust að vita hvernig útflutningur léttsaltaðra afurða hefur þróast ef eingöngu er stuðst við opinber gögn, því það voru engin sérstök tollskrárnúmer til fyrir léttsaltaðar afurðir fyrr en eftir 2007, en þá var búið flytja þessa vöru út í ríflega einn og hálfan áratug.

Í útflutningstölum frá 2008 er í fyrsta skipti greint frá útflutningi léttsaltaðra fiskafurða og þá voru 10 mismunandi tollnúmer til staðar í Tollskrá í kaflanum 0305 þar sem saltfisk er m.a. að finna. Þetta fyrsta ár sem upplýsingar um útflutning léttsaltaðra afurða eru sýnilegar voru flutt út 6.600 tonn að andvirði 4,6 milljarðar króna.

Lettsaltadur

Strax árið 2009 er skráð útflutt magn tæp 11.000 tonn og tæp 12.000 tonn árið 2010, en svo gerist eitthvað stórmerkilegt árið 2011 því þá hrapar útflutningurinn í 4.200 tonn.

Hvað í ósköpunum gerðist? Hrundi markaðurinn eða fóru útflytjendur að skrá útflutninginn með öðrum hætti? Það tók reyndar ekki langan tíma að fá það staðfest að markaðurinn hafði ekkert gefið eftir heldur höfðu útflytjendur tekið upp á því að skrá léttsaltaða fiskinn sem fryst fiskflök í kafla 0304.

Ástæðan fyrir þessum tilfærslum var víst sú að vörur í saltfiskkaflanum 0305 máttu ekki innihalda fosfat. Bann á notkun fosfats í þessum flokki afurða var eingöngu til þess að koma í veg fyrir aukið viðbætt vatn í hefðbundnum saltfiski, sem var þurrkaður hjá sumum kaupendum í Portúgal og víðar.

Fosfatnotkun í fiskafurðum í öðrum tollskrárköflum er ekki bönnuð, svo framalega sem notkunin sé innan leyfðra marka og að notkun fosfats sé merkt á umbúðum.

Þegar útflytjendum var ljóst að ekki mátti nota fosfat í saltfiski þá brugðu þeir á það ráð að flytja léttsaltaða fiskinn út sem fryst flök og staðfestu þar með notkun fosfats með óbeinum hætti. Þar með hvarf léttsaltaði fiskurinn að nýju og hefur ekki verið greinanlegur í útflutningi síðan nema að litlu leyti þrátt fyrir að tollskrárnúmerum í kaflanum 0305 fyrir léttsaltaðar afurðir hefur verið fjölgað umtalsvert.

Það var í raun óþarfi þetta upphlaup að hætta að skrá léttsaltaðar afurðir í saltfiskkaflann, því þessi númer sem notuð eru hér á landi nýtast ekki beint við skráningu innflutnings í viðskiptalandinu, heldur nýtast þau fyrst og fremst sem upplýsingar við skráningu útflutnings sjávarafurða héðan. Yfirvöld á Spáni voru búin að úrskurða að léttsaltaður frystur fiskur er ekki saltfiskur heldur frystur fiskur, því hafði þessi tilfærsla engar afleiðingar aðrar en þær að núna vitum við minna en ekki neitt um heildarmagn og verðmæti léttsaltaðra afurða, þar sem afurðirnar eru að hluta til komnar saman við hefðbundin frosin flök og skekkja þá mynd að auki umtalsvert.

Þess utan er hægt að taka umræðu um notkun tæknilegra hjálparefna á borð við fosfat við framleiðslu fisks, saltfisks eða léttsaltaðra afurða. Vitað er að margir nýta sér kosti fosfats við framleiðslu og þeim er skilt að greina frá því á umbúðum en ef einhverjir reyna að komast hjá því að tilgreina slíka notkun er það er í raun háalvarlegt mál eitt og sér ef rétt reynist.

Þessi samantekt um léttsaltaða fiskinn er fyrst og fremst ætluð til að sýna fram á hvað erfitt er að sjá hver þróunin er í framleiðslu sjávarafurða vegna þekkts misræmis í skráningu. Léttsaltaður fiskur verður ekki sýnilegur í úrflutningstölum fyrr en hálfum öðrum áratug eftir að útflutningur hófst og síðan taka framleiðendur þá ákvörðun að skrá vöruna í aðra tollflokka en íslensk yfirvöld ætluðust til.

Það er tiltölulega auðvelt að draga fram ýmis önnur dæmi um hæpna skráningu útflutnings og nægir þar að nefna að þriðja verðmætasta tegundin sem við flytjum út heitir „ýmsar tegundir“. Greinilegt er að ekki er vanþörf á að bæta úr sem fyrst svo hægt sé að sjá með auðveldum hætti hvað við framleiðum og hvernig við nýtum okkar sjávarauðlind til sjálfbærrar verðmætasköpunar.

Matís vinnur nú að verkefninu „Aukin verðmæti gagna“ ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Tollstjóraembættinu, Hagstofu Íslands, Iceland Seafood, Icelandic Group, Brim hf, Ögurvík hf og Markó Partners. Hið víðtæka samstarf sýnir vilja hagaðila í sjávarútvegi til að gera betur í skráningu útflutnings. Í verkefninu er unnið hörðum höndum að því að gera það mögulegt að skrá útflutning með mun áreiðanlegri hætti en áður og nýtur verkefnið styrks frá AVS sjóðnum. Starfsmenn verkefnisins eru Daníel Agnarsson og Friðrik Valdimarsson tölvunarfræðingar og nýta þeir sér þá hugmynd að byggja alla skráningu útflutnings á vörulýsingum þar sem staðlað hugtakasafn fiskiðnaðarins er lagt til grundvallar.

Með aukið verðmæti gagna að leiðarljósi verða ítarlegar upplýsingar til um leið og nýjar afurðir eru fluttar á erlenda markaði, þannig á ekki að þurfa að bíða eftir því að til verði ný tollskrárnúmer og hægt verður að fylgjast með þróun afurða þótt breytingar verði gerðar á tollskránúmerum og því á enginn að þurfa að velkjast lengur í vafa um hver verðmæti einstakra tegunda eru eða hvar tilteknar vörur eru skráðar í tollnúmerakerfinu.

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson hjá Matís.

IS