Fréttir

Sameiginleg fiskveiðistefna ESB skilar ekki tilætluðum árangri – vísindamenn Matís og aðrir vísindamenn geta lagt sitt af mörkum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís gegnir forystuhlutverki í nýju og umfangsmiklu fjölþjóðaverkefni sem 7. rammáætlun um rannsóknir og þróun innan Evrópu (FP7) hefur ákveðið að styrkja til þriggja ára, EcoFishMan. Upphafsfundur verkefnisins fer fram hjá Matís dagana 8. og 9. mars.

Styrkur ESB hljóða upp á alls 3 milljónir evra, jafnvirði um 475 milljóna króna. Þar af er hlutur Matís alls 450.000  eða jafnvirði rúmlega 70 milljónir króna.  Að EcoFishMan verkefninu koma alls 13 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í átta Evrópulöndum, þar á meðal Háskóli Íslands og háskólinn í Tromsö í Noregi. Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís, er verkefnisstjóri og dr. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, verður með henni í vísindanefnd verkefnisins.

Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins skilar ekki þeim árangri sem til er ætlast af henni. Nægir að nefna að hátt í 90% fiskistofna í lögsögu ESB-ríkja eru ofveiddir og þriðjungur stofnanna er í útrýmingarhættu vegna þess að þeir ná ekki að endurnýjast. Brottkast er stórfellt vandamál, til dæmis er áætlað að 30-55% þorskafla úr Norðursjó sé fleygt fyrir borð.

Evrópusambandið væntir þess að í EcoFishMan verkefninu verði þróuð ný aðferðafræði sem nýtist við breytingar og umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfi sínu. Lögð er áhersla á samstarf við sjómenn, útgerð og vinnslu og að hagnýta upplýsingar úr rafrænum afladagbókum. Markmið verkefnisins er að stuðla að vistvænni, sjálfbærri og hagrænni stjórnun með sérstakri áherslu á rekjanleika og að lágmarka brottkast afla.  Eitt af markmiðum EcoFishMan verkefnisins er að greina það sem vel hefur tekist í íslenskri fiskveiðistjórnun og miðla þeirri reynslu áfram. Jafnframt því er horft til meira samstarfs við þá sem starfa að veiðum og vinnslu í sjávarútveginum.

Meðal íslenskra aðila, sem leitað verður til vegna faglegrar þekkingar eru  Fiskistofa, Samtök fiskvinnslustöðva, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Hafrannsóknastofnunin, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Landssamband smábátaeigenda og nokkur íslensk fyrirtæki sem framleiða tæknibúnað fyrir sjávarútveginn, svo sem TrackwellVaki og Marel.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson forstjóri Matís.

IS