Í þessari viku hefur Nýsköpunarvikan eða Iceland Innovation Week verið haldin hátíðleg víða um borgina. Á morgun, föstudaginn 20. maí verða fjölmörg erindi á dagskrá sem snúa að nýsköpun í matvælageiranum og verður erindi Matís: Sjálfbær matvælaframleiðsla – Nýsköpun er lykillinn! þeirra á meðal.
Viðburðurinn fer fram í Grósku hugmyndahúsi í Vatnsmýrinni, í salnum Fenjamýri á fyrstu hæð og stendur frá kl. 13:30-15:00.
Þátttaka í viðburðinum er ókeypis. verið velkomin!
Viðburðurinn samanstendur af 5 stuttum og skemmtilegum erindum sem fjalla á einn eða annan hátt um nýsköpun og sjálfbærni í matvælaframleiðslu.
Dagskráin er eftirfarandi:
- Er nýsköpun góð? Skynmat og neytendarannsóknir. – Aðalheiður Ólafsdóttir
- Tækifæri til nýsköpunar í íslensku grænmeti – Eva Margrét Jónudóttir og Ólafur Reykdal
- Hvernig líta próteingjafar framtíðarinnar út? -Margrét Geirsdóttir
- Eins manns úrgangur, annars manns gull? Sjálfbær áburðarframleiðsla á Íslandi -Jónas Baldursson og Eva Margrét Jónudóttir
- Hvernig skal tala við börn um sjálfbærni og loftslagsbreytingar? -Katrín Hulda Gunnarsdóttir
Nánar um erindin:
Aðalheiður Ólafsdóttir er algjör snillingur í öllu sem við kemur skynmati og neytendarannsóknum, enda ætlar hún að fræða gesti um hvað felst í þessum hlutum í erindi sínu í Nýsköpunarvikunni; Er nýsköpun góð?
Áhugasöm geta auk þess fengið að láta reyna á skynmatshæfileika sína!
„Það skiptir litlu máli þótt ný vara á markaði sé meinholl, laus við öll heimsins bragð- og litarefni, lífræn og sjálfbær. Ef hún bragðast eða lyktar mjög illa, þá mun henni ekki vegna vel“
Ólafur Reykdal er algjör reynslubolti þegar kemur að rannsóknum á íslensku grænmeti og korni og Eva Margrét hefur stundað matvælarannsóknir um árabil!
Þau verða með mjög svo líflegt erindi í Nýsköpunarvikunni þar sem Kahoot kemur meðal annars við sögu og fjallar um þau óteljandi tækifæri sem liggja í nýsköpun í grænmetisgeiranum!
Margrét Geirsdóttir lífefnasjení og almennur lífskúnstner vinnur nú hörðum höndum að verkefninu NextGen Proteins um próteingjafa framtíðarinnar ásamt Birgi Erni Smárasyni verkefnastjóra. Hún ætlar að fjalla um hvað er að frétta af rannsóknum á skordýrapróteini og spirulina og leyfa gestum jafnvel að smakka óhefðbundin prótein!
Jónas Baldurssson og Eva Margrét hafa síðustu misseri bókstaflega unnið að því að rannsaka kúk og skít! Fallegra væri þó auðvitað að tala um lífrænan úrgang og það gera þau almennt.
Þau ætla að sýna myndband í Tik-Tok stíl um verkefnið sitt um Sjálfbæra áburðarframleiðslu í nýsköpunarvikunni. Erindið er sérstaklega viðeigandi um þessar mundir þar sem aðstæður í heiminum eru að gera öllum erfitt fyrir að flytja áburð á milli landa.
Katrín Hulda og Justine Vanhalst vita allt um það hvernig best og sniðugast er að fræða börn og ungt fólk um þung málefni eins og loftslagsbreytingar og sjálfbærni. Í vetur hafa þær unnið að tveimur mismunandi verkefnum með börnum um allt land og meira að segja út fyrir landssteinana þar sem þær hafa virkjað þau til þess að setja á sig frumkvöðla-gleraugun og takast á við raunverulegar áskoranir – og finna raunverulegar lausnir!
Erindið þeirra í nýsköpunarvikunni snýr að afrakstri þessara verkefna.
Fylgstu með á viðburðarsíðunni á facebook hér: Innovation Week: Sjálfbær matvælaframleiðsla – Nýsköpun er lykillinn!